Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Um yndisleik ungbarna

Vala Selmusystir (sem ég hef ekki enn fengið að sjá myndir af, það þurfti nefnilega að strauja tauservíettur í Muggensturm og enginn tími til að senda myndir) þykir sérlega yndislegt barn.  Og í hverju felst það?  Hún gerir ekkert nema sofa, drekka og þegja.  Já svo reyndar kúkar hún víst heil ósköp en það er víst óhjákvæmilegt.  Amma á Brún var einmitt svo fegin þegar börnin sex voru sofnuð, því þá fyrst var tími til að hugsa um hvað þau voru nú yndisleg (þegar þau voru sofandi?).  Í útlandinu sagði einhvern tímann einhver:  "Children are to be seen, not to be heard".  Og menn setja geltstoppara á hundana sína svo ætli þetta eigi ekki líka við um þá.

Jólahugleiðing

Fyrst það sem máli skiptir: Ágúst fékk í skóinn en ekki ég.  Ekki einu sinni kartöflu, mér líður svolítið eins og jólasveinninn hafi gleymt mér.  Kannski það sé refsingin fyrir að ég sendi engin jólakort í ár, en í staðinn kemur hér jólakveðja:

Gleðileg jól kæru vinir og ættingjar nær og fjær!!

Síðan liggur við að ég þurfi að afsaka það að ég sé að nördast í tölvunni á aðfangadag, en það er bara frekar tómlegt í kotinu því Ágúst er að vinna, og það til kl 21 í kvöld Errm og ég þarf að mæta kl 23 að spila í messu, glatað.  En það verður þó ekkert tómlegt hér í kvöld því Pabbi, Haukur bró, tengdamamma og tengdapabbi og Hallveig systir Ágústar verða hjá mér í mat!  Jólaöndin verður sko ekki óétin, óekki.  En ég á enn þá eftir að búa til jólabúðinginn hennar mömmu, spennandi...

En síðan er komið að tilkynningu ársins:

Nýr fjölskyldumeðlimur í vændum!!

Og nei, ég er ekki að fara að fá mér nýtt hjól heldur eigum við von á barni í sumar, mjög fínu held ég meira að segja.  En fiskisagan er nú löngu flogin þannig að það vita þetta kannski allir...  Var í fyrstu mæðraskoðun fyrir viku og ljósmóðirin hlustaði á hjartsláttinn og sagði að þetta væri ábyggilega stelpa.  Gaman að vita hvert ágiskunarhlutfallið er, 50%?  Ágúst fylgdist reyndar vel með í 12 vikna sónar og sagðist ekki hafa séð neitt sem benti sérstaklega til að þetta væri strákur, en þetta var einmitt 12 vikna sónar, ekki beinlínis fullþroskað barn í maganum á mér!  Þetta verður æsispennandi...

En nú er það jólabúðingurinn, gangi mér vel Wizard


Vala Adriansdóttir Rüther fædd!

Vala litla systir Selmu kom í heiminn á fimmtudagskvöld.  Elín og Adrian eru ákaflega ánægð með stúlkuna og finnst hún mjög vel heppnuð, enda er hún lík stóru systur (en eins og alþjóð veit er Selma ákaflega sæt InLove ).  Ég er ekki enn búin að fá myndir en trúi bara foreldrunum og ömmunni sem eru öll alsæl.  Selma er líka kát með litlu systur, líklega ekki búin að átta sig á að henni verði fljótlega bolað af stalli sínum sem einka-dekurbarn...

Hátindi skassferilsins náð!

Undirrituð náði þeim merka áfanga í dag að vera rekin úr kór fyrir að vera með kjaft!  Hef reyndar aldrei verið í þessum tiltekna kór, en ónefnd vinkona narraði mig til að hlaupa í skarðið fyrir sig í eitt gigg, tvenna tónleika í gærkvöldi og í kvöld.  Ekki var nú æft sérstaklega mikið fyrir tónleikana en kórverkið hékk samt nokkurn veginn saman og við komumst í snyrtilega í gegnum það.  Sama fannst mér ekki um orgeleinleik og -meðleik og blöskraði svo gjörsamlega að ég tók stjórnandann/organistann á teppið eftir tónleikana og sagði hitt og þetta (t.d. æfa sig heima etc.).  Viðkomandi var ekki par ánægður, hringdi í söngmálastjóra og kvartaði og rak mig svo úr kórnum.  Hinn sópraninn í röddinni minni treystir sér reyndar ekki til að syngja rulluna ein í kvöld og hálfraddlaus, spennandi hvernig þetta fer...  Þrátt fyrir nokkuð víðtæka skoðanakönnun hef ég ekki fundið neinn sem var viðstaddur í gær sem er ekki sammála mér, sem betur fer voru ekki mikið fleiri en flytjendurnir sjálfir á tónleikunum og hananú. 


Af ófærð og annarri vitleysu

Það var meira og minna ófært fyrir gangandi vegfarendur á Akureyri allan tímann sem ég var þar, þvílík manndrápshálka að ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta þegar ég kjagaði milli staða.  Una frænka er að læra lögfræði í Háskólanum á Akureyri og hleypti mér sko aldeilis ekki óstuddri niður útitröppurnar hjá sér, ætlaði sko ekki að láta mig lögsækja sig ef ég dytti (var nýbúin að taka kúrs um skaðabótakröfur...).

Síðan kom að heimferðinni, búið að spá freeeeekar vondu veðri á miðvikudagskvöldið og spurning hvort vélin slyppi suður.  Ekki er ég nú flughrædd, en hins vegar flugveikust (og bílveikust og sjóveikust og m.a.s. vindsængur- og tívolítækjaveikust) í heimi.  Og hvað gera lyfjaheildsalar? Klikka á því að eiga lager af bílveikipillum.  Bílveikipillur eru uppseldar á landinu!!!!  Það er að vísu til önnur tegund en ég nota (brúka koffínátín), þ.e. postafen, en það gerir nákvæmlega ekki neitt fyrir mig, komst að því mér til mikillar skelfingar í 12 tíma flugi til Afríku.  Ég bjóst því við hinu versta þegar ég steig inn í vélina, og það rættist.  Ældi hérumbil alla leið í hristingi dauðans og hélt áfram eftir að vélin lenti.  Flugfreyjan hafði nóg að gera við að taka á móti ælupokum og afhenda nýja (þurfti 3).  Vildi til að ég sat ein aftast þannig að það þurfti enginn að kveljast með mér...

Og svo kemur vonda veðrið aftur og grey mamma sem ætlaði til Elínar í morgun situr úti á Leifsstöð og gæti þurft að bíða lengi!  Reyndi að hringja í hana áðan til að biðja hana um að tékka hvort leynist koffínátín í apótekinu í fríhöfninni, en hún er greinilega svo niðursokkin í að nota tímann vel í búðunum að hún svarar ekki.

En það "gerðist" líka dásamlega skemmtilegur misskilningur áðan, ég ætlaði að senda Gísla hennar mömmu sms og spyrja hvort frúin hefði komist skammlaust út á völl, en ákvað svo að kíkja fyrst á netið hvort vélin hefði farið.  Hlustaði á meðan á fréttirnar um brjálaða veðrið í borginni og ákvað að senda eiginmanninum sms um að ég yrði greinilega föst heima að taka til í dag, ekkert ferðaveður.  Nema hvað, var búin að setja inn númerið hjá Gísla og hann fékk óvart tiltektar-sms-ið.  Hann las það og gerði í fljótheitum ráð fyrir að það væri frá mömmu og sendi um hæl "á ég að sækja þig?"  Ég hringdi nú í hann og sagði að hann þyrfti allavegana ekki að sækja mig og við hlógum vel og lengi...

Það rifjaðist líka upp fyrir mér þegar ég ætlaði að senda einni Auði í söngskólanum sms um að sækja einhverjar nótur á einhvern stað í söngskólanum, henni gekk illa að skilja hvað ég átti við, ég reyndi að útskýra betur, ekki skildi hún betur, svo kom að lokum sms "þetta er Auður Agla" sem er allt önnur Auður, var snarvitlausu Auðina farið að gruna að það væri einhver maðkur í mysunni.  Ég fór náttúrulega að skellihlæja og hringdi strax í hana til að útskýra misskilninginn og romsaði heil ósköp, en þá skildi Auður ekki neitt hvað ég var að blaðra, enda hafði ég þá óvart hringt í söngskóla-Auðina sem kom alveg af fjöllum, gaaaahhhh.....


Jólasnjórinn er á Akureyri!!!

Kominn norður í sæluna undir því yfirskini að fara í orgeltíma til Eyþórs en er í raun að heimsækja allt frænkustóðið og fara á skíði (Eyþór ekki lesa þetta!). Svo er líka nauðsynlegt að rölta um bæinn og ég viðurkenni að debetkortið mitt hitnaði aðeins áðan, seinómor. 

En að allt öðru, hvenær er eðlilegt að maður berji mann? Heyrði nefnilega um daginn frásögn manns sem var kýldur í klessu um hérumbil hábjartan dag inni á tiltölulega virðulegri stofnun fyrir framan helling af börnum og opinberum starfsmönnum, þetta fannst engum eðlilegt.  En annar maður sem heyrði frásögnina sagði "ég hef nú verið laminn svona, en það var við eðlilegar aðstæður - það var á balli!"

En nú er ég farin að skemmta mér á skíðum, trallala!


Orsök og afleiðing?

Orsök: Aðeins of bissí helgi

Gekk á þrjú fjöll á laugardaginn (reyndar hvert öðru ómerkilegra), spændi um alla Heiðmörk á hjólaæfingu á sunnudagsmorgni og í ræktina á eftir, fór svo á jólatónleika að hlusta á Ágúst syngja og stjórnaði þar á eftir einum kvennakór á aðventukvöldi, svo kórstjórnartími á mánudagsmorgni og eftir það var kominn tími á að leggja sig en endaði samt í Kringlunni með mömmu að kaupa jólagjöf handa væntanlegu systurdótturinni og skar svo út laufabrauð allt kvöldið.  Ágúst spurði mig hvort eitt fjall hefði ekki verið nóg, ég ætla ekki að svara þessu.

Afleiðing: Hausverkur dauðans

Lá allan þriðjudaginn heima með hausverk (nema þegar ég skrapp að spila með sama kvennakórnum á kvenfélagsfundi) og er enn þá volandi á miðvikudegi :(

En:

Fjallgöngurnar voru mjög skemmtilegar, hjólaæfingin var mjög skemmtileg, laufabrauðið er mjög gott.  Sérstaklega með reyktum magál, mmm...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband