Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
22.7.2008 | 19:06
Púff
Já við mætt, og tíminn líður hratt!
Ferðalagið gekk eins og í sögu, minnsta Ágústinum var vippað í burðarsjalið heima í Lindeparken, við löbbuðum organdi á strætóstöðina en síðan hraut stráksi af sér þriggja tíma lestarferð. Vaknaði rétt fyrir Kastrup og heimtaði sína athygli þar, fékk mörg jidúddamía-hvað-hann-er-lítill-og-sætur-augnaráð en róaðist svo aftur áður en við flugum af stað og var eins og engill alla leið í Hlíðarhjallann þar sem við gistum hjá ömmunni fram á mánudag.
Ættingjar og vinir hafa kíkt á Ágúst Ísleif og vottað það að hann sé fínn, en það er líka komið í ljós að hann er lítill. Vala frænka (7 mánaða) er t.d. eins tröllskessa í samanburðinum, óskírð 8 dögum eldri Sigrúnar- og Heimisdóttir er hálffullorðin feitabolla, 6 vikum eldri Úlfar Jökull Auðar- og Eyfasonur er að fara að fermast bráðum sýndist mér, Þorbjörg Þula Sibbu- og Bjartsdóttir nálgast 1 árs afmælið og getur barasta valtað yfir stráksa. En Ágúst Ísleifur gefur þeim samt langt nef, stækkar kannski bráðum.
Við erum mætt í Barmahlíðina, sendum Elínu&Adrian&Selmu&Völu á Austfirðina svo við gætum verið í friði, allir velkomnir í heimsókn. Altså Barmahlíð 54, Haukur og Lára á bjöllunni en hún er ótengd.
Engar gamansögur núna, barnið grætur, bæjó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008 | 11:08
Nu kommer vi!!
Já allt að gerast, lestin fer 17.25 frá Horsens, fljúgum með Icelandair kl. 22.30 (en ekki Iceland slowpress) og lendum 23.40 úff púff. Öll ættin hefur logað af slagsmálum um hver fái að sækja okkur , veit ekki hver vann en ætli komi ekki bara heil rúta...
Gistum fyrst hjá mömmu því Barmahlíðin verður undirlögð af afmælispartýi Elínar á föstudagskvöldið (og þynnku á laugardaginn??), skiptum svo yfir og sendum reyndar Elínu&Adrian&Selmu&Völu á Vestfirðina svo við verðum ein í íbúðinni.
Þá er bara að panta heimsóknartíma!!
Svo má þess til gamans geta að Ágúst Ísleifur sem er rúmlega þriggja vikna gamall gæti samt verið nýfæddur, mér finnst það stórfurðuleg tilhugsun. Ég var gengin 42 vikur á þriðjudaginn og hefði þá verið sett af stað ef ekkert hefði gerst af sjálfsdáðum, en drengurinn var nú ekkert að láta bíða svo lengi eftir sér. Mætti reyndar samt halda stundum að hann væri ekki alveg búinn að aðlagast lífi i det frie þegar hann liggur í hnipri með hendur og fætur í klessu litli kúturinn...
En nú er málið að klára að pakka, sjáumst!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2008 | 20:43
Eins gott að ég bakaði tvær kökur
Ekki af því að hafi komið svona margir í afmælið í gær heldur af því að það er líka afmæli í dag, við eigum nefnilega hugsihugsihugs þriggja ára brúðkaupsafmæli held ég í dag. Hljóta allavegana að vera nokkuð mörg ár úr því að ég man það ekki. Erum nú ekki vön að halda neitt sérstaklega hátíðlega upp á brúðkaupsafmælið, eins árs afmælinu var fagnað með því að sofa eins og grjót á hóteli á Heathrow eftir seinkanir og rugl á flugferðum frá Kathmandu gegnum Oman. Í fyrra rétt svo hittumst við, Ágúst að koma frá útlöndum minnir mig og ég rauk að morgni afmælisdags í fyrstu ferðina mína með Þjóðverjana blessaða yfir Arnarvatnsheiði. En í dag fengum við a.m.k. köku, hún er að verða búin, það þýðir 1/2 kaka á mann.
En að allt öðru, það var enginn búinn að vara mig við því að "ég" hætti að vera til þegar barn kæmi til sögunnar. Í öllum samtölum við Ágúst Ísleif nota ég annað hvort 2. persónu eintölu (Mamma) eða 1. persónu fleirtölu (við). Dæmigert samtal:
Barn: Vaaaaaa.....
Móðir: Æjæjæj erum við búin að gera í brækurnar, á Mamma að skipta á þér?
Barn: Vaaaaaa....
Móðir: Nú skulum við koma á skiptiborðið, komdu til Mömmu
Barn: Vaaaaaa....
Ágúst Ísleifur er ekki farinn að gera greinarmun á persónum og tölum enn þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2008 | 14:31
Afmælisdrengirnir
Báðir Ágústarnir eiga afmæli í dag, sá eldri er 34 ára en hinn þriggja vikna. Þeir ætla að halda saman upp á tímamótin og ég er búin að henda súkkulaðiköku í ofninn, en það kemur samt enginn í afmælið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.7.2008 | 19:00
Bleiuþvotturinn
Hér eru nokkrar af bleiunum hans Ágústar Ísleifs á snúrunni. Merkilegt nokk þá kann Ágúst eldri lag um bleiurnar (Imse vimse) og það á sænsku, er ekki allt í lagi????
Imse vimse spindel
klättra' upp för trå'n.
Ner faller regnet
spolar spindeln bort.
Upp stiger solen,
torkar bort allt regn.
imse vimse spindel
klättra' upp igen!
(sungið við stef úr Pomp&circumstance eftir Elgar)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2008 | 18:37
Haukur seigur!
Haukur bróðir gerði sér lítið fyrir og hljóp Laugaveginn á 7:18:02!!!!! Reyndar er haugalygi að hann hafi gert sér lítið fyrir, hann segist aldrei hafa misboðið líkama sínum jafn hrottalega...
En nú stefnum við bæði á Glerárdalshringinn næsta sumar, ætli mér takist að ná af mér barnaspikinu og hrista Hauk af mér upp 24 tinda?? Mér er reyndar strax farið að fara fram á hjólinu, tók t.d. fram úr einum gömlum manni í gær.
Er mikið að skoða hjólavagna á netinu svo Ágúst Ísleifur komist sem fyrst í skemmtiferðir með móður sinni, hann hefði haft gaman af að sjá dádýrið og fasanann sem ég sá í skóginum áðan (ef hann væri talsvert eldri og hefði vit á að hafa gaman að einhverju).
Annars fer uppeldishlutverki okkar foreldrana fljótlega að ljúka, við erum nefnilega búin að taka fram leikteppið sem við gáfum upphaflega Hlöðveri frænda en hann var fús til að lána litla frænda sínum. Leikteppið er þeim undrum búið að innihalda "17 developmental activities" svo drengurinn þarf varla neitt meira. Jú við skiptum á honum og fóðrum hann.
Ágúst Ísleifur þyrfti reyndar kannski að vera vakandi til að öll þessi developmental activities virki almennilega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2008 | 17:11
Stiklað á stóru
- Þriggja kílóa múrinn rofinn - Ágúst Ísleifur mældist 3100 g í heimsókn sundhedsplejerskunnar
- Pilturinn fór á kaffihús með mömmu sinni og fékk sér mjólk
- Fyrstu orgeltónleikar sonarins utan bumbu - Katrin Meriloo í Vor Frelsers Kirke (hún lærði í Piteå, er dandalagóð og svolítið fræg, en það vita víst engir nema Eyþór og Sigrún)
- Ljónið fékk snuð með mynd af ljóni, þá verður vísifingurinn kannski ekki soginn af pabbanum
- Íslensk síld er betri en norsk
- Ég fór í barnabúðina og keypti minnstu húfuna sem var til, hún nær þá ekki niður á olnboga á barninu eins og aðrar húfur sem hann á
- Við erum búin að panta parketið á svefnherbergis- og fata-/gestaherbergisgólfið
- Rassinn á mér er EKKI búinn að venjast hjólahnakknum aftur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.7.2008 | 10:35
Algjörlega slakur
En spurt er: Af hverju eru engar myndir af drengnum í mömmufangi?
Svar: Gott veður og brjóstagjöf veldur því að móðirin er ekki alltaf nógu siðsamlega klædd, þarf að skella í eina uppstillta mynd í fötum fljótlega...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.7.2008 | 07:21
Nú má danskurinn vara sig!
Ég er byrjuð að reykspóla á hjólinu um Horsens! Þvílíkur unaður, var búin að sakna hjólanna minna agalega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)