Þóra frænka lætur í sér heyra

Mánudaginn 14. maí, 2007 - Aðsent efni

Um hjónavígslu samkynhneigðra

Ég styð heilshugar giftingu samkynhneigðra, segir Þóra Ingvarsdóttir í þessari grein

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Ég styð heilshugar giftingu samkynhneigðra, segir Þóra Ingvarsdóttir í þessari grein: "Það eru engin góð rök gegn hjónavígslu samkynhneigðra, kynhneigð breytir engu um rétt para til fullgilds hjónabands."

ÞAÐ kom allsvakalega í ljós núna nýverið að það eru ýmsir í okkar samfélagi sem eru andvígir giftingu samkynhneigðra. Ef rætt er við þá sem eru á þeirri skoðun eru yfirleitt gefnar nokkrar aðalástæður fyrir því. Orðið "ónáttúrulegt" kemur oft upp einhversstaðar í þessum sálmum, sem og "ókristilegt". Ég vil byrja á að taka fyrir orðið "ónáttúrulegt".

Fólki finnst t.d. "ónáttúrulegt" að samkynhneigðir gifti sig vegna þess að þannig hefur það aldrei verið – það hefur aldrei þótt eðlilegt að fólk af sama kyni gifti sig, og þess vegna hlýtur að vera rétt að banna það í dag. Jæja, kannski. Ég verð þá að fara og skipta um föt, því ég er kvenkyns og er í buxum – og áður fyrr þótti fáránlegt að konur gengu í karlmannsfötum. Það var ónáttúrulegt. Konur eiga auðvitað að vera heima í sínum kvenmannsfötum og sjá um húsverkin, annað er bara ónáttúrulegt. Semsagt, það er ýmis "ónáttúran". Það sem ég á við er að sú staðreynd að eitthvað hafi þótt óeðlilegt áður fyrr þarf ekki endilega að þýða að það sé óeðlilegt í dag. Við lifum í jafnréttisþjóðfélagi (eða reynum a.m.k. að telja okkur trú um það), og það að banna fólki að gifta sig vegna þess eins að það er ekki hrifið af gagnstæðu kyni er u.þ.b. eins gáfulegt og að banna fólki að vinna bara vegna þess að það er ekki með Y-litning.

Nú, síðan gætu einhverjir farið að tala um blessuð börnin. Samkynja pör geta (augljóslega) ekki getið börn saman, og geta þess vegna ekki sinnt því hlutverki hjónabandsins að fjölga mannkyninu. Þar sem fólksfjölgun er heimsvandamál sé ég ekki að þetta ætti að skipta neinu máli – það geta heldur ekki öll gagnkynhneigð pör eignast börn. Er annar aðilinn í sambandinu ófrjór? Á þá að banna þeim að giftast, bara vegna þess að þau geta ekki getið barn saman? Það yrði ekki vinsælt.

En ekki er öll nótt úti fyrir samkynja pör sem langar í börn – það væri hægt að leyfa pörunum að ættleiða. Að mér vitandi hefur þeim börnum sem alin eru upp af samkynhneigðum ekki orðið meint af því; en sumir myndu kannski segja að það væri ekki gott fyrir barnið að alast upp föður- eða móðurlaust. Að sjálfsögðu er þetta allt annað mál þegar barn elst upp hjá einstæðu foreldri, svo lengi sem það er gagnkynhneigt. Það er allt í lagi að barnið alist upp föðurlaust, svo lengi sem það á bara eina móður. Hvort er í rauninni eðlilegra, að eiga tvo feður (eða tvær mæður) eða eitt foreldri sem er bæði faðir og móðir? Er ekki betra að alast upp hjá tveimur foreldrum sem þykir vænt um barnið og hvoru um annað?

Jæja, nóg af ónáttúrunni (þó það væri vitaskuld hægt að tala lengi enn um hana). Snúum okkur að orðinu "ókristilegt".

Það eru alls ekkert allir trúaðir í íslensku samfélagi í dag, langt frá því. Hins vegar breytist alveg ótrúlegasta fólk í guðhrædda sunnudagaskólaengla þegar umræða um giftingu samkynhneigðra kemur upp, og fer að veifa frösum eins og "ekki skv. Biblíunni", "Guði óþóknanlegt", og hinum klassíska "það er ókristilegt". Ég vil byrja á að taka fram að Biblían segir margt um siðsamlegan lifnaðarhátt, og er ágæt bók að því leyti. En ég hef hvergi fundið að í henni standi "þú skalt ekki elska manneskju af sama kyni", eða nokkuð annað sem mætti túlka sem slíkt nema með mestu herkjum og útúrsnúningum. Ég kíkti á kaflana sem eru oftast gefnir sem rök fyrir því að Biblían fordæmi samkynhneigð, og þeir fordæma ýmislegt – djöfladýrkun, heiðnar svallathafnir, nauðganir, og margt fleira sem mér finnst í ágætu lagi að fordæma – en ég sé hvergi að þar standi að ekki megi eiga í ástarsambandi við manneskju af sama kyni.

En gleymum því smástund að fordæmingar Biblíunnar á samkynhneigð eru vægast sagt mjög vel faldar, ef þær eru þá þar á annað borð, og hugsum aðeins um önnur mál sem tengjast Biblíunni og kirkjunni gegnum aldirnar. Lögun jarðarinnar, tilurð og aldur heimsins – þar hafa skoðanir sem betur fer breyst um það hvað talið sé rétt og rangt. Nú er ég ekki að gera lítið úr Biblíunni, það er hin ágætasta bók. En málið er að sumu sem stendur í henni (eða er jafnvel bara túlkað uppúr henni) verður að taka með góðum fyrirvara.

Ég trúi á Guð, og að honum þyki vænt um okkur. Og einmitt þess vegna held ég að hann fordæmi ekki giftingar samkynhneigðra, vegna þess að ef tveim manneskjum þykir vænt hvorri um aðra, og vilja játa það fyrir heiminum og fyrir Guði, þá hugsa ég að það ætti að vera í góðu lagi hans vegna, óháð því hvort manneskjurnar tvær eru karl og kona, eða karl og karl, eða kona og kona. Erum við ekki öll jöfn fyrir Guði skv. kristnu trúnni? Af hverju ætti það þá að angra hann hvers kyns fólkið er?

Ég styð heilshugar giftingu samkynhneigðra. Það er mín skoðun að ef fólk elskar hvort annað á þann hátt ætti það að drífa sig í hnapphelduna, óháð kyni! Það er fáránlegt að leyfa ekki öllu venjulegu, ástríku fólki að staðfesta ást sína á þann hátt sem það sjálft kýs. Hættum þessari vitleysu og leyfum öllum að gifta sig sem það vilja.

Höfundur er framhaldsskólanemi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel mælt!

Þess má geta að ég komst að því um daginn að allir sem ,,hafa rennsli" eru óhreinir. Þar má sérstaklega nefna konur sem eru á blæðingum, þær eru óhreinar og ætti enginn að snerta þær á meðan blæðingum stendur og hvað þá sofa í sama rúmi! Þessi kafli er einstaklega skemmtilegur aflestrar, sem og kaflinn um dýrin sem má og má ekki borða. Höfundur Biblíunnar er algjör húmoristi.

Dagbjört (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 09:50

2 identicon

 22Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

Svo segir í 22. grein 18. kafla 3. Mósebókar. Í sama kafla er varað við nánu sambandi við dýr, skyldmenni og sifjalið.

13Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.

Segir í 13. grein 20. kafla sömu Mósebókar.

Svo skal áhugasömum bent á að lesa bréf Páls postula. 

En það sem stendur í þessari bók er ekki endilega hinn endanlegi mælikvarði á rétt og rangt, en þetta stendur þarna samt.

Skilgreining á náttúrulegu er e.t.v. víð. Þeir eru náttúrulausir sem ekki geta eignast börn. Getan til að fjölga sér er í raun skilgreiningin á hinu náttúrulega. En hvort að fólk geti eignast börn saman á auðvitað ekki að hafa nein áhfrif á lagalega stöðu eða réttindi þó svo að orð sé til yfir ástandið.

Frekari skilgreiningar: Hvað þýðir orðið "hjón"? Þýðir það tveir aðilar sem eru "vígðir" saman eða þýðir það karl og kona sem eru "vígð" saman?

Íslenskan er auðug af orðum og nýyrðum. Hvers vegna að týna merkingu gamalla orða frekar en að innleiða ný sem lýsa ástandinu betur. Við notum þessar sundurgreiningar til að hjálpa okkur í daglegu lífi, dæmi: Þeir, þær og þau. Þrjú orð sem lýsa misjafnri kynjasamsetningu.

Að lokum, þá er það kjánalegt að neyða einhvern söfnuð til að fylgja ekki eigin lögmálum rétt eins og það er kjánalegt að vera með Þjóðkirkju. Aðskiljum ríki og kirkju og þetta hættir að vera vandamál, eða hverjum er ekki sama þó svo að ásatrúasöfnuðrinn eða vísindakirkjan leyfi ekki eitt eða annað? Það sem skiptir máli er að allir séu jafnir gagnvart lögum ríkisins. Lögum guðs breytum við ekki ef hann er til og hefur sjálfur sett þau. Svo trúir (eða trúir ekki) hver fyrir sig.

Haukur (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:05

3 Smámynd: Lára Bryndís Eggertsdóttir

Karl+kona = hjón

Karl+karl = flón

Kona+kona = ljón

mwahahahaha...

Lára Bryndís Eggertsdóttir, 16.5.2007 kl. 23:40

4 identicon

Ég er stoltur af Þóru minni!  Frábært!

Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 21:14

5 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Snilldar grein hjá Þóru........bara frábær

Móðir, kona, sporðdreki:), 17.5.2007 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband