Samantekt á fréttaskotum vikunnar

Óíþróttamannsleg hegðun hjólreiðamanna

Nokkur umræða hefur verið um áfengisneyslu á kappleikjum undanfarið og þann neikvæða stimpil sem tengingin við ölvun setur á íþróttir.  Umræðan virðist þó ekki hafa náð eyrum hjólreiðamanna því Akureyrarmeistari kvenna í götuhjólreiðum sást við bjórdrykkju í fullum keppnisskrúða í þjónustumiðstöðinni í Ásbyrgi.  Við sama borð sat óþekk(t)ur hjólreiðamaður (sem ku ekki hafa náð á verðlaunapall á Akureyri) að sumbli.

X-18 lagerinn fundinn

Nokkuð er um liðið síðan X-18 skór hættu að fást á Íslandi, og engin furða því lagernum var rænt í heilu lagi fyrir nokkrum árum.  Þrátt fyrir víðtæka rannsókn var ráðgátan ekki leyst fyrr en nú í vikunni þegar árvökull ferðamaður sá mikið magn af X-18 skóm til sölu í þjónustumiðstöðinni í Ásbyrgi og lagði saman tvo og tvo (og fékk út 18).  Hafði ferðamaðurinn samband við lögreglumanninn á Norðurlandi eystra sem dauðskammaðist sín fyrir að hafa ekki löngu áttað sig á þessu þar sem tengdamamma hans rekur verslunina.  Lögreglumaðurinn bar því við að hann væri tískublindur, en tengdamóðirin hins vegar siðblind.

Óprúttnir hjólreiðamenn tóku bát traustataki

"Þetta pakk ber greinilega enga virðingu fyrir áratugalangri uppbyggingu æskulýðsstarfsins hér" sagði Sleipnir Ásgrímsson í viðtali við blaðamann.  Sleipnir er forstöðumaður uppeldisstöðvarinnar Ástjarnar (einnig nefnt sumarbúðir) en honum brá heldur betur í brún þegar hann frétti að sést hefði til tveggja hjólreiðamanna sem brutust inn á uppeldissvæðið (sem var læst með hjólalásum), leystu landfestar á bátnum Gídeon og réru yfir tjörnina og til baka. 

Íslendingar reyndu að villa á sér heimildir

Tveir Íslendingar voru staðnir að verki við að reyna að villa á sér heimildir nú í vikunni.  Íslendingarnir höfðu greinilega lagt mikla vinnu í undirbúninginn því þeir voru mjög sannfærandi í dulargervi sem erlendir ferðamenn.  Þeir hjóluðu eftir þjóðvegum landsins með þó nokkurn farangur, klæddir í regnföt og regnslár og létu sig hafa það að hjóla um í ausandi rigningu, en eins og allir vita mundi aldrei nokkrum heilvita Íslendingi detta slíkt í hug.  Upp um athæfið komst þegar heyrðist til annars Íslendingsins ávarpa hinn á íslensku ("Réttu mér atgeirinn, Ketill").  Ekki er vitað hvað Íslendingunum gekk til, en þeir mega búast við hárri sekt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Híhí

Dagbjört (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband