Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Rabbarbarasulta og annað meðlæti

Var að moka í mig lambasteikinni með brúnni sósu og kartöflum og vææææænnni hrúgu af rabarbarasultu (frá mömmu ovkors) og þá rifjaðist upp fyrir mér hvað kjötbúðingurinn hennar ömmu á Brún var alltaf dásamlega góður með kartöflum og vel af sultu, í framhaldi af því rifjaðist svo upp fyrir mér að ég fékk einmitt uppskriftina hjá Deddu frænku í síðustu heimsókn, aldrei að vita nema verði framreidd dönsk útgáfa af ködbuding með syltetöj í Lindeparken einhvern tímann Happy.

Kjötbúðingur Ömmu á Brún: 500 g nautahakk - ½ bolli tómatsósa - ½ bolli haframjöl - ¼ bolli saxaður laukur - 1 egg - 1 tsk. salt - ½ tsk. pipar - ½ tsk. hvítlaukssalt - 1 tsk. kjötkraftur - Smjör(líkis)biti ofan á  - Bakað við 200°C í ca. 30 mín.

En svo rifjaðist líka upp fyrir mér "meðlætisrifrildi" okkar Ólafar í gærkvöldi.  Hún fór eitthvað að tala um hvað hefði nú verið gott að stappa matinn saman í gamla daga (fiskur og tómatsósa t.d.) og ég minnist á dásemdina við að grauta slátri, kartöflum rófum og öllu öðru saman á disknum og svo veeeel af uppstúf yfir.  Ólöf gat ekki dulið hneykslunina.  Uppstúf á slátur, þvílík og önnur eins vitleysa, það á að borða kartöflustöppu með slátrinu.  Uppstúf með hangikjöti.  Þá greip ég nú inn í og benti á að það á ekkert að vera sulla uppstúf á hangikjötið heldur borða kartöflustöppu með og ekkert kjaftæði.  Grundvallarágreiningur.  Bara svo að enginn fari að óttast þá skildum við Ólöf þrátt fyrir allt sem vinkonur síðar um kvöldið... Whistling


Hrós dagsins

Fá:

Ólöf fyrir að mæta í gærkvöldi og vaska upp ógeð síðustu viku og elda svo dýrindis lax ofan í mig (leiðin að hjarta ófrísku konunnar er þarna gegnum magann).

Dagbjört fyrir að mæta með flakkarann sinn stútfullan af alls konar skemmtilegu dóti svo mér leiðist aðeins minna í bælinu, og síðan ætlar hún í búðina fyrir mig á eftir (svona úr því að hún er hvorteðer á bílnum mínum).

Halldóra fyrir að skipa mér strax að liggja í bælinu þegar ég minntist á hvort kannski hugsanlega svona ef í það færi ef ég væri ekki alveg nógu svakalega hress þá væri hún jafnvel laus að taka fyrir mig 2 jarðarfarir eftir hádegi.  Kannski var þetta samt ekki af neinni umhyggju heldur bara fégræðgi.

Gísli fyrir að mæta með afganginn af lambasteikinni hennar mömmu (annars væri einmitt ekkert ætilegt í ísskápnum úr því að ég er búin með afganginn af laxinum nema 1 appelsína og 1 kókómjólk) og ætla svo að hjálpa mér að tæma íbúðina á miðvikudaginn, nema það heitir kannski ekki að "hjálpa" því það er ekki eins og ég ætli að gera neitt sjálf.  Allir velkomnir hvenær sem er að pakka fyrir mig og svo þrííííífaaaa......

Stubburinn í maganum fyrir að halda uppi fjöri allan daginn og minna mig á að kannski er það einmitt þess virði að hanga í bælinu, púff (því ef hann tæki nú upp á því að fæðast þá yrði augljóslega mjög mikil vinna að hugsa um hann svona ofvirkan mwahahaha)

P.S. á einhver leisíboj til að lána mér í mánuð?


Samdráttur í efnahagslífinu

Jájá það má vel vera, en persónulega hef ég meiri áhyggjur af samdráttum í móðurlífinu.  Er í fj.. rugli þessa dagana og þarf að rembast við að slappa af.  Eða rembast við að rembast ekki neitt.  Eða öllu heldur ekki rembast við neitt.  Eða ég meina slappa af í stressinu.  Eða bara sleppa því að gera nokkurn skapaðan hlut.  Nema einmitt því að slappa af.  Ó gad mér leiðist.  Þarf samt að spila 2 messur á morgun en er að hugsa um að skrópa á nobbatónleikum þar sem ég á nú að spila eitthvað pínu, hmm.. kannski fara að hringja í Jónsa...


Ótrúlega áhugaverðar barnavagnapælingar

Sem ólétt kona fyllist ég að sjálfsögðu af margfrægri hreiðurgerðarþörf en á af skiljanlegum ástæðum erfitt með að sinna henni af fullum krafti.  Er þó búin að pína Ágúst til að mublera borðstofuna, stóra vandamálið með borðstofuna er samt hvort þetta heiti borðstofa eða eitthvað annað.  Borðstofuborðið verður nefnilega inni í stofu, og eldhúsborðið í  borðstofunni, þetta fer alveg með mig.  En drengurinn var a.m.k. sendur í Jysk Sengetøjslager að kaupa borðstofuborð úr gegnheilli eik (já borðstofuborð sem eldhúsborð svona til að rugla málin enn frekar), stóla, skenk, háan glerskáp og kommóðu, þetta var nebla allt á tilboði og því ekki hægt að bíða þar til hagsýna húsmóðirin væri sjálf mætt á svæðið.

En að fjarinnréttingum loknum hef ég ekkert við að vera nema að stúdera barnavagna og hef komist að því mér til mikillar skelfingar að líklega þarf ég að kaupa nokkur stykki.  Það er nefnilega alltaf þannig í bæklingnum að mamman (já alltaf mamman, engir pabbar sjáanlegir) er sko klædd í stíl við vagninn hverju sinni og helst barnið líka.  T.d. eplagrænn vagn - eplagrænn bolur:

eplagrænn

Drapplitaður vagn með kamó - drapplituð föt og kamó-skiptitaska í stíl á öxlinni:

Drapp kamó

Þannig að annaðhvort á ég einn vagn og þarf að binda mig við að vera alltaf í fötum í sama litnum eða á nokkra vagna.  Kræst þetta eru nú meiri vandræðin.


Óforsvaranlegt

Ég ætla ekki að segja nokkrum manni hvað ég er búin að sofa mikið í dag.  Hins vegar kemur það út eins og ég hafi verið þvílíkt dugleg ef ég tilkynni að ég hafi farið í ræktina og sund og jóga (hljómar verr ef fattast að ég gerði ekkert annað fyrir utan að sofa).

En aðeins skemmtilegra, fór á Cosi fan tutte hjá óperustúdíóinu á sunnudagskvöld, rosa flott! Þau sem ég þekki sungu auðvitað best (Solla Sam, Stóní nobbi og Þorri) en hin voru "samt" líka ferlega flott.  Var reyndar ekki alveg að kaupa búningana hjá kórnum (tjull utan á gamlar dragtir, hnífapör utaná hermannabúninga) og löngu komin með ógeð á svona orgíu-lífmassa-hóphreyfingum (fattar einhver hvað ég meina?) jakkedíjakk.  Dásamlega glyðruleg Despina (æ man ekki hvað hún heitir)átti salinn og það spillir alls ekki fyrir Þorra að vera höfðinu hærri en meðalmaðurinn í svona hlutverki, alltaf flottur!  Solla fannst mér nú flottust raddlega, syngur alltaf yndislega stúlkukindin.

En farin að éta á Vegamótum með Dagbjörtu og man ekki hverjum, allar klær úti að snapa sér matarhittinga greinilega! Blush


101 leið til að klúðra orgelæfingum

Gæti verið efni í spennandi bók.  Þessa dagana sleppi ég samt alltaf fyrstu 100 aðferðunum þegar ég þykist ætla að æfa mig og nota bara 101. aðferð, sem er að sofna.  Langholtskirkja er reyndar frekar óheppilega hönnuð til svefns, kirkjubekkirnir ómögulegar stólaraðir og bara einn sófi lengst í burtu uppi á lofti. Grafarvogskirkja er hins vegar alveg dásamleg því þar er sófi á organistaskrifstofunni með koddum og teppi, zzz....  Af því að ég vissi hvað er glatað að leggja sig í Langholtskirkju þá sofnaði ég bara úti í bíl í 40 mínútur áður en ég skreið inn í kirkjuna í dag.  Er orðin rosalega bjútífúl af öllum bjútíblundunum.

Hugsa ekki um annað en mat og svefn.  Datt í hug þegar ég sá brot úr Kastljósi um þjálfun blindrahunda (sem ganga algjörlega fyrir mat og hrósi) að það væri líklega hægt að kenna mér nokkurn veginn hvað sem er gegn mat, t.d. hoppa í gegnum gjörð fyrir súkkulaði (líklega ekki mjög elegant þó), taka til fyrir ís, vakna á morgnana fyrir köku, er að mestu leyti ófær um þetta allt án þjálfunar.


70 kg múrinn rofinn

cartoon28

Að gleyma (sér)

Ágúst er greinilega kátur með að koma sér fyrir í útlandinu og sagði í sms-i að það væri auðvelt að gleyma sér við tiltektir í nýja húsinu.  Mér finnst miklu auðveldara að gleyma tiltektum í gamla húsinu.

1. apríl!!!

Ég hef undanfarið velt mjög alvarlega fyrir mér einum möguleika (og þið kannski öðrum), að einhverjir aldeilis hnyttnir spéfuglar hafi undirbúið roooosalegt aprílgabb, sem fælist í því að láta mig halda að ég væri búin að festa kaup á húsi og fengi það einhvern tímann, já og kannski að það væri líka gabb að Ágúst væri að byrja í sérnáminu einmitt í dag 1. apríl.  Átta mig ekki á því hverjir eru samsekir og hverjir eru gabbaðir.  Allavegana alveg á hreinu að ég væri í gabbaða flokknum, ætla rétt að vona Ágústar vegna að hann væri það líka Tounge.  Spurning með Hauk og pabba, með eða móti?  Sko ef Ágúst teldist í gabbaða flokknum þá væri þetta líklega ekki lengur gabb, því hann fékk loksins lykilinn í gærkvöldi og tilkynnti mér stoltur að hann væri orðinn húsbóndi í Lindeparken 3 (æ mikið er það nú dauflegt heimilishald, svona húsmóðurlaust).  Hins vegar ef hann er samsekur þá er hann ekki baun kominn með lykilinn... (og pottþétt ekki á hostelinu samt, heldur fínasta hótelinu í Horsens að drekka freyðivín og hlæja að mér, en ég trúi því samt ekki upp á hann! Kissing)  Líklega svaf Ágúst bara ljómandi vel á nýja heimilinu sínu (okkar meina ég) og er kátur á spítalanum núna fyrsta daginn.

En svo er það hinn möguleikinn sem þið hafið kannski velt fyrir ykkur, og það er að ég hafi bara spunnið upp þessa ljómandi skemmtilegu lygasögu til að láta vorkenna mér, æ mig auma ég fæ ekki húsið mitt, oooo... það er svo agalegt að hanga á þessu hosteli... æjæjæ algjör fýluferð etc.  En í raun og veru höfum við flutt inn daginn sem við komum út og svo hafi ég verið að dunda við að mála barnaherbergið (og einmitt setja upp væmið veggfóður) og raða kristalnum fínt í skápa og halda innflutningspartý og god nós.  Þið bara trúið því sem þið viljið mwahahaha LoL

Annars þá get ég bent ykkur á frétt sem sannar sögu mína um að peningarnir hafi farið til fj... í bankakerfinu, http://mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/04/01/ranid_i_danmorku_thaulskipulagt/

(Til að fyrirbyggja misskilning þá er Haukur kominn heim og er með fjarvistarsönnun, get ekkert sagt um Ágúst samt)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband