Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

"Skoðanakönnuninni"

Mér datt strax stafsetningaræfing í hug þegar ég skrifaði tölvupóst til blog.is og spurði um skoðanakönnunina mína í þágufalli, þ.e. af hverju hún birtist ekki.  Eigi er örgrannt um að skoðanir margra séu á öndverðum meiði við meirihluta skoðananna í samfélagi voru.  Óðinn átti hrafnana Hugin og Munin.  Huginn þekkti Munin, en enginn annar sá á þeim muninn.  Mun... (púff hvernig er Muninn í þágufalli?) hugnaðist ekki hvernig Huginn felldi hug til munúðarfullu mærinnar....

En nú lýsi ég eftir fallbeygingum - kann einhver að fallbeygja eftirfarandi í öllum föllum með og án greinis: (Mamma, ég mana þig, þú smellir bara á "athugasemdir")

Huginn, Muninn, landvættur (bókmenntakennarinn gat það ekki), náttúruvætti.

Koma svo!! (og endilega haldið ótrauð áfram að svara skoðannnnakönnnnnunnnninnnnni)


"Er ekki allt í lagi heima hjá þér?"

Þetta voru viðbrögð Elínar stórusystur við bloggsíðu minni.  Að sjálfsögðu er allt í lagi heima hjá mér eins og má sjá á þessari fjölskyldumynd:

EH+ST+Börn 1981 101

En til að taka allan vafa hef ég sett inn skoðanakönnun svo þið, lesendur góðir, getið úrskurðað um mig og heimili mitt.


9 erindi

Undirtitill þessarar færslu er ORGANISTAPIRRINGUR

Ég var að spila í útvarpsmessu, alltaf gaman að því nema í þetta skiptið var ég með 39 stiga hita, orgelið pínulítið og óspennandi (í háskólakapellunni) og ógeðslega mörg erindi af öllum sálmunum og allt sérviskulegir biblíusálmar í tilefni af biblíudeginum.  Ég bjargaði reyndar 9-erinda-sálminum með tveimur júróvisjónhækkunum, geri aðrir betur.

Hafi einhver verið svo óheppinn að missa af messunni þá má heyra hana hér: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4315520


Ármannsfellið fagurblátt

Það voru engar jarðarfarir á fimmtudaginn þannig að ég ákvað að skella mér í labbitúr.  Þannig er að við í gönguleiðsögninni eigum að skila inn "logbók" með 10 vænum gönguferðum í og það er ágætis hvatning til að skella sér af stað!  Ég fékk tvær úr bekknum með mér og lánaði þeim brodda og axir.  Veðrið var brilljant og við keyrðum á Þingvelli, stoppuðum þegar við vorum komnar með góða fjallasýn og völdum okkur fjall.  Ármannsfellið reyndist mun skemmtilegra en ég átti von á, það virkar bara svo lítið við hliðina á Botnssúlunum að ég hélt alltaf að það væri ekkert spennandi.  Það var hins vegar svona gaman:

Ármannsfell 8.2.07 008

Og útsýnið svona gott:

Ármannsfell 8.2.07 007

Svo kom ég heim og rauk beint á hjólinu á Gradualeæfingu, Jónsi í útlöndum og ég notaði tækifærið og píndi liðið til dauðs í Maríuljóði og fleiru skemmtilegu.  Eftir það fór ég beint á hjólaæfingu, hjólafélagið mitt var svo tillitssamt að nenna að hitta mig eftir gradualeæfingu upp úr 7, en hjólaæfingin byrjar samt kl. 18:30 (þess má reyndar geta að það var alveg einn heill hjólamaður á æfingunni fyrir utan mig...).  Við hjóluðum til rúmlega 21 og skelltum svo í okkur borgara á Vitabarnum, meiri búllan!!  Við skerum okkur soldið úr þegar við mætum þarna í nördagallanum kófsveitt og sjúskuð (hinir eru bara reykjandi, drekkandi og sjúskaðir á fimmtudagskvöldi).  Það var reyndar hjólakeppni í sjónvarpinu á barnum þannig að við vorum bara í góðum fíling...


Ráðhildur ráðagóða

Ráðleggingar úr daglega lífinu: 

Aldrei nota hárreytitæki á lappirnar og fara svo út að hjóla í lopasokkum upp að hnjám.

Aldrei skrúfa óvart blandarakönnuna í sundur í staðinn fyrir að skrúfa hana af blandaranum þegar hún er troðfull af nýblönduðum ávaxtasafa.

En svo finnst mér þetta skemmtilegt:  http://www.youtube.com/watch?v=JzqumbhfxRo&eurl=


Ræræræ...

Sunnudagskvöld og ég sötra messuvín af stút.  Grínlaust, ég var send heim með restina, cabernet sauvignon frá Chile, býsna gott.  Sit og æfi sönglags-útgáfu af Liebestraum e. Liszt fyrir jarðarför á morgun, Halldóra mín ertu til í að fletta? 

En að öðru: Gönguleiðsagnarhópurinn var á vetrarfjallamennskunámskeiði um helgina en ég skrópaði af því að ég tók svona námskeið hjá íslenskum fjallaleiðsögumönnum í fyrra og leist betur á að spila í messu (lesist: græða peninga) og hjálpa tengdamömmu að flytja (upp á Kjalarnes).  Svo er ég líka svo "ofmetnuð" eftir allt ísklifrið að ég nenni ekki að læra um broddamennsku með byrjendum (ekki verða reiðar harps og hils). 

Um vetrarfjallamennskunámskeiðið í fyrra: Ég og Ágúst ásamt 2 öðrum og kennara djöfluðumst í Botnssúlum rennandi á baki og maga og rassi afturábak og áfram að æfa ísaxarbremsur, klifruðum upp lóðréttar brekkur og sigum, tjölduðum svo á flottasta tjaldstæði ever á hálsinum millli Syðstu-Súlu og hinna súlanna í skííííítakulda, mér hefur aldrei verið eins kalt á rassinum að reyna að sofa!  Svona var afturámóti aðstaðan hjá samnemendum mínum í leiðsöguskólanum:

Gönguleiðsögnin að borða

 Að lokum pistill um hjólaæfingu, ég prófaði hrikalega fyndið í gær, pedalar þar sem sveifarnar eru ekki samtengdar, þ.e. þú getur hjólað með annarri löppinni án þess að hin hreyfist sjálfkrafa með.  Furðulegt eða..? Sjálfsagt að útskýra betur ef óskir berast.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband