Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Meira um græna súbarúa

Kom út úr ræktinni, stakk lyklinum í skrána á græna súbarúnum, gekk illa að opna, helv.. frost (af hverju er samt slabb á stæðinu?), opnast, næ ekki lyklinum úr, best að ná í lásaspreyið inn í bíl, af hverju er kókómjólkin í aftursætinu en ekki framsætinu? Af hverju er áklæðið svona dökkt? Amma, af hverju ertu með svona stóran munn?

Þjóðsagan um að maður geti opnað annan gamlan bíl af sömu tegund með sama lykli er semsagt sönn.  Minn bíll var næsti við hliðiná.  Hefði kannski átt að taka þennan, hann var óbeyglaður.

P.S. tryggingarnar ætla sko ekki að borga neitt fyrir viðgerðina á bílnum og það kostar nokkur bílverð að laga hann svo hann verður bara svona beyglaður og fínn í bili, vona að það rústi ekki sjálfsmyndinni (minni).


Ferð til fjár?

Minn kæri súbbarú, sem státar einmitt af tveimur lyklum, státar einnig af tveimur hressilega beygluðum hornum.  Tilraun Ágústar til að taka fram úr rútu á Hellu fór algjörlega út um þúfur þegar kom í ljós að rútan keyrði svona hægt af því að hún var að beygja til vinstri.  Fyrst lamdist hægra framhorn í síðuna á rútunni, svo hægra afturhorn.  En við vorum á lítilli ferð (þetta gerðist nógu hægt til að ég gat bölvað mjög mikið áður en við skullum saman) og enginn meiddist nema súbbinn.

En við vorum einmitt á heimleið úr "sumarbústaðarferð".  Tveir vankantar á sumarbústaðarferðinni, annars vegar er "sumarbústaðurinn" eiginlega bara smá kofi með borði og stólum, hins vegar hugkvæmdist ónefndum eiginmanni ekki að taka með lykil (og varalykillinn undir skúrnum lööööngu fokinn út í veður og vind, og já Ágúst átti að sjá um lykilinn því ferðin var að hans frumkvæði, ég fylgdi bara með).  Já og svo urðum við líka blaut í lappirnar af því að labba að bústaðnum af því að vegurinn var ófær og nokkrir lækir á leiðinni...

Áskil mér rétt til að vera grömpí.


Varalyklar góðir

Fór á kostum við að læsa mig úti um daginn.  Gekk út úr húsi vopnuð 1 bíllykli og 2 húslyklum.  Opnaði bílinn, settist inn, ræsti bílinn, tók af mér veskið, fór út úr bílnum, byrjaði að skafa.  Og bíllinn læstur!  Eitthvað hefur læsingin verið frosin, hrmpf.  1 bíllykill og 2 húslyklar inni í bílnum.  Og þar til á síðasta föstudag var þetta eini lykillinn í heiminum að elsku súbbarúnum mínum því ég henti hinum lyklinum óvart í sorptunnuna í haust...  En lét smíða aukalykil á föstudaginn.  Hljóp út á spítala með rúðusköfuna og fékk húslykil hjá Ágústi og komst svo inn í bílinn, jibbí.

Athugasemdir við gáfnafar afþakkaðar.


Alltaf í boltanum...

Labbaði inn í stofuna hjá Óskari og Unu (þar sem ég gisti þessa helgina af því að ég er fyrir norðan að spila messu, Una er frænka mín og Óskar Akureyrarkirkjuprestur og gifti einmitt mig og Ágúst bæði tvö) og landsleikur á fullu.  Ísland skorar og ég fer að kíkja á stöðuna og sé að Ísland er yfir.

Frakkland 16 - Ísland 23

Ég verð kát, og skoða stöðuna betur.  16-24, 16-25, 16-26.  Rosa glöð.  Segi við Óskar: "Nú við erum bara að vinna".  Hann tók ekkert sérstaklega vel undir það.  Ég varð hissa.  Athugaði málið betur.  16-32, 16-33, 16-34.  Tíminn líður trúðu mér.


Lára organisti seiseijá

Ég geng um dags daglega og segist vera organisti (allavegana "aðallega organisti" og svo kemur einhver furðuleg útskýringarræða) en spila samt ekkert sérstaklega mikið, mæti á hjólaæfingar á sunnudagsmorgnum eða (oftar núorðið) ligg bara í bælinu og hlusta á útvarpsmessu og hía á alla organistana sem þurfa að spila á hverjum sunnudegi.

En úbbosa nú ég á aldrei framar frí á sunnudögum. 

Í fyrsta lagi þá er ég að leysa Eyþór af á Akureyri nokkra sunnudaga í janúar og febrúar og spila líka fyrir sunnan inn á milli. 

Í öðru lagi þá var ég að ráða mig í Grafarvogskirkju, tek við kirkjukórnum strax í næstu viku og messunum þegar ég hef lokið mér af á Akureyri.  Vill einhver reyna að giska hvað ég ætla að spila yfir mörgum fermingarbörnum í vor?  Svo verð ég bara í Grafarvoginum þar til ég rúlla af orgelbekknum og fæði barn, og þá sef ég ábyggilega ekki út á sunnudögum framar.


Fór í óléttubúðina

cartoon10

Er reyndar að vaxa upp í fötin núna, en það var bara fyndið þegar ég fór í búðina í Þýskalandi.  Óléttubúðin í Kópavogi býður reyndar upp á snilldarlega sýndarbumbu svo maður geti mátað með stæl (lítinn kodda sem maður bindur framan á sig), doltið skondið.


Nýja krúttið

Loksins loksins það sem allir hafa beðið eftir!  Myndirnar af Völu Selmusystur opinberaðar:

6

Hér er Vala orðin hálffullorðin, 10 daga gömul, og ákaflega falleg stúlka.  Liggur á fína blóðbergssængurverinu sínu sem hún var svo ljónheppin að fá í sængurgjöf frá móðursysturinni.

3

Selma dáist að tánum á litlu systur, enda segir Elín að þær séu alveg eins og á mér, langar og fínar.

5

Og hér eru systur undir jólatrénu (sem er talsvert minna en stundum áður), Selma í þýska jólakjólnum með svuntu og allt.

Síðan var Elín að tilkynna komu sína og dætranna til landsins 3. febrúar! InLove

 


Nýja hjólið mitt

Skíðahjól

Eða hefði allavegana verið til í eitt svona áðan.  Fór nebla á hjólaæfingu (og það er í frásögur færandi því ég hef ekki farið síðan í byrjun desember, aðallega vegna þess að ég hef ekki komist en þau fáu skipti sem ég hefði komist var ég of þreytt!) og eins og færðin og mokstursstaðan á stígunum var kom ekki á óvart að sjá fleiri á gönguskíðum en reiðhjóli!

Og fann loksins skýringu á myndavandamálinu, búin með plássið mitt og þá bara hættir myndadæmið að fúnkera og lætur eins og það sé frosið! Frekar halló, nær að segja manni hlutina hreint út frekar en að fara svona á bak við mann...  Keypti svo meira pláss á 500kall og nú fara alls konar æðislegar myndir að streyma inn, myndir af Völu í næsta þætti.


Forsíða Fréttablaðsins:

Óléttar konur mega púla

Og hættiði svo að nöldra í mér að vera ekki að djöflast þetta á hjólinu og lyfta eins og mér sýnist í ræktinni.  Og svo má ég alveg gera mínar magaæfingar og hamast á fjöllum, jíhaa.  Enda var ég í dandalagóðri fjallgöngu í gær (myndir síðar), er að vísu hundþreytt og ónýt í dag en jeg er skideligeglad og hananú.


"Af-kynvæðing" brjósta

Skil ekki alveg hvernig á að vera hægt að af-kynvæða brjóst, ég veit ekki betur en þau (brjóstin) hafi glatt karlmenn gegnum tíðina og það bendir ekkert til annars en að þau haldi því áfram.  Allavegana var Ágúst alveg til í að sækja um stöðu í Sundsvall og fara að stunda sund (fékk reyndar illt augnaráð frá konunni sinni þegar hann missti þetta út úr sér) og svo er brilljant frétt á mbl.is þar sem segir m.a.:

Pétur Ingvarsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi í Hveragerði, segist ekki muna eftir reglum um baðfatnað kvenna í sundi. „Þegar þær fara í sólbað fara þær oft úr að ofan," segir hann. „Það hefur enginn viljað gera neitt í því, allavega ekki karlmenn."

Ég held að ég haldi bara áfram að nota mín brjóst "spari".


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband