Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Stærðfræðibrandarar frh.

Þessi er bara fyrir þá allra hörðustu:

Gefum okkur epsilon minna en núll...

(Mér finnst hann ógeðslega fyndinn)


Í Sádi-Arabíu fá konur ekki að keyra

Hér á eftir kemur löng og leiðinleg frásögn sem ég ætla til hagræðingar að draga saman í nokkra punkta fyrir þá sem vilja flýta fyrir sér:

  • Það er slæm hugmynd að skemma annarra manna bíla
  • Brettin á breyttum jeppum eru búin til úr harðfiski
  • Í Sádi-Arabíu fá konur ekki að keyra
  • Innkeyrslan mín er þröng
  • Það er mjög tímafrekt að mála gamaldags ofna
  • Það á ekki að taka skáphurð af hjörum, mála hana á vaskborðinu í þvottahúsinu, og skilja svo eftir undir krana sem lekur
  • Það á ekki að taka efsta pokann úr frystikistunni til að ná í það sem er undir og gleyma honum svo við hliðina á frystikistunni
  • Velgengni vs. óvelgengni fylgir fallinu limx-->(táknið fyrir óendanlegt)x1/x=lim-->(aftur táknið fyrir óendanlegt)n1/n

Nú, byrjum svo á byrjuninni fyrir hardcore-liðið sem leggur í að lesa þetta. 

Í fjallaferðinni góðu á sunnudaginn festist afturhlerinn á pikköpnum hans Fjölnis (sem við vorum með í láni).  Haukur skildi bílinn eftir í mínum höndum til að redda því en það endaði með því að ég reyndi að rífa af honum vinstra afturbrettið í innkeyrslunni heima, enda stendur dekkið og brettið yfir því fáránlega langt út Angry.  En þá komst ég að því að brettið var gert úr harðfiski, líklega límt saman með lýsi og svo lakkað yfir.  Það getur reyndar verið að þetta sé trefjaplast, allavegana þarf að senda brettið á plastverkstæði.  En þetta er að sjálfsögðu sérsmíðað og fínt bretti og eftir því dýrt.  Fjölnir bíleigandi var nú ekki nema svo og svo kátur og benti mér á þá staðreynd að í Sádi-Arabíu fá konur ekki að keyra.  Hann er einmitt flugmaður og þvælist mikið í svona karlrembulöndum.  Ég minni samt á að ég er fantagóður bílstjóri þó að innkeyrslan mín hafi áður valdið mér ákveðnum erfiðleikum (þegar ég keyrði á minn eigin bíl, önnur saga og enn sorglegri).

Næsta atriði.  Ég er enn að mála baðherbergið.  Ofninn er þrefaldur, gamaldags og götóttur og það fór alveg með geðheilsuna að mála hann.  Það var samt bara upphafið að "seingengninni".  Nenni ekki að skrifa um það og enginn nennir að lesa um það.

En þegar ég var að leita að penslum í poka fann ég fullan poka af hreindýrakjöti við hliðina á frystikistunni, ófrosnu, grunsamlegt.  Búið að vera þar í 1 sólarhring.  Það verður líklega hreindýraveisla á Sjafnargötunni fljótlega.

Eftir tveggja sólarhringa samfellt klúður reiknaði ég út sambandið milli velgengni, óvelgengni og tíma og fann út að sveiflur frá meðaltali geta aldrei orðið nema svo og svo miklar á svo og svo skömmum tíma.  Ergo:  Of mikil velgengni á sunnudaginn á skömmum tíma (2 frábærir tindar á einum frábærum degi), þ.e. lim(velgengni)-->(táknið fyrir óendanlegt) (velgengni stefnir á óendanlegt) veldur því að næstu daga á eftir gildir jafnan lim(óvelgengni)→(táknið fyrir óendanlegt enn og aftur) (óvelgengni stefnir á óendanlegt).  Meira draslið þessi síða að geta ekki sýnt almennileg stærðfræðitákn.  Ég á bara eftir að reikna út hvort að óvelgengnin stefni á óendanlegt í óendanlega langan tíma eða hvort það sé einhver von, en samkvæmt kenningu minni um að sveiflur frá meðaltali geta aldrei orðið nema svo og svo miklar þá ætti ástandið að lagast á næstu dögum.

Q.E.D.


Garpar hvað!!!

Á forsíðu fréttablaðsins í dag er mynd sem sýnir fjóra jeppagemlinga klöngrast upp brekku efst á Eyjafjallajökli og jepparnir í baksýn.  Myndatextinn er eftirfarandi: "UPP Í MÓT Þessir garpar létu þrettán stiga frost ekki aftra sér frá jökulgöngu upp á hinn hrímhjúpaða Goðastein á Eyjafjallajökli í gær"  Mwahahahaha þeir ættu að prófa að labba upp á jökulinn fyrir eigin "vélarafli" (eins og undirrituð alvörugarpur gerði í fyrra...)

En alvörugarpurinn ég (mont, mont) sat sko ekki auðum höndum í gær heldur sló tvær flugur í einu höggi, fór í ææææææðislega ferð á Stóra-Björnsfell og Litla-Björnsfell sunnan við Þórisjökul (bæði í "bókinni", skýri síðar), 7 1/2 tíma þramm með Hauki bró, Jóni Lofti sem við höfum verið með á námskeiðum hjá íslenskum fjallaleiðsögumönnum, Örnu bekkjarsystur minni í leiðsöguskólanum og David vini hennar.  En meira um það síðar, hef sko engan tíma til að blogga því að ég er að mála baðherbergið! (Unnur leigusali varð agalega fegin að frétta það, gott að losna við eiturgula og rauðbrúnappelsínugula litinn...)

Úúúú.. og svo á ég líka eftir að segja frá frumraun minni í leiðsögumannssætinu að gæda gullna hringinn á laugardaginn!  Æfingaferð með bekknum, skiptumst á að segja frá öllu mögulegu og ómögulegu á rússnesku, frönsku, norsku, þýsku og ensku.  Ég ætlaði að sjálfsögðu að mæta vel undirbúin og vera heima á föstudaginn og læra, einhvern veginn endaði það samt með því að ég hamaðist allan daginn við að skrapa og sparsla og pússa á baðherberginu, skrúfa niður allt gamla ljóta dótið, fór í byko og húsasmiðjuna og keypti alls konar málningardrasl og nýjar handklæðastangir (eða er það -stengur?) etc, nú og keypti í leiðinni nýja gönguskíðaskó (af því að ég fæ hælsæri dauðans af hinum) og dúnvesti frá cintamani (það var á 30% afslætti, gat ekki annað)og sólgleraugu (50% afsláttur, var BARA að græða) og....  Sem sagt - gekk mjög vel að vera heima að læra!


Heimsyfirráð Djúsí

Ekki gerði ég mér grein fyrir að við værum svona frægar.  Djúsísystur (kvartettinn minn sem er hvað gamall akkúrat núna??) gáfu út prýðilegan geisladisk fyrir allmörgum árum og tónlistin þykir nógu góð til að mæma hana á fylleríi, taka það upp á vídjó og setja á áðurnefnda youtube vefsíðu. 

http://youtube.com/watch?v=P6YWNL92qsg 

Mér finnst þetta reyndar alveg glatað myndband og skyggja fullkomnlega á tæran englasönginn, hreyfingarnar okkar eru líka miklu flottari (já passið ykkur að fara ekki að halda að þetta séu alvöru-djúsí).  Ég fékk reyndar fyrir hjartað og leiddi út í vinstri handlegg þegar Halldóra sagði mér að djúsí væru á youtube, það eru nú til býsna margar upptökur af okkur og sumar freeeeekar neyðarlegar þó ég segi sjálf frá. 

En til fróðleiks fylgja hér myndir frá gullárum Djúsí:

img220

Djúsí og Tobbi á góðri stundu fyrir utan græna herbergið í söngkeppni framhaldsskólanna 1999.  Tobbi, Lovísa, Arnbjörg, ég og Sigga.  Sjáið lekkerar glanssokkabuxurnar.  Þess má geta að við lentum í 3. sæti, býsna gott.

Copy of img194

Hér erum við svo í búningsklefanum á söngkeppni MR ári síðar, mættum og sungum sigurlagið og vorum líka kynnar, svona syngjandi kynnar, tókum nokkrar kynningar í röddum og slógum í gegn (held ég).

Nú er reyndar heldur farið að hægjast um hjá okkur, æfingum farið að fækka enda skiptumst við á að vera í útlöndum, síðasta gigg var í brúðkaupinu mínu fyrir (vá hvað er langt síðan) 1 1/2 ári.  Ég bíð spennt eftir næsta djúsí-brúðkaupi!


Myndaherferðin heldur áfram - jólaþema

File0619

Litla systir fædd, allir glaðir.

File0394

Og það átti bara eftir að batna.

File0424

Við systkinin vorum aldrei mikið fyrir myndatökur.


Óp og öskur!!!!

Allt leynist nú á youtube.  Segir maður annars jú-tjúb eða jú-tú-bí eða er ég bara auli að vita það ekki?  Hvað sem því líður þá er allur rokkframi undirritaðrar á boðstólunum á þessari virtu netsíðu.  Einu sinni var ég nefnilega beðin um að koma fram í unglingaþættinum Óp! á RUV, þar sem nokkrum tónlistarmönnum úr ýmsum áttum var att saman til að semja lag á staðnum og flytja það í þættinum.  Ég held að ég hafi staðið fyrir "ýmsu áttina", þ.e. leim organisti innan um rokkarana, ég er afgerandi ósvölust.  Sjón er sögu ríkari.

http://www.youtube.com/watch?v=waLNwc3-N50


Gömul ráðgáta

Hver sendi mér eiginlega þessi sms? (sent af siminn.is) Er búin að vera andvaka út af þessu í tvö ár.

Elskan mín, ekki tala mjög hátt en skýrt, og í fullum róm, opna varirnar vel í sundur,... (17:16:52 01/02/2005)

Ekki ganga með efri hluta líkamans langt á undan þeim neðri, elskan mín, reyndu að venja þig af þessu (17:17:53 01/02/2005)


Í tilefni dagsins - Halldór Hauksson dissar forkeppnina

Halldor_Hauksson

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4314674

Opnið Hlaupanótuna í Windows media player, farið á 32.25 og haldið ykkur fast.


Trúnaðarmál af spítalanum!!

Ágúst stendur sig ekki sem skyldi með þagnareiðinn.  Hann sendi mér sms úr vinnunni í morgun og tilkynnti að það væru veikindi á spítalanum (grínlaust) og hann þyrfti að vera lengur.  Ég hélt að svona trúnaðarupplýsingar mættu alls ekki fara lengra, en úr því að hann kjaftaði þessu í mig þá get ég alveg eins lekið þessu á netið. 

En að öðru, mér finnst ég aðeins eiga í vök að verjast með að sannfæra ykkur um að það sé allt í lagi heima hjá mér.  Skoðanakönnunin sýnir:

  • Það er ekki allt í lagi heima hjá Láru: 41%
  • Það er allt í lagi heima hjá Láru: 11%
  • Það væri allt í lagi heima hjá Láru ef hún draslaði ekki svona mikið: 47%
  •  

    Hvað er til ráða? Mér dettur tvennt í hug:

      A: Setja upp netmyndavél heima hjá mér, það ætti að sannfæra alla. (Bara spurning um hvað þeir myndu sannfærast).  Þarf að ræða það við Ágúst.

      B: Halda áfram myndaherferðinni og sýna umheiminum hvað ég ólst upp hjá góðri fjölskyldu.  Færa mig svo smátt og smátt yfir í nútímann, bíðið þið ekki spennt?

Fjsk 0119

Af hverju mundi hann þá eftir mér?

Ég spilaði í jarðarför um daginn (sem er sosum ekki í frásögur færandi) með presti sem ég þekkti ekki.  Hann heilsaði mér fyrir jarðarförina og sagði að við hefðum nú verið saman í athöfn fyrir ca ári.  Ég viðurkenndi bara að ég mundi eeeekkert eftir honum (frekar en nokkrum manni yfirleitt) en hann sagðist ekki taka það nærri sér, það hlyti að þýða að hann hefði ekki klúðrað neinu, því það væri jú yfirleitt það sem menn myndu best eftir.  Ég samgladdist honum bara með þetta og dreif mig inn að spila.  Svo spilaði ég feilnótu í forspilinu og fattaði um leið: Af hverju mundi hann þá svona vel eftir mér??

 

En fyrir fróðleiksfúsa:

 

Landvættur, nafnorð, kvenkyn

landvættur – landvætti – landvætti – landvættar

landvætturin – landvættina – landvættinni – landvættarinnar

landvættir – landvættir – landvættum – landvætta

landvættirnar – landvættirnar – landvættunum – landvættanna

 

Óvættur getur bæði verið í kvenkyni og beygst eins og landvættur, eða í karlkyni og beygist þá eins og köttur (já nema hljóðvarpið).

 

Náttúruvætti er hvorugkynsorð og beygist eins og peningaþvætti.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband