Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Bíð spennt eftir stórslysi...

Segi svona...  Loksins búin að ná mér niður eftir Gufuskála.  Allir orðnir gjörsamlega heilaþvegnir, hugsa eftir ákveðnum vinnuferlum hægri vinstri og bíða spenntir eftir tækifæri til að æfa þekkinguna! Það er bara almennt svekkelsi hjá hópnum að enn sem komið er hafi enginn blánað upp með aðskotahlut í hálsi eða fengið dágott asmakast þar sem ekkert nema adrenalínsprautan getur bjargað (og koffínátín 50-100 mg og prednisólon 40-60 mg).

En svo bættist nýr fjölskyldumeðlimur við Sjafnargötuheimilið í fyrradag, Rúdolf racer! Unaðsfallegur rauður stelpuracer (götuhjól) sem ég fékk notaðan á góðu verði og sparaði mér þar með meirihlutann af 200þúsundkallinum sem ég var alvarlega að hugsa um að eyða í ofurhjól.

Fleira: Er ég ekki sæt dags daglega? Það var nebla tekin mynd af mér og Hörpu í skólanum út af viðtali í einhverju blaði og ég fékk lánað púður og maskara hjá Hörpu (var samt í hjólagallanum) og annar hver maður í bekknum búinn að kommentera á hvað ég sé fín í dag...


Mjög góð hugmynd...

...að taka hjólið með upp á Gufuskála! Ég er búin að fara í klukkutíma hjólatúr á hverjum degi (þ.e. í fyrradag og gær og í morgun) og það er geggjað!  Rauk af stað í morgun klukkan 7 en það er bara af því að ég borðaði óvart 2 hamborgara í kvöldmat og SVO lambahrygg og meððí í næstu íbúð...

Svona var útsýnið í morgun þegar ég hjólaði:  (þetta er samt ekki ég á myndinni heldur einhver gella á vefnum snaefellsnes.is)

Snaefellsj


Gufuskálar

Komin á 8 daga fyrsta-hjálp-í-óbyggðum námskeið (Wilderness First Responder) á Gufuskálum, svaka fjör! Var reyndar svaka stuð að komast á staðinn, hitti ekki alltaf á veginn á Fróðárheiðinni, býsna mikill snjór og lítið skyggni (veghefillinn hysjaði okkur upp úr skaflinum)

Markmið námskeiðs: Að gera þátttakendur að vel þjálfaða í fyrstu hjálp. Að þau geti brugðist við slysum og veikindum þegar langt er í sérhæfða aðstoð eða ekki er hægt að kalla á hjálp. Mikil áhersla er lögð á að nota lágmarksútbúnað.Að gera þátttakendur að vel þjálfaða í fyrstu hjálp Að þau geti brugðist við slysum og veikindum þegar langt er í sérhæfða aðstoð eða ekki er hægt að kalla á hjálp. Réttur til þátttöku :  Hafa grunnþjálfun björgunarsveitarmanna og hafa starfað í að minnsta kosti 2 ár í björgunarsveit. Hafa lokið námskeiðunum Fyrsta hjálp 1 og 2. Lágmarksaldur 20 ára á því ári sem námskeiðið er haldið. Lengd námskeiðs :  72 klst. á 8 dögum en tekin er einn frídagur á miðju námskeiði Námsgögn :   Fyrsta hjálp í óbyggðum, Wilderness First Responder Lecture Notes, , Wilderness First Responder Workbook, Wildrness Medical Association Field Guide. Uppbygging námskeiðs :  Fyrirlestrar og skrifleg verkefni fyrir hádegi, sýnikennsla og verklegar æfingar eftir hádegi.

Námsþættir á námskeiði :  Þríhyrningakerfið, endurlífgun, blóðrásarkerfið, öndurkerfið, taugakerfið, stoðkerfið, húðin, meltingarkerfið, þvagkerfið, ýmsir áverkar, flutningur og handtök við flutning slasaðra, eitranir, bráðir sjúkdómar, fæðingahjálp, köfunarveiki eða háfjallaveiki, óbyggðabjörgun og hugsanleg vandamál á fjöllum

Svo er ég búin að fá sjálfstraustið aftur eftir ömurlega þrekprófið um daginn (10% - LOW), gerði bara eins og ameríkanarnir og fékk 2nd opinion, þ.e. tók öðruvísi þrekpróf "Fire Fighter Test" og fékk út þrek = 90% - SUPERIOR!! Ég best, þarf greinilega ekkert að bæta mig, ætla að hætta að æfa.  (Tók samt hjólið og gönguskíðin með upp á Gufuskála).  Ætla svo að verða slökkviliðsmaður þegar ég verð stór.

 

 


Gistiheimilið Sjafnargötu 7

Þóra frænka á Akureyri kom og gisti í eina nótt.  Það er í frásögur færandi því að hún er manneskja nr. 2 sem gistir á Sjafnargötunni eftir að ég gerðist húsmóðir þar.  Manneskja nr. 1 var Haukur bró, það var líka í frásögur færandi og verður það gert hér með (já, Haukur minn, engin miskunn):

Sumarið 2004 gifti Elín stóra systir sig og þá kom hrúga af Þjóðverjum og gisti út um allt, fengu m.a. lánaða íbúðina hans Hauks og hann gisti hjá okkur.  Við Ágúst vorum í útskriftarferð læknanema í Tælandi og komum heim dauð úr flugþreytu fyrripart dagsins sem Haukur litli (29 ára) mætti í gistingu. Þegar okkur loksins tókst að sofna (ótrúlega erfitt, vissi ekki að flugþreyta væri svona andstyggileg) birtist Haukur alltíeinu inni á gólfi í svefnherberginu:

"Mig vantar kodda"

Haukur fékk engan kodda heldur bara blótsyrði og mjög slæma andlega strauma.  Það kom ekki í veg fyrir að þegar við vorum loksins sofnuð aftur birtist hann aftur inni í svefnherbergi (það er ekki hægt að læsa herberginu) og fór að róta niðri á gólfi við hliðina á hausnum á Ágústi:

"Ég er að leita að hleðslutæki"

Nú andlegu straumarnir sem Haukur fékk skánuðu ekkert við þetta.  Mamma hans (sem er líka mamma mín, merkilegt nokk) gleymdi greinilega að kenna honum að:

A: Ekki vekja sofandi fólk

B: Ekki vekja það aftur

C: Ekki labba inn í svefnherbergi hjá hjónum/hjónaleysum fyrirvaralaust (nema það séu pabbi og mamma og þú sért <10 ára)

D: Ekki gera það aftur

Nú, þess má svo til gamans geta að við erum enn þá systkini og þess vegna gisti Haukur einu sinni hjá okkur Ágústi fyrir norðan.  Þar var hægt að læsa svefnherberginu þannig að það urðu engin vandræði.


Lengi getur vont skánað

Ég tók asnalegt þrekpróf á hlaupabretti í ræktinni í gær og útkoman var þessi:

Þrek: 10% (lágt)

Ég er móðguð! Ég hjóla og hjóla og hjóla og svo labba (já, labba) ég á hlaupabretti í 10 mínútur og hlaupabrettið segir mér út frá hjartslætti að ég sé með 10% þrek, við hvað er eiginlega miðað? Lance Armstrong og Mörthu Ernstdóttur?

(þetta er þó framför frá því að ég prófaði sama þrekpróf síðasta vetur og fékk útkomuna þrek = 0)

En ég tek bara Pollýönnu á þetta, ég hef augljóslega gott tækifæri til að taka framförum á þessum vettvangi.

3hlaupa3


Dauðans alvara á fjöllum - leiðari Morgunblaðsins í dag

Mánudaginn 12. mars, 2007 - Ritstjórnargreinar

Um helgina lögðu björgunarsveitarmenn sig í hættu og milljóna króna kostnaður féll til af því að leita þurfti að fólki, sem lagt hafði á fjöll að því er virðist án þess að athuga veðurspá.

Mesta leitin var gerð að hópi vélsleðamanna, sem höfðu lagt á Langjökul og ættingjar fóru að óttast um. Þeir fundust eftir mikla leit, þar sem 43 hópar björgunarsveitarmanna komu við sögu, svo og þyrla Landhelgisgæzlunnar. Ýmsir aðrir þurftu aðstoðar við en sem betur fer skiluðu allir sér heim heilir á húfi. Slíkt var ekki sjálfgefið.

Það er gaman á fjöllum þegar vel gengur og hálendið verður æ vinsælla til útivistar. Fleiri og fleiri hafa líka efni á þeim búnaði, sem þarf til fjallaferða, vel búnum jeppum og vélsleðum. Alltof margir virðast hins vegar gleyma því að á hálendi Íslands er allra veðra von, raunar allan ársins hring en alveg sérstaklega á veturna. Að leggja á fjöll að vetrarlagi getur snúizt upp í dauðans alvöru. Og að gera það án þess að athuga veðurspána – eða án þess að taka mark á henni – er einfaldlega óðs manns æði. Ekki stefna menn aðeins eigin lífi og samferðamannanna í hættu, heldur geta björgunarsveitir þurft að tefla í tvísýnu til að hafa uppi á fólki, sem hefur anað til fjalla þrátt fyrir vonda veðurspá, jafnvel án þess að láta nokkurn mann vita um ferðaáætlun sína.

Undanfarin ár hafa komið upp nokkur mál þar sem leita hefur þurft að erlendum ferðamönnum sem hvorki hafa hlustað á viðvaranir né látið vita af sér. Það er hægt að skrifa slíkt á ókunnugleika útlendinga. En Íslendingar, sem búa í þessu landi og þekkja veðurfarið, hafa ekkert sér til afsökunar þegar þeir týnast í stórhríð sem spáð var fyrirfram.

Sá, sem hefur efni á jeppa eða vélsleða, hefur líka efni á að fara á námskeið í því hvernig á að haga sér á fjöllum, hvað ber að varast og hvaða búnað á að hafa meðferðis. Hann hefur líka efni á fjarskiptabúnaði sem dugir til að láta vita af sér ef eitthvað kemur upp á.

Sá, sem hefur nægilega skarpa athygli til að taka eftir jeppaauglýsingunum, hlýtur líka að geta hlustað á veðurspána.

Og sá, sem hefur fengið nægilega skipulagshæfileika í vöggugjöf til að ráða við að muna eftir benzíninu á bílinn og vélsleðann og kakói á hitabrúsann hlýtur líka að geta komið ferðaáætlun sinni til réttra aðila þannig að vitað sé hvar eigi að leita að fólki ef eitthvað bregður út af.

Boð og bönn, sektir og tryggingagjöld eru ekki lausn á því vandamáli, sem ábyrgðarlausar hálendisferðir óneitanlega eru. Það verður einfaldlega að höfða til skynsemi fólks og ábyrgðar.

Ef allir fjallamenn hugsa sig tvisvar um áður en þeir ana út í óvissuna þurfa uppákomur eins og þær sem áttu sér stað um helgina ekki að verða fastur liður.


Sjáanlegur árangur

Mér finnst ég svo ansi sniðug stundum.  Það fór í taugarnar á mér í mörg ár að kallarnir pissuðu alltaf út fyrir á klósettinu í ræktinni og skildu svo setuna eftir uppi (og í versta falli gleymdu þeir líka að sturta niður).  Gólfið kringum klósettið alltaf dálítið klístrað.  Ég nöldraði í starfsfólkinu nokkrum sinnum og liðið komst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að þrífa oftar.  Þetta kalla ég ekki að ráðast að rót vandans, þannig að ég greip til minna ráða og hengdi upp plagg fyrir ofan klósettið (plastað og flott svo það væri meira sannfærandi):

Strákar

Nú, árangurinn lét ekki á sér standa og skv. lauslegri mælingu var klósettið lokað í 95% tilfella eftir að skiltið kom upp.  Gárungur tók svo upp á því eftir nokkra farsæla mánuði að krota inn lið 3.b:  HRISTA.  Einhverjum fannst þá skiltið ekki nógu fínt lengur og á endanum var það tekið niður.  BINGÓ: SETAN UPPI Í HVERT EINASTA SKIPTI SEM ÉG HEF KOMIÐ Í RÆKTINA SÍÐAN!! ERU KARLMENN BARA HÁLFVITAR SEM GETA EKKI LÆRT AÐ LOKA KLÓSETTINU??????!!!!! (ekki persónulega meint gagnvart neinum einstökum karlmanni)


Allir með strætó?

Ekki veit ég hvað er langt síðan ég steig upp í strætisvagn á Íslandi, ábyggilega 6-7 ár.  Ágúst fór hins vegar í strætó í dag, allt af því að ábyrgðarlausa eiginkonan klessti annarra manna bíl og lánaði sinn bíll meðan jeppinn góði er á verkstæði.  280 krónur hvora leið, samtals 560 krónur! Mér finnst þetta morð! Skv. þessu er ég búin að hjóla fyrir 1120 krónur í dag, Sjafnargata-Faxafen-Breiðholt-Langholtskirkja-Kópavogur-Sjafnargata.  Alltaf að græða (kaupi mér svo racer fyrir gróðann).

En af því að þetta er svo leiðinleg færsla kemur hér mynd sem kætir andann:

046a


Hverjum þykir sinn fugl fagur

Mamma var í heimsókn hjá Selmu sætu systurdóttur minni í Þýskalandi og kom heim með myndir.  Selma litla krútt þykir frekar sæt (einkum af ættingjum og vinum) og er svo ljónheppin að líkjast móður sinni.  Selma til vinstri í gallanum sem mamma saumaði á Elínu fyrir mjög mörgum árum, og Elín til hægri með sama brosið.

Bændaferð 2006 ST 147EE 1973 0233

Hér er hins vegar mynd af pabba hennar Selmu, það er ekki vitað hvor er hvor (Adrian pabbi Selmu fæddist í tveimur eintökum):

Adrian&Valentin 1

Og önnur með stóru systrunum (enn er ekki vitað hvor er hvor þó að greinilega hafi verið gerð tilraun til að aðgreina þá m.þ.a. klippa topp á annan þeirra):

Adrian&Valentin 2

Svo spyr Elín mamma Selmu hvort það sé ekki allt í lagi heima hjá mér.  En Selma sæta ber af foreldrum sínum eins og sjá má:

Bændaferð 2006 ST 154


Og leiðin liggur enn niður á við...

Velgengnikenningin mín er eitthvað að klikka, ég er nefnilega enn þá óheppin.  Hrundi af hjólinu á hjólaæfingu í gær, missti stjórn á mér (og hjólinu) í beygju uppi í Heiðmörk og lenti á tré.  Reyni að kenna lélegum bremsupúðum um, virka ekki í frosti.  Krambúlerað hné en mér tókst samt að hjóla heim (í boði vinstri fótar og Hauks sem ýtti á eftir).

En ég luma á miklu skemmtilegri sögu af mér að detta á tré í Heiðmörk, þegar ég náði ekki beygjunni á gönguskíðum (engar bremsur) og lenti á litlu grenitré alveg eins og í teiknimyndum, hendur og fætur sitt hvorum megin við tré og svo lá ég bara föst í skafli máttlaus af hlátri, það var nú gaman.  Gott að ég var betur klædd en þetta:

Monroe á skíðum

Það lenda þó fleiri í hremmingum en ég á gönguskíðum, þessir skíðasveinar ætluðu að næla sér í tré í Kópavogshluta Heiðmerkur en hittu fyrir bæjarstjórann. 

King kong

En svona er skíðafærið samt þessa dagana:

gott skíðafæri


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband