Afturfæturnir maður

Það þykir alltaf voðalega merkilegt og jákvætt þegar dýr (já og börn) geta gengið á afturfótunum, en hins vegar er alls ekki jákvætt þegar allt gengur á afturfótunum, eins og það gerir einmitt núna hjá okkur í Horsens.  Fyrsta vísbendingin um að ekki sé allt eins og það á að vera er að ég sit núna uppí rúmi á Horsens Vandrerhjem en ekki í Lindeparken 3, hmm...  Sem sagt smá vandræði við að fá húsið afhent, af því að einhverjir blýantanagandi enskir bankadrengir klúðruðu því gjörsamlega í tætlur að koma peningum sem pabbi var að skaffa okkur fyrir útborgun frá London til Danmerkur, væri of löng og fáránleg saga að útskýra hvernig böns af peningum getur týnst í bankakerfinu, ætli það tengist því að skoskar rottur eru alltaf að naga sundur sæstrengi?

Af svona sæmilega skiljanlegum ástæðum þá langar tilvonandi fyrrverandi húseiganda ekki að afhenda vafasömum kaupendum af yfirtöku-þjóðerni húsið án þess að fá einhvern pening, og þess vegna erum við enn húslaus, húsið eitt og yfirgefið, pabbi í London að tala yfir hausamótunum á sedrusviðarætunum, og bankalingarnir að hamast við að afsaka sig og segja pabba og okkur og fasteignasalanum að þetta sé allt að koma, nefin á þeim eru sífellt að lengjast.

Ég sem hafði mestar áhyggjur af því að við fengjum gáminn ekki afhentan á skikkanlegum tíma, búið að segja okkur að það myndi ábyggilega ekkert gerast fyrr en við hefðum samband á þriðjudegi (í gær) út af páskahelginni, en við hringdum samt til Árósa fyrir helgi og þeir sögðu þar að kannski hugsanlega gætum við fengið gáminn í allra fyrsta lagi í hádeginu á miðvikudegi.  Og hringir svo ekki gámakeyrslumaðurinn í mig kl 13 í gær þriðjudag og spyr hvort ég sé ekki ábyggilega til taks að taka á móti gámnum, kolruglað lið.  Ég sat bara á McDonalds á Hovedbane í Köben og átti ekki einu sinni hús undir dótið í gámnum.

Veit semsagt ekki alveg hvað ég er að gera í Horsens.  Hugsanlegt að dæmið gangi upp á morgun fimmtudag og þá hefði ég allavegana föstudaginn t.a. raða dóti áður en ég fer eldsnemma á laugardag.  Til að kóróna allt þá mætir Haukur bró til Horsens í kvöld t.a. hjálpa okkur að koma okkur fyrir, hann fær að kúra á milli okkar á farfuglaheimilinu og vonandi eitthvað tækifæri til að gera gagn!  Æ ég er ekkert mjög kát yfir þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ussussuss. Krossum alla putta hér fyrir að þetta reddist allavega fyrir helgi...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 26.3.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband