Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
8.7.2008 | 08:23
Mjólkurlaust líf
Það eru tveir mjólkursvelgir á heimilinu. Sá yngri fær sína mjólk í lítravís þegar honum þóknast, en sá eldri er kominn í straff. Ágúst Ísleifur hefur verið að fá svolítið illt í magann, og þá er oft fyrsta skrefið að banna móðurinni að drekka mjólk til að athuga hvort það bæti ástandið. Móðirin er miður sín, ég er vön að moka í mig mjólkurafurðum allan daginn og nú veit ég ekkert hvað ég á að borða, ísskápurinn er t.d. fullur af alls konar æðislegum ostum (a.m.k. 7 tegundir) og jógúrt og ég stari bara inn í hann og má ekkert borða. Jú ávexti og grænmeti auðvitað, brauð (en með hverju? Verð að senda Ágúst í búðina að kaupa álegg). Þarf bara aðeins að brúka hugmyndaflugið og þá fæ ég nóg í magann minn svo Ágúst yngsti fái ekki í magann sinn, vona allavegana að þetta virki því það er svo agalegt þegar drengurinn grætur og er alveg óhuggandi, en það er samt sem betur fer ekki oft.
Við þurftum reyndar með stráksa til læknis í gær út af allt öðru, ég sá í gærmorgun að hann var komin með sýkingu við og undir nöglina á einum fingri og læknirinn stakk á því og kreisti út, liggur við að ég segi að sem betur fer var Ágúst Ísleifur hvorteðer organdi út af maganum því þetta var pottþétt sárt... Síðan þarf að hafa fingurinn í heitu sápuvatni í 15 mínútur 3x á dag, við látum piltinn bara setjast í stól og segjum honum að hafa höndina kyrra í vatninu mwahahaha
Svo á Ágúst Ísleifur stórafmæli í dag! Tveggja vikna gutti, bæði ótrúlega stutt síðan hann fæddist og líka ótrúlegt að við höfum ekki alltaf "átt" hann. Og bara rúm vika þangað til við komum með litla böggulinn heim til Íslands
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2008 | 08:43
Eins gott að Þýskaland vann ekki HM
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2008 | 11:59
Aðalheimilistækið
Ultrasoft breast shields frá Avent, aðeins annar stíll en hjá amazónunum í gamla daga samt. Taka við flóðinu hinum megin meðan Ágúst Ísleifur þambar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.7.2008 | 17:20
Lýst er eftir gefanda...
...að þessari fallegu sængurgjöf:
Teppi þetta barst innpakkað í grænt glans-búbblu-umslag stílað á Ágúst Inga Ágústsson (er þetta kannski ekki sængurgjöf heldur sjal handa Ágústi?) og poka með héramyndum. Engar vísbendingar um sendanda aðrar en að umslagið er stimplað á Íslandi. Hugsanleg vitni vinsamlega gefi sig fram hið fyrsta.
Annars er það að frétta af fjölskyldunni að við erum á fullu að læra hvert á annað. Brjóstagjöfin er í fínum málum, móðirin er farin að átta sig á hvenær guttinn þarf að ropa og fá nýja bleiu etc, en reyndar fer allt í vitleysu stundum þegar Ágúst Ísleifur fær illt í magann, þá eru foreldrarnir frekar ráðalausir.
Stráksi prófaði að fara í bað heima hjá sér við álíka takmarkaðar vinsældir og á spítalanum:
Barn í bala, bali í vask og sést glitta í nýja fína skiptiborðið í horninu.
Hins vegar er gott að fá sér lúr á eftir með bros á vör.
Og augu sem bræða hjörtu.
En pabbanum fannst reyndar að móðirin hefði keypt full stelpu-smábarnalegar samfellur á drenginn (blúnduverk í hálsmáli og á ermum úff) svo hann skaust í búðina og keypti nokkrar gæjasamfellur, síðan slappa þeir feðgar af saman í strákafötunum sínum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.7.2008 | 12:27
Að heita biskupanafni og gera í buxurnar
Ágúst Ísleifur drekkur og drekkur og það skilar sér út um hinn endann þrátt fyrir virðulegt nafn. Ágústarnafnið hefur hann frá langafa sínum, afa og föður, mætti því kalla hann Ágúst IV. Ísleifsnafnið er hins vegar út í loftið, við vildum gott seinna nafn til að gera nafnaköllin auðveldari á heimilinu! Einhvern veginn vildi svo til að Ísleifur var fyrsta nafnið sem mér datt í hug fyrir mörgum mánuðum, hafði samt aldrei rætt það við Ágúst, en þegar við fórum í gegnum lista með íslenskum mannanöfnum kom í ljós að Ágústi leist best á Ísleif. Það var því augljóst hvað drengurinn átti að heita!
En nánar um nöfnin:
Ágúst:
Einn karlmaður í Þing. bar nafnið í manntali 1801 og annar í Snæf. hét August. Í manntali frá 1910 voru 442 karlar skráðir með þessu nafni og í þjóðskrá 1989 voru þeir 1257, þar af 447 sem hétu svo að síðara nafni. Ritmyndirnar August og Ágústus eru líka notaðar. Nafnið er þekkt í Svíþjóð frá miðri 17. öld og var nokkuð notað í Noregi um síðustu aldamót. Fræg sögupersóna hjá Knut Hamsun ber nafnið August. Nafnið Augustus var tekið upp á Englandi á 18. öld ásamt kvenmannsnafninu Augusta.
Nafnið er stytting úr latínu augustus "mikill, stórfenglegur", (af augere "aukast") en það orð var tekið upp sem titill rómverskra keisara. Heiti ágústmánaðar á sér sama uppruna.Ísleifur:
Nafnið kemur fyrir í Landnámu, Sturlungu og í fornbréfum frá 15. öld. Fyrsti íslenski biskupinn sem vígður var til Skálholts árið 1056 hét Ísleifur Gissurarson. Nafnið kemur fyrir í nafnatali séra Odds á Reynivöllum frá 1646. Í manntali 1703 báru það 42 karlar en 37 árið 1801. Árið 1910 voru nafnberar 49, þar af 17 í Rang. Í þjóðskrá 1989 voru 82 karlar skráðir með þessu nafni, þar af 16 að síðara nafni af tveimur.
Nafnið er sett saman af forliðnum Ís- og viðliðnum -leifur, Leifur.
Viðliðurinn -leifur er algengur í karlmannsnöfnum, t.d. Hjörleifur, Guðleifur, Þorleifur. Hann er kominn úr frumnorrænu *-laibaR og er skyldur nafnorðinu leif "arfur, eitthvað sem skilið er eftir" og sögninni leifa "skilja eftir". Hann er einnig tengdur sögninni að lifa og nafnorðinu líf. Nafnið Leifur merkir eiginlega "afkomandi, erfingi".
P.S. við erum búin að bóka flug heim og verðum á Íslandi 17. júlí til 4. ágúst , hlökkum til að hitta ykkur sem flest. Notum að sjálfsögðu tækifærið og skírum litla biskupinn en dagsetningin ekki komin á hreint.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)