Rejsehistorien

Ja, nu er jeg altså flyttet til Danmark.  Af tillitssemi við Hauk bróður minn sem bjó ekki nógu lengi í Danmörku til að læra dönsku þá ætla ég a.m.k. að einhverju leyti að skrifa áfram á ástkæra ylhýra.  Viðurkenni líka að það hægir töluvert á annars nógu afkáralega hægvirkandi heila mínum að brúka annarra manna tungumál.  Já og ég kann ekki að gera danskt ö.  Vona að Híldegúnnúeúah og Síhrúa fyrirgefi.

Það hefur gengið ansi mikið á síðustu daga, efni í heila bók.  Þau undur og stórmerki áttu sér t.d. stað síðasta fimmtudag að ég stjórnaði kór á tónleikum, næstum því eins og ekkert væri.  Gekk ekki að yfirgefa Grafarvogskórinn alveg og stjórnaði Sjúbbert-messunni sem ég æfði með þeim, Alla Þorsteins (sem ég var að leysa af og leysti mig svo af) stjórnaði rest.  Ég fékk lánaðan brilljant stól hjá Guðnýju Einars (Hella-og-Fóla-organista), hálfgert hænsnaprik með rauðri sessu sem svínvirkaði undir breiðari endann á mér og ég veifaði höndum af stólnum með tilþrifum.  En omg hvað ég var þreytt eftir þetta úff.

Hápunktur föstudagsins var þegar ég fór og keypti bastvöggu undir krílið, gafst alveg upp á því að ætla að finna fína vöggu í Danmörku, sá bara stórar ljótar hvítar rándýrar barnabúðavöggur þar, en ég vildi gúd óld "blindrafélagsvöggu" og ekkert kjaftæði.  Gekk reyndar í ótrúlegu klúðri að komast á réttan stað, mundi húsnúmerið alveg þegar ég keyrði af stað en síðan ekki söguna meir.  Kláraði svo inneignina í símanum (búnað skipta yfir í frelsi útaf flutningnum) og var í tómu rugli úff púff þig viljið ekki vita meira.  Komst samt að lokum á réttan stað (eftir að hafa keypt inneign í næstu búð) og fékk fínu vögguna mína Grin.

En svo byrjaði þrælavinnan.  Það þurfti nefnilega að skíra Völu litlu Selmusystur en það er ekki hægt án þess að baka.  Ég var voða dugleg aldrei þessu vant og sat við eldhúsborðið allan föstudags-seinnipart og laugardags-fyrripart og skar niður dót í kökur og brauðrétti og smurði laxabrauð og raðaði smartís á skúffukökuna.  Hljómar ekki eins og mikil áreynsla eeeeeeen var víst heldur mikið fyrir mig.  Var algjörlega búin á því þegar ég kom heim eftir veisluna á laugardagskvöldið og komst í alvörunni ekki fram úr rúminu á sunnudagsmorguninn, lá bara með samdrætti út í eitt um morguninn, banhungruð og drepleiddist, sem betur fer sofnaði ég aftur og rankaði ekki við mér fyrr en um hádegi.  Þá mættu Digróstelpur í saumaklúbbslönsj, átti að vera heima hjá annarri en ég lét bara Múhameð koma til fjallsins í staðinn, var alls ekki á leið út úr húsi þennan daginn.

En það var einmitt sérstaklega svekkjandi að komast ekki út úr húsi því ég hafði verið svo bjartsýn að panta mér tíma í bumbumyndatöku (af því ég er svo sæt) en varð að láta mér duga myndina sem tengdó náði af mér í símanum LoL

Ekki má nú gleyma skírninni sjálfri.  Ég kom mér undan öllu spileríi (hefði ekki einu sinni komist upp á orgelloftið) og fékk Jónsa til að spila og Þóru frænku til að syngja einsöng.  Vala vildi samt sjá um allt sjálf og orgaði stíft.  Þóra kallaði sig bara góða að fara ekki útaf laginu (Vala þagnaði samt aðeins í 4. erindi af snert hörpu mína) og presturinn þurfti að brýna raustina...  Síðan svaf litla óargadýrið bara eins og engill í veislunni!

Á mánudaginn var ég enn þá ónýt og gerði ekkert til gagns nema klára fína húfu á Hauk.  Jájá, ég var að prjóna húfu á Hauk bróður.  Það er að vísu of seint fyrir hann að nota hana, því hún fylgir eiginlega með setti sem mamma prjónaði árið 1969 og Haukur krúttaðist í fyrsta árið, en svo týndist húfan en það var til aukadokka af garninu.  Haukur ætlar svo að lána nýja krúttinu húfuna sína...

Mamma hafði tekið að sér að pakka fyrir mig, en þegar Dagbjört kom í heimsókn á mánudagskvöldið hafði lítið gerst í þeim efnum svo hún tók að sér pökkunarstjórn af sinni einstöku röggsemi Police.  Ég sat bara í sófanum og skipaði dótinu sem mamma og Dagbjört veifuðu í flokkana "núna" og "seinna".  Eitthvað leist m&d illa á hvað töskurnar urðu þungar en ég sagði að ég mundi alveg redda því með klækjum.

Á þriðjudaginn kom svo að stóru brottfararstundinni.  Klukkutíma fyrr en til stóð því kvikindin hjá æsland express sameinuðu Billund-flugið mitt við Kaupmannahafnarvél og þurfti að millilenda þar og ferðin lengdist um tvo tíma grrrr.... þar fór stysta mögulega ferðalag kasóléttu konunnar í súginn.  Gísli skutlaði mér á völlinn og fékk fyrir mig hjólastól svo væri hægt að koma feitu mér vandræðalaust um húsið, og nema hvað, hann fékk tvíbreiðan hjólastól!  Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta, gekk nú ekki vel að fylla upp í stólinn (enda er ég meira á lengdina/dýptina en breiddina) en hafði allavegana nóg pláss fyrir bakpokann við hliðina á mér.  Síðan veifaði ég læknisvottorði um að ég mætti alveg fljúga (sem mér tókst með herkjum að kría út úr ljósmóðurinni á mánudaginn, henni leist ekki alveg á mig), tékkaði inn stærri ferðatöskuna og tilkynnti að hún og risakassinn með vöggunni væru samtals 20 kg.  Innritunardaman trúði því eins og nýju neti (risakassinn fór óvigtaður í odd-size baggage), svo veifaði ég minni töskunni og tilkynnti að hún mætti alveg fara í handfarangur, innritunardaman trúði því líka (má hafa 10 kg, en ahemm..), síðan sagði ég að ólétta hjólastólakonan nennti samt ekki að þvælast með fluffutöskuna og heimtaði að hún færi líka í farangursrýmið.  Þannig tókst mér að tékka inn ca. 45 kg án þess að blikka auga Whistling újeah.

Nú svo kom sætur starfsmaður og tók við mér, rúllaði mér gegnum öryggistékkið (þeir tóku ekki af mér stórhættulegu rósaviðarprjónana sem voru keyptir sérstaklega til að ég missti ekki vitið á leiðinni), svo á klóstið (beið fyrir utan) og inn í vél þar sem ég átti frátekið sæti við hliðina á klósettinu ovkors.  Hófst þá ferðalagið.  Ég fitjaði upp á röndóttri peysu í stærð 1 árs og var búin með stroffið og nokkrar rendur þegar við komum til Billund.  Eins gott að ég var með prjónana, tíminn 5x fljótari að líða.  Fékk bara einbreiðan hjólastól hinumegin og svo beið Ágúst eftir mér fyrir utan InLove og bauð mig velkomna "heim", fannst það obbolítið skrýtið!

Var hundþreytt eftir ferðina en gat samt ómögulega sofið, uppfull af flutningssjokki og ónýt í mjöðmunum sama hvernig ég lá kvartikvart.  Endaði með því að ég fór á fætur um leið og Ágúst upp úr 6, hann fór nebla til Kaupmannahafnar á þriggja daga námskeið og kemur ekki fyrr en annað kvöld Frown.

Staða mín hefur því lítið breyst í raun og veru.  Fyrir nokkrum dögum sat ég alein grasekkja uppí sófa heima hjá mömmu, prjónaði og horfði á Grey's anatomy, núna sit ég í míns eigins sófa í míns eigins húsi, líka alein grasekkja, prjóna og horfi á Grey's anatomy.

Nú segi ég skrifræpu þessari lokið, næst koma fréttir af nýja fína húsinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Jaja, det er helt i orden :D

Ellers kan du også kopiere mit ø her og lime det ind når du trænger til... ;þ

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:19

2 identicon

Þetta líst mér á. Kominn ágætis kafli í samdráttabókina sem við ræddum um daginn :)

Dagbjört (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 01:06

3 identicon

Vertu bless!

Bumban lítur afar prófessjónal út á myndinni hér að neðan - unginn verður án efa jafn pró þegar honum þóknast að líta heiminn aríabláum augum (líkindareikningur hér á ferð)

Gangi ykkur vel!

Anna

Anna víóluskrímsl (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 17:35

4 identicon

Hertu upp hugann stelpa. Eftir nokkra daga verður þú farin að spóka þig á gangstéttum Horsens með firehjulstrækker barnavagn á 42' dekkjum að íslenskum sið með sigurbros á vör. Það sem þú þarft að hafa í huga (til að vera eins og stoltu mæðurnar í Köben) er eftirfarandi: Þú og barnavagninn (hvort sem barnið er í honum eða ekki) eruð það eina sem skiptir máli í heiminum þannig að þú skalt alltaf ganga á miðri gangstéttinni og aldrei, ALDREI að víkja fyrir nokkrum manni (Sniðugt að fá sér plóg framan á vagninn í byrjun til að forðast vandræði). Ef einhverjar gamlar kellingar í göngugrind eða annað pakk er eitthvað tregt til að víkja fyrir þér og Vagninum þá skaltu bara þenja brjóst, sperra stél og plægja þig áfram í geng um gangstéttahyskið. Best væri auðvitað að þú mjólkaðir vel þannig að þú gætir gusað smá á stafkallana sem eru of svifaseinir til að víkja. Svo geturðu æpt ,,Skrid, for helvede" til að fullkomna kvenleikann. Góða skemmtun!

orgelstelpa (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband