Fæðingarorlofssjóður og beiskar sjómannskonur á Hvammstanga

Já loksins er ég í nógu góðu skapi til að skrifa um fæðingarorlofssjóð, enda á ég von á kökusneið rétt bráðum.  Ég er búin að hringja reglulega norður á Hvammstanga þar sem sjóbbi er staðsettur og röfla um að ég ætli að flytja til Danmerkur en samt heimta að fá borgað íslenskt orlof.  Svörin sem ég fæ við þessari hógværu kröfu hafa verið alveg sitt á hvað, stundum er það ekkert mál en stundum útilokað...  Magnaðasta samtalið var nokkurn veginn svona (ýkt og stílfært eftir hentugleikum), LH stendur fyrir Lára Hormónafulla, BSH stendur fyrir beisk sjómannskona á Hvammstanga sem vinnur hjá fæðingarorlofssjóði.

LH: Góðan dag.  Ég ætla að flytja til Danmerkur þegar ég verð búin að ávinna mér fullan rétt á fæðingarorlofi á Íslandi og fæða svo grislinginn þar.  Fá orlofið borgað til Danmerkur takk.  Er það vandamál?

BSH: Ertu galin.  Það er ekkert hægt að búa í útlöndum og fá orlofið borgað þangað.

LH: Ég er nú samt að flytja þangað og maðurinn minn er löngu fluttur og gengur ekki annað en að ég flytji út og fæði barnið þar ef pabbinn á að koma eitthvað nálægt þessu.  Verð nógu lengi grasekkja á klakanum samt.

BSH:  Það er vel á sig leggjandi að búa mánuðum saman í öðru landi en eiginmaðurinn til að tryggja sér rétt á fæðingarorlofi, annað eins hafa nú sjómannskonur þurft að þola (ath. þessi setning er ekki stílfærð og ýkt og fór ekki sérstaklega vel í hormónafullu Láru)

LH: Mér er alveg sama um það, ég vil bara fá skýr svör við hvort það séu einhver vandkvæði á þessu eða ekki.  Sé engin ákvæði um lögheimili á Íslandi í lögum um fæðingarorlof.

BSH: Bíddu augnablik, ég ætla að tala við sérfræðing (þó fyrr hefði verið)

15 bið-mínútum síðar rofnaði sambandið og búið að loka Hvammstangabúllunni, ég engu nær og mjööööög reið.  (Vaaaááá ég fer að þurfa þessa kökusneið til að halda mér góðri).

En góðu fréttirnar eru þær að ég hef haldið áfram að hringja reglulega (og fá alls konar svör) og eftir að ég fór að heimta hlutina skriflega svo þeir væru alveg á hreinu var haft samband við lögfræðing og liggalá, ég má flytja hvert sem ég vil þegar mér sýnist.  Nú þegar er búið að setja mig út af sakramentinu og skipa mér í veikindaleyfi (aumingjaleyfi) þá þarf ég bara að ganga frá sjúkradagpeningum frá TR og orlofi frá blessuðum Hvammstangasjóðnum og þegar á annað borð er byrjað að borga mér er ekki hægt að taka réttinn af mér og hananú.

Reyndar lítur ekki eins vel út með Ágúst, vissulega allt í góðu ef afkomandanum þóknast að fæðast á réttum tíma!  Nefnilega þannig að faðirinn þarf að hafa unnið í Danmörku 13 vikur fyrir fæðingu barns til að eiga rétt á þarlendu orlofi (verður löngu búinn að missa rétt á íslensku orlofi) og þessar 13 vikur eru búnar einmitt 1. júlí þegar krakkinn á að skjótast út! Ég geri mér reyndar óljósar vonir um að ég sé að misskilja og það sé nóg að hann skili ákveðið mörgum vinnustundum innan 13 vikna fyrir fæðingu, en megi t.d. alveg hafa unnið þær á síðustu t.d. 12 vikunum...  Er einhver búinn að missa þráðinn? (eða áhugann...)  Verst að vinnuvikan er svo stutt hjá Danskinum.

Hætt að röfla bæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

halda í sér bara, klem sammen, du, lukket & slukket :D

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.4.2008 kl. 23:36

2 identicon

Ég vona að þú eigir góða köku á lager eða e-ð eðal súkkulaði. Danir sveigja ekki út fyrir regluverkið sitt. Reglur eru reglur og reglur eru góóóðar. Nú er bara að taka því rólega og halda í sér.

Jóhanna Dagbjartarsystir (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 08:15

3 identicon

Þú stendur þig vel, og farðu líka vel með þig.

gf (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 17:14

4 identicon

ég hef líka heyrt að ágætisfólk sé fætt þann 7.júlí.. svo það gæti allt farið á besta veg - 13 vikur liðnar OG dagsetningin ;)

Lovísa (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband