Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Verslunarferðin mikla

Best að byrja á því að tilkynna til að forðast allan misskilning að ég er hvorki lauslát né látlaus. 

En snúum okkur að léttara hjali.  Ég var svo ótrúlega spræk á laugardaginn (tiltölulega samdráttalaus) og enn þá þegar ég vaknaði á sunnudaginn að við Ágúst drifum okkur barasta á kaffihús niðrí bæ! Ekki bara það, heldur tókum við strætó, gat labbað alla leið út á stoppistöð W00t.  Sátum svo á rassinum í sólinni eins og menn gera á dönskum kaffihúsum, átum og Ágúst drakk öl en ég blávatn.  Ég var að vísu með samdrætti frá ahemm einhverju öðru en himnaríki um kvöldið, en hvað um það, ákváðum samt að gera tilraun með verslunarferð næsta dag. 

Í dag tölti ég því aftur út á stoppistöð eins og ekkert væri og tók barnavagnabúðar-express-strætóinn þangað sem Jysk (rúmfatalagerinn), Bilka (einhvers konar risa-Hagkaup), Önskebörn (barnavagnabúðin) o.fl. stórar búðir eru samankomnar.  Við byrjuðum á því að ganga endanlega frá drossíukaupum fyrir afkomandann og velja í leiðinni skiptiborð.  Svo fórum við í rallý í Bilka, Ágúst fékk lánaðan undir mig hjólastól og þá var sko hægt að gefa allt í botn, aðrir viðskiptavinir áttu fótum fjör að launa þar sem við geistumst um gangana, sérstaklega eftir að ég var komin með sturtuhaus með langri veggstöng í fangið og gleymdi alltaf að halda henni uppréttri... 

Stungum svo samviskulaust af með hjólastólinn undir rassinum á mér og tókum rúmfó og verkfærabúðina (sem selur dandalagóða sólbekki) með sama trukki.  Verst að þetta er ómerkilegasta rúmfatalagersbúð allra tíma, t.d. er rúmfó á Akureyri eins og heil verslunarmiðstöð miðað við þessa aumu kompu.  Fundum samt þennan fína brjóstagjafapúða sem kostar ekki 8.000 eins og þeir gera í barnabúðunum heima, magnað hvað hægt er að láta allt kosta mikið þegar það er fyrir elsku litla krúttið...

Mikið stuð í sólbekkja-verkfærabúðinni.  Þar eru vörurnar nebla bara afhentar yfir afgreiðsluborðið eftir vörunúmerum og löööööööng röð! Merkilegt að þetta fyrirkomulag skuli löngu vera aflagt annars staðar?  Fyrst gengur maður um búðina, skoðar varninginn og skrifar niður vörunúmer og stykkjafjölda á þar til gert eyðublað, síðan fer maður í langa röð til að afhenda eyðublaðið og fá í staðinn afgreiðsluseðil, svo þarf að bíða aðra eilífð eftir að númerið manns sé kallað upp og þá fær maður loksins dótið í hendurnar, booooooring!

Strætóferðin heim var samt aðalstuðið, allavegana að komast inn og út úr vagninum með splunkunýja óhreinatauskörfu fulla af góssi, risa þvotta-þurrkgrind, samanbrotinn sólbekk, skiptidýnu, kústskaft... (ég hélt á kústskaftinu, mjög dugleg).

Og ekki dauð úr samdráttum enn þá, vona að ég haldi áfram að vera svona spræk, miklu skemmtilegra að geta aðeins hreyft sig úr stað og komist út! Joyful  Ætla mér líka stóra hluti á morgun, labba niðrá spítala að hitta ljósmóður, það er í húsi sem er tiltölulega langt í burtu á spítalasvæðinu þannig að þetta er lengra en á stoppistöðina, púff.  Væri eiginlega frekar vandræðalegt að þurfa að taka leigara þangað því það er of kjánalega stutt... Blush Húsið mitt stendur nú bara nr. tvö við götuna mína, og innkeyrslan á spítalasvæðið er beint á móti götunni.  Leigubílstjórinn næði varla að setja gjaldmælinn af stað höhö.  Annars er doldið óljóst hvernig ljósmóðurfundurinn gengur, því það er verið að funda um verkfallið núna (já hjúkkur o.fl. í verkfalli síðan man ekki hvenær) og ef það leysist á ég pantaðan tíma kl. 9, annars á ég bara að mæta einhvern tímann yfir daginn og draga númer!  Tek þá bara með mér prjónana og einn Arnald (komin á Vetrarborgina, næstnýjustu, er ekki frá því að ég hafi óljósan grun um hvernig fer enda tiltölulega stutt síðan hún kom út).

Nú ef svo undarlega vill til að einhver óski eftir frekari smáatriðum úr leiðangri þessum þá þýðir ekkert að hringja í mig því heimasíminn tekur ekki við símtölum frá Íslandi.  Og hið dásamlega símafyrirtæki cyber-eitthvað er ekki líklegt til að kippa því í liðinn í hvelli, samskipti Ágústar við það hafa allavegana gengið frekar treglega.  Besti brandarinn er að hann sendi tölvupóst (í apríl) til að segja að síminn væri ekki kominn í gagnið þegar hann átti upphaflega að vera kominn í gagnið (þýddi ekkert að hringja í þá af því að það svaraði aldrei, og þar að auki var Ágúst skiljanlega ekki með neinn síma til að hringja úr (jú gemsann en sagan er betri hinsegin)).  Endaði nú með því að heimasíminn fór að virka, en mööööörgum vikum síðar (bara fyrir nokkrum dögum) fékk hann svar við tölvupóstinum, símamaðurinn skrifaði að hann sæi að Ágúst hefði röflað yfir að síminn virkaði ekki, en hann sæi að það væri komið í lag, bæjó.  Ágúst svaraði og sagði að varla hefðu þeir búist við að hann sæti bara á rassinum sambandslaus og biði vikum saman eftir að eitthvað gerðist, auðvitað hefði hann fundið aðra leið til koma þessum kálhöfðum í skilning um að hann vildi síma sem virkaði og látið kippa því í liðinn.  Já og svarið kom med det samme - sjálfvirkt svar um að þeir hefðu móttekið póstinn, en það væri dálítið langur biðtími þessa dagana... spennandi hvort hann fái "mannlegt" svar fyrir jól?


Hvort er betra að vera lauslát eða látlaus?

Ein af mörgum stórum spurningum í lífinu.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband