Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Skriðæfingar og annað sprikl

Ýmis ráð notuð til að kenna Ágústi Ísleif að skríða.  Eins og sést þá er hann stinnur eins og planki og dettur ekki í hug að beygja hné og mjaðmir.  En það vottar þó fyrir framförum, þ.e. honum fer fram í að fara fram með fæturna, ansi hnyttin setning.

Lok mars 011

Lok mars 012

En það er nú einfaldast að sitja bara á rassinum, og maður nýtur sín vel í svona fínni peysu sem Úlfar Jökull prjónaði (með aðstoð Auðar mömmu býst ég við) og á teppinu sem einhverjir muna kannski eftir sem dularfullri sængurgjöf (frá Elínu Björk & co).  Hér er hann (tiltölulega) þolinmóður á æfingu fyrir tónleikana sem Ágúst var að syngja á á sunnudaginn.  Það vakti talsverða lukku þegar hann fór að slá taktinn með skeiðinni sinni, framtíðarstjórnandi á ferð.

Lok mars 031

En svo var heldur betur fjör hjá okkur í gær þegar við mæðgin fórum á róluvöll.  Ágúst Ísleifur skemmti sér veeeel í rólunni, dandalagóð smábarnaróla sem er ekki hægt að detta úr.

Lok mars 051     Lok mars 046

Og að lokum allt annað: Hvern dreymir ekki um að eiga eitt svona á heimilinu?

studio_s1

Það þarf auðvitað að vera alvöru orgel á öllum betri heimilum, og þar til við höfum skrapað saman fyrir alvöru pípuorgeli þá verður rafmagnsstaðgengill að nægja.  Við höfum ákveðið að festa kaup á svona æfingahljóðfæri, gerir lífið mun auðveldara næsta vetur þegar ég þykist ætla að fara á kostum í orgelnámi, og Ágúst kvartar ekki heldur yfir að geta spilað þegar honum sýnist.  Það er von á einu svona frá Þýskalandi eftir helgi, verst að ég verð ekki á staðnum til að taka á móti því, en Ágúst hefur þá allavega eitthvað við að vera meðan 2/3 fjölskyldunnar moka í sig páskaeggjum á Íslandi!


Prrr...

Við mæðgin tölum sama tungumálið, Ágúst Ísleifur purrar heil ósköp sérstaklega þegar hann er pirraður, og ég er hundpirruð núna því mér tekst ómögulega að setja inn flottu myndirnar sem ég var að taka af guttanum.  Blessuð tölvan mín þyrfti bara að komast á heilsuhælið í Hveragerði eða spa-meðferð einhvers staðar, já og kannski eigandinn með, teldist það þá fjölskyldumðferð?

En engin ástæða að vera með pirr og volæði, ég sem var í svo dandalagóðu hrökkbrauðspartíi í Randers sem er úti í ra...ti einhvers staðar fyrir ofan Árósa. Ég fór nú ekki alla leið þangað bara til að éta hrökkbrauð, ekki einu sinni þó að það hafi verið mysuostur ofaná, heldur var Ágúst að syngja á kórtónleikum sem enduðu í þessu líka rokna stuði.  Ég hef komið í veglegri kórpartý.

Ég hafði reyndar prýðilegt tækifæri til að pirrast yfir þvottavélinni í dag, hún þvoði bleiurnar svona agalega illa að það var bara pissufýla og ég veit ekki hvað. Kom síðan í ljós eftir heilmiklar pælingar og rannsóknir að Ágúst hélt að ég hefði sett vélina af stað, en ég hélt mjög eindregið að ég hefði sagt Ágústi að gera það, m.ö.o. bleiurnar fóru inn í vélina og svo út úr henni aftur og ahemm upp á snúru, síðan niður af snúrunni og inn í vélina aftur og húsfreyjan ýtti á start og fyrirgaf þvottavélinni.  En það er auðvitað ágætis sparnaður að hengja pissubleiurnar bara upp, eintómt pjatt að vera alltaf að þvo þetta...

Kannski lokapirrið sé yfir harðsperrunum í lærunum, ég verð alltaf jafnhissa þegar þetta gerist, og ég liðkaðist lítið við það að tölta niður í bæ og kaupa í matinn, er orðin algjör sérfræðingur í að versla með iðandi orm framan á mér í burðarpoka, held að hann eigi hreinlega eftir að hoppa upp úr pokanum einn daginn ef hann nær spyrnu einhvers staðar.  Hann náði reyndar svo góðri spyrnu í rúminu sínu þegar ég var að reyna að koma honum í háttinn áðan að hann dúndraði kollinum í brúnina á rúmhliðinni eða hvað það nú heitir með tilheyrandi kúlu og orgi.  Væri nær að hann notaði eitthvað af allri þessari hreyfiorku í eitthvað skynsamlegt eins og t.d. velta sér eða skríða, við ræðum þessi mál reglulega við hann en hann situr sem fastast á rassinum og skælir þegar hann er afvelta á maganum, sjálfsbjargarviðleitnin alveg að fara með hann. En svona er það bara að vera smábarn, ekki hægt að kunna allt.

Nú og svo styttist í heimferðina, ég er mikið að klóra mér í kollinum yfir því hvort ég eigi að rjúka af stað snemma á fimmtudagsmorgun og verða samferða Ágústi til Köben (er að fara á námskeið) þó að flugið sé ekki fyrr en síðdegis, eða hvort ég eigi að drösla sjálfri mér, barni og farangri í lestina hjálparlaust seinna um daginn.  Veit sosum ekki hvað ég á af mér að gera í Köben eða almáttugur minn hangandi á Kastrup, en það er ljómandi gott að vera með burðarmann og selskap í lestinni.  Ætla helst að drösla sem mestu af sumar-farangri með mér núna, þ.e. nota ferðina til að flytja eitthvað sem ég þarf í sumar á Íslandi en þarf ekki hér þangað til.  Er m.a.s. búin að kaupa afmælisgjöf handa Ágústi Ísleifi og ætla að kippa henni með, mjöööög flottur pakki og mjög svo í anda móðurinnar Whistling snemma beygist krókurinn höfum það bara þannig eða gerum allavega okkar besta til að beygja hann.


Nú svo erum við barasta á leið til Íslands

Ég ákvað að splæsa á páskafrí fyrir okkur mæðgin, nældi mér í messur til að spila og voila búin að borga ferðina.  2.-17. febrúar takk fyrir.

Í tilefni af því er vert að rifja upp hvað það er myndarlegur strákur sem kemur með mömmu sinni til Íslands.  Hér er hann hálfhlessa að máta lopapeysu frá Erlu Elínu, soldið stór enn þá.  En hann á líka rennda lopapeysu frá Úlfari Jökli sem er alveg farin að passa, af hverju á ég ekki neina mynd af henni hmm.  Og svo er maður mjög duglegur að standa (næstum því) sjálfur.

Lok feb - 24. mars 018   Lok feb - 24. mars 036

Hér eru Ágúst Ísleifur og Bjössi Bangsi að hjálpa mömmu að prjóna sólhatt á Steindísi Elínu sem varð 1 árs um daginn.

Lok feb - 24. mars 042

Bara eftir að ganga frá endanum og setja bönd (ef út í það er farið þá á enn þá eftir að setja böndin...)

Lok feb - 24. mars 049

Og hér er klíkan á teppinu, afmælisbarnið Steindís Elín, Ágúst Ísleifur að smakka á einni afmælisgjöfinni, Emilía Glóð liggjandi (enda er hún smábarn enn þá) og svo Anna sem er dönsk/amerísk vinkona Steindísar (svona internasjonal gella).

Lok feb - 24. mars 051

Svo er það skriðþjálfunin, hún gengur svona svona...

Lok feb - 24. mars 059

Lok feb - 24. mars 064

Lok feb - 24. mars 072

Hér glittir svo aðeins í tennurnar...

Lok feb - 24. mars 068

Hér eru þær í öllu sínu veldi!

IMG_2117[1]


9 mánaða kútur

Mátar skrifborðsstólinn hans pabba síns:

Lok feb - 24. mars 111


Vorið komið

Glampandi sól og dejligt veður í Hrossanesi þessa dagana, við mæðgin höfum nýtt góða veðrið til að fara út að hjóla.  Ágúst Ísleifur sló fyrri met í gær og tók 22 km með móður sinni án þess að blása úr nös, duglegur drengur.

Stráksi hefur reyndar verið óvær af og til undanfarið, það var leiðinlega langt tímabil þegar hann galaði og gólaði á hverri nóttu, við viljum kenna einhverri magapínu um, en síðan lagaðist það og hann fór að sofa eins og engill.  Iðaði samt eins og ormur í nótt greyið og gat ekki sofið, veit ekkert hvað amar að honum.  Og núna gólar hann úti í vagni 10 mínútum eftir að hann sofnaði, æjæjæj.  Vonandi verður hann samt kátur í tónlistarskólanum á eftir, vortímabilið að hefjast, núna verður hann ábyggilega stóri strákurinn í bekknum því þetta er fyrir 3-10 mánaða og minns bráðum 9 mánaða, ótrúlegt en satt.

Aðalmálið þessa dagana er skriðþjálfun, Ágúst Ísleifur sýnir ekki minnsta vott af skriðhæfileikum og til að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það Tounge þá erum við að reyna að kenna honum þetta. Auðvitað lærir hann bara á sínum hraða en það er samt hægt að hjálpa krílunum á ýmsan hátt, setja hann sem mest á magann og hjálpa honum í "skriðstellingu", foreldrarnir skemmta sér allavegana mjög vel yfir því! Það vantar ekki að hann sé duglegur að sprikla, það er bara ekkert sérstaklega markvisst...

Það er reyndar mjög gott að hann er ekkert farinn að komast um sjálfur því húsið er alltaf í rúst, framkvæmdagleðin hleypur með mig í gönur en síðan dregst á langinn að klára (þó ekki sé nema vegna gólandi barns), vantar alltaf þetta stykki eða þetta stykki blablabla.  En nú er borðstofan og stofan að komast í skikkanlegt stand, ég er búin að setja nýjar innstungur og rofa út um allt og skrapp áðan í byggingavörubúðina og náði í loftlista sem eiga að fela lagnir fyrir loftljós í stofunni, þarf svo bara að príla og negla.  Já og kannski finna einhver loftljós.  Já og svo parket, svona þegar vorar í efnahagsmálum Whistling

Ég fæ bara samviskubit að setja enga mynd, en ég nenni ekki að tæma af myndavélinni núna, sorrý.


Afsakið...

Nú jæja hér er allt gírlaust best að redda því í snarhasti.  Byrja á því að bakka um hvah heilan mánuð held ég, þegar við skruppum til Sönderjylland þar sem Erla Elín var með íbúð í nokkrar vikur. Við höfðum það frábært á þeim bæ í heila fimm daga, fórum í alls konar udflugta, m.a.s. til Þýskalands og í súpermarkað í Flensborg þar sem Danir kaupa svo mikið inn að þeir eru með danska posa. 

Svo þarf ég að bakka um 14 ár til viðbótar þegar ég ung og sæt var eitt sumar í Danmörku, m.a. á bænum Stensigmose í Sönderjylland. Þarna var ég í þrjár vikur á sínum tíma, passaði grislingana og mjólkaði kýr. Við notuðum náttúrulega tækifærið og litum við.  Ég hringdi bjöllunni, frúin kom til dyra, ég sagði "Jeg hedder Lára" og hún svaraði (með dönskum hreim) "Lára Bryndís Eggertsdóttir!!" og var svaka kát.  Engin furða að þau myndu eftir mér því ég hékk uppi á korktöflunni í borðstofunni ásamt þeim Tinu, Jesper og Rasmusi í Lego-fötunum sínum

Sönderjylland feb 053

Nú síðan fórum við til Íslands undir því yfirskini að ég þyrfti að spila á tónleikum með Gradualekórnum.  Ágúst Ísleifur hitti marga sem hann þekkir.

Hér er hann að skoða hárlitinn á Úlfari Jökli og útskýra fyrir honum að ef maður borði eins mikið af gulrótum og hann (ÁÍ) þá verði maður rauðhærður (og appelsínugulur svona almennt).

Ísland feb 011

Svo heimsóttum við Láru langömmu.  Eins og sannri ömmu sæmir var hún mjög ánægð með hvað barnið var vel klætt.

Ísland feb 015

Og spilaði svo fyrir okkur af hjartans lyst, ekki nema 95 ára!

Ísland feb 022 

Nú og Ágúst Ísleifur tók líka kærusturúntinn, hér er hann með Eddu Sjöfn.  Hún hefur 8 daga forskot á hann í öllu sem hún gerir, til dæmis kann hún að ýta pent á takkann á bókinni svo hún segi brabra.  Ágúst Ísleifur er meira í því bara að lemja bókina.

Ísland feb 025

Ísland feb 031

Og svona mikill þroskamunur kann ekki góðri lukku að stýra, endaði með því að allt fór í háaloft og org.

Ísland feb 038

En þau eru samt svo svaðalega efnilegt par að þau eru búin að fá sér matching jogginggalla eða soleis... (í boði Bjargeyjar prjónóðu)

Ísland feb 060

Næst var Karitas heimsótt, mamma hennar er Guðný organisti.  Ágúst Ísleifur tók hana bara í nefið, enda er hún ca. tveim mánuðum yngri.  Það sést þó ekki á kílóafjöldanum, en það er víst ekki við hæfi að tala um kíló og kvenfólk í sömu andrá svo ég sleppi því alfarið.

Ísland feb 070

En hann leggur ekki í Þorbjörgu Þulu, enda kann hún að LABBA! Ágúst Ísleifur kann ekki einu sinni að skríða.

Ísland feb 076

Jæja þetta er gott í bili af myndafylleríi.  Síðan við komum heim frá Íslandi hef ég baukað við að mála borðstofu og skrifstofu, og það er enn þá allt í rúst því ég á eftir að ganga frá rafmagni (ein innstunga í borðstofunni ekki aaaalveg nóg, engin loftljós í stofunni etc.) og fleira smálegu.  Eins gott að barnið kann ekki að skríða því það eru verkfæri og rusl út um allt.  Erum þó að vinna í skriðmálum og hann sýnir framfarir.  Erum líka að vinna í matarmálum, gengur ekki að hann sé svo mikið smábarn að hann kúgist yfir minnstu bitum og hann er núna í stífri þjálfun, renndi niður heilu jarðarberi í hádeginu án þess að blikka auga (reyndar frekar litlu og afþýddu úr frystinum).  Er líka aðeins að ná tökum á því að pilla mat upp í sig sjálfur, en vill samt frekar skeiðina, þ.e. almennilega þjónustu.  Allavega lágmark að honum sé réttur maturinn í skeið, hann getur síðan stýrt skeiðinni upp í sig eða tekið hann af skeiðinni, litli prinsinn...

Já og Ágúst byrjaði aftur að vinna eftir 5 vikna fæðingarorlof síðasta mánudag, eða nánar tiltekið er hann á námskeiði í Árósum alla vikuna og fer út úr húsi upp úr sex ojbara.  Ég er því aftur orðin fulltidsmor úff púff.  Fór samt í spinning áðan og skellti stráksa bara í pössun í ræktinni sem er í boði fyrir eins árs og eldri, maður er nú orðinn 8 og hálfs!

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband