Kynlegar kynjapælingar - 20 vikna sónar í dag!

Þegar almenningur fór að átta sig á annarleg ástandi mínu komu gjarnan sömu tvær spurningarnar:  "Hvenær ertu sett?" og "Ætliði að fá að vita?".  Það var auðvelt að svara fyrri spurningunni (1. júlí) en ég hafði bara ekkert spáð sérstaklega í hitt.  En nú er ég orðin svo sjóuð að ég búin að komast að því að það eru aldeilis endalaust sterkar skoðanir í gangi í sambandi við "að kíkja í pakkann", jiii.. hvað ég get orðið þreytt á annarra manna skoðunum stundum, þess vegna held ég úti bloggsíðu þar sem ég get nokkurn veginn einhliða básúnað mínar skoðanir og ef þið komið með athugasemdir sem ég kaupi ekki get ég alltaf eytt þeim mwahahaha Tounge

Allavegana, meðal pakkaopnunarmótraka (þetta er nýyrði á finnsku) er

  • það er svindl
  • það verður að vera eitthvað spennandi við þetta
  • man ekki meir

En þar sem þetta er nú okkar eigið barn sem við pökkuðum sjálf inn hefði ég nú haldið að við megum kíkja þegar okkur sýnist!  Og nógu spennandi finnst mér að eiga barn, þetta er ekkert sérstaklega hversdagslegt hjá okkur.  Svo er líka hæpið að Ágúst komist hjá því að sjá hvaða tegund þetta er þegar hann horfir á skjáinn, hann er nú alveg sæmilega vanur að lesa úr sónarmyndum!  Verst ef kemur í ljós að þetta sé bara Dani...

En svo er hér mikilvæg persónuleg reynslusaga.  Lára (28) segir frá:  Ég er ekkert sérstaklega vön að sjá ferlið "ólétta-barn" "ólétta-barn" eiga sér stað, og þegar Elín stórasys varð ólétt fyrst þá var þetta raunverulega fyrsta óléttan tiltölulega nálægt mér.  Mér fannst þetta náttúrulega stórfurðulegt, óléttan nógu furðuleg ein sér og líka skemmtilega ólíklegt að hafa Elínu ólétta.  Svo spratt bara á henni bumba þarna í útlandinu, allt í lagi með það, en ég tengdi það ekkert sérstaklega við að það kæmi barn út úr þessu (sbr. ferlið "ólétta-barn").  En svo kom vendipunktur (daddaramm), Elín fór í sónar og tilkynnti að það væri lítið stelpuskinn í maganum.  Þá helltist alvara lífsins yfir mig og ég áttaði mig á því að það væri alvöru-barn í belgnum! Ekki bara einhvers konar óljóst "tilvonandi-barn" fyrirbæri, heldur alvöru stelpa. Já svona er ég einföld sál, hafði ekki verið búin að fatta að þetta væri alvöru... Shocking

Mér finnst barnið í maganum á mér ekki heldur neitt sérstaklega raunverulegt, og það þó það sé farið að dangla í mig daginn út og inn (aðallega í þvagblöðruna) og ég hafi lesið alla mína fósturfræði og viti nákvæmlega hvað er að gerast.  Þess vegna bíð ég spennt eftir að fá vitrun í dag kl. 13 þegar botninn á barninu verður skoðaður, þá kemur í ljós að þetta sé ekki bara einhver óljós tegund af verðandi barni heldur verður þetta annaðhvort alvöru-stelpa eða alvöru-strákur.  Það er auðvitað nokk sama hvort það er, foreldrarnir elska það alveg jafn mikið og allt það, ég vil bara komast að því að það sé annaðhvort!

Svo er tengdamamma líka farin að brýna prjónana hressilega og þarf að fara að spyrna í með bleikt eða blátt...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

oh, það er líka hægt að notast við gult og grænt í falleg prjónaföt, nú eða lilla, fjólu eithvað.

Hallveig Guðný Kolsöe (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband