Fæðingin etc.

Það er kominn tími á að segja nánar frá komu nýjasta fjölskyldumeðlimsins (búið að vera mikið að gera undanfarið, t.d. málningarvinna...)

Fæðingin gekk prýðilega. Að kvöldi 4. október fór mig að gruna að eitthvað væri loksins að gerast og tautaði eitthvað um það við Ágúst að sennilega fengi hann ekki að fara í vinnuna daginn eftir. Seinni part nætur var ég að dóla mér frammi í tölvunni þangað til ég heyrði í Ágústi gera sig kláran til að fara í vinnuna (trúði mér greinilega ekki) og þurfti aðeins að hafa fyrir því að sannfæra hann um að fara ekki baun. Sannfæringin fór þannig fram að ég fékk ágætis samdrátt og kreisti hann á meðan. Þá sagðist hann ekki hafa neitt á móti því að fara aftur að sofa...

Ágúst fór síðan með Ágúst Ísleif til dagmömmunnar og síðan var heldur tíðindalaust fram eftir degi. Ágúst sótti stráksa og síðan kom barnapía og fór með hann út að leika til kl. 6, þá kom Ingunn (norska vinkonan, nágranni okkar og mamma Antons vinar Ágústar Ísleifs) og sótti hann og ætlaði að passa hann eins lengi og þyrfti. Við Ágúst röltum okkur niður á spítala (ein góð hríð á leiðinni) og ég reyndist vera komin með 6 í útvíkkun. Ég lagðist í bleyti í baðkar og svamlaði þar þangað til stelpuna var farið að langa reglulega mikið að komast út. Prílaði þá upp úr, vatnið fór með HVELLI og skaust út á gólf, það glitti í rauðan lubba og stelpan skaust út 11 mínútum síðar. Hún mældist 51 cm og 3.550 g (rúmar 14 merkur), 660 grömmum þyngri og sentimetra lengri en stóri bróðir var á sínum tíma.

Þar sem allt hafði gengið vel máttum við velja hvort við gistum á spítalanum eða færum heim þegar við værum búin að jafna okkur. Við vorum á báðum áttum hvort við ættum að taka lyftuna niður á næstu hæð eða alla leið niður í anddyri og labba yfir götuna, en ákváðum svo bara að skella okkur heim. Ágúst trillaði okkur mæðgum bara í hjólastól og síðan kúrðum við með litlu dýrðina.

Ég vaknaði eldsnemma og gat ómögulega sofið fyrir hungri, gerði svo mest lítið fyrri part dags nema BORÐA!!! Hekla var sallaróleg og sátt við að vera komin í heiminn, en pabbinn var reyndar kominn með leiðindaflensu og hita. Ingunn hafði farið með Ágúst Ísleif til dagmömmunnar um morguninn en Ágúst sótti hann svo og hann heilsaði upp á litlu systur sína. Hann kíkti í vögguna og spurði á dönsku "a-di?" ("hvad er det?") og fór svo að púsla.

Hér er Hekla Sigríður þriggja daga gömul með búttaðar kinnar að máta dúnpokann sinn (í galla af stóra bróður):

8.-28. okt 003 (Large)

Hér æfir hún súmóglímu-svipinn:

8.-28. okt 009 (Large)

...og mátar vaskinn í skyndi-fyrsta-baði vegna góðra afkasta í bleiuverkunum...

8.-28. okt 018 (Large)    

8.-28. okt 023 (Large)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndislegar myndir, hvílík dásemd !! (Abát tæm dér !!)

Sigga Pé (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband