Dauðans alvara á fjöllum - leiðari Morgunblaðsins í dag

Mánudaginn 12. mars, 2007 - Ritstjórnargreinar

Um helgina lögðu björgunarsveitarmenn sig í hættu og milljóna króna kostnaður féll til af því að leita þurfti að fólki, sem lagt hafði á fjöll að því er virðist án þess að athuga veðurspá.

Mesta leitin var gerð að hópi vélsleðamanna, sem höfðu lagt á Langjökul og ættingjar fóru að óttast um. Þeir fundust eftir mikla leit, þar sem 43 hópar björgunarsveitarmanna komu við sögu, svo og þyrla Landhelgisgæzlunnar. Ýmsir aðrir þurftu aðstoðar við en sem betur fer skiluðu allir sér heim heilir á húfi. Slíkt var ekki sjálfgefið.

Það er gaman á fjöllum þegar vel gengur og hálendið verður æ vinsælla til útivistar. Fleiri og fleiri hafa líka efni á þeim búnaði, sem þarf til fjallaferða, vel búnum jeppum og vélsleðum. Alltof margir virðast hins vegar gleyma því að á hálendi Íslands er allra veðra von, raunar allan ársins hring en alveg sérstaklega á veturna. Að leggja á fjöll að vetrarlagi getur snúizt upp í dauðans alvöru. Og að gera það án þess að athuga veðurspána – eða án þess að taka mark á henni – er einfaldlega óðs manns æði. Ekki stefna menn aðeins eigin lífi og samferðamannanna í hættu, heldur geta björgunarsveitir þurft að tefla í tvísýnu til að hafa uppi á fólki, sem hefur anað til fjalla þrátt fyrir vonda veðurspá, jafnvel án þess að láta nokkurn mann vita um ferðaáætlun sína.

Undanfarin ár hafa komið upp nokkur mál þar sem leita hefur þurft að erlendum ferðamönnum sem hvorki hafa hlustað á viðvaranir né látið vita af sér. Það er hægt að skrifa slíkt á ókunnugleika útlendinga. En Íslendingar, sem búa í þessu landi og þekkja veðurfarið, hafa ekkert sér til afsökunar þegar þeir týnast í stórhríð sem spáð var fyrirfram.

Sá, sem hefur efni á jeppa eða vélsleða, hefur líka efni á að fara á námskeið í því hvernig á að haga sér á fjöllum, hvað ber að varast og hvaða búnað á að hafa meðferðis. Hann hefur líka efni á fjarskiptabúnaði sem dugir til að láta vita af sér ef eitthvað kemur upp á.

Sá, sem hefur nægilega skarpa athygli til að taka eftir jeppaauglýsingunum, hlýtur líka að geta hlustað á veðurspána.

Og sá, sem hefur fengið nægilega skipulagshæfileika í vöggugjöf til að ráða við að muna eftir benzíninu á bílinn og vélsleðann og kakói á hitabrúsann hlýtur líka að geta komið ferðaáætlun sinni til réttra aðila þannig að vitað sé hvar eigi að leita að fólki ef eitthvað bregður út af.

Boð og bönn, sektir og tryggingagjöld eru ekki lausn á því vandamáli, sem ábyrgðarlausar hálendisferðir óneitanlega eru. Það verður einfaldlega að höfða til skynsemi fólks og ábyrgðar.

Ef allir fjallamenn hugsa sig tvisvar um áður en þeir ana út í óvissuna þurfa uppákomur eins og þær sem áttu sér stað um helgina ekki að verða fastur liður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband