Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Páskablogg

Það hljómar soldið lónlí að sitja ein við tölvuna á páskadag en ég hef það aldeilis fínt (vááá... ein í afneitun), eftir að hafa mætt í páskamorgunverð í Hallgrími, sungið eina messu, tekið með heim afgang af heitu súkkulaði, hlustað á h moll messuna og saumað út þá sofnaði Ágúst (aldrei þessu vant) svo ég fór fram í eldhús og rakst á tölvugreyið.  Þá rifjaðist upp fyrir mér að það átti að taka blaðaviðtal við mig fyrir löngu út af Leiðsöguskólanum, það fór þannig fram að blaðakall mætti og tók myndir og sagði svo "ég sendi ykkur síðan tölvupóst með nokkrum spurningum".  Auðvitað er ég heillengi að svara nokkrum spurningum, miklu lengur en ef hann hefði bara spurt á staðnum, fyrir utan að það tekur mig tvær vikur að druslast til að gera það!  En auðvitað verður viðtalið miklu gáfulegra fyrir vikið.  Það hefur verið haft eftir mér svo mikið bull í blöðunum gegnum árin (ég er svo mikið seleb), það besta er þegar kom fram að ég ætti eitt skópar úr hverri skóbúð bæjarins en ég hafði svarað spurningunni "áttu einhverja uppáhalds skóbúð?" með "neeeeeiii, ég á yfirleitt bara eitt par úr hverri".

Síðan líður að því að ég taki fram rauðu garðvinnuvettlingana sem Ágúst gaf mér í afmælisgjöf.  Ég fór nefnilega í bíltúr með Mömmu og Hauki bró í gær til Helgu systur mömmu á Flúðum og fékk hjá henni fullt af sólberjarunnagræðlingum.  Ég þarf svo að klippa þá til og stinga í potta og koma þeim til.  Síðan verður hafin brjáluð ræktun á sumarbústaðalandinu.  Ætli fari þá fyrir fuglunum eins og hjá þröstunum við sumarbústað Jónsa og Ólu fyrir norðan á haustin, þá eru berin farin að gerjast, þrestir hakka þau í sig, verða rorrandi fullir og brotlenda hægri vinstri á þakinu, dúnk (rúllirúllirúll), dúnk (rúllirúllirúll)

solber-020801-2


Velvakandi Moggans - ælovit

Góðan dag.

NÚ GENGUR senn í garð helgasti árstími okkar kristinna manna. Það er ljóður á ráði að það virðist vera sem helgistundum fylgi mikil óráðsía. Á jólunum liggja börnin organdi og heimta sífellt stærri pakka, í stað þess að minnast fæðingar Krists. Á páskunum liggja börnin organdi í sykursjokki eftir að hafa graðgað í sig súkkulaði í lítravís. Ég þoli ekki börn. Sjálf átti ég erfiða æsku og hagaði mér aldrei eins og barn. Ég var ekki alin upp við stanslaust gjafaflóð, heldur var ég látin vinna fyrir mat mínum og var reglulega hýdd. Þess ber ég enn merki. Þá var ég ekki ánægð með þessa meðferð, en í dag sé ég að hún var mér fyrir bestu. Ef ekki hefði verið fyrir umræddar barsmíðar lægi ég liggjandi í gólfinu organdi á meiri sykur og gjafir. Þess í stað er ég þakklát fyrir það sem ég hef og ætla ekki að borða súkkulaði á páskunum. Þó má vera að ég fái mér epli. Og svo eru það fermingarnar. Þegar ég var yngri þótti það munaður að fá á annað borð að vera fermdur. Nú telst enginn maður með mönnum nema hann fái fermingarveislu fyrir mörg hundruð þúsund og helst gjafir, einkum tölvuspil og sælgæti! Þetta ætti ekki að heita ferming lengur. Þetta ætti að heita Óráðsía.

Það er að vísu líka nafn á landi en fermingar gætu einnig kallast það.

Fermingarbörn mæta jafnvel í veislurnar á gulum limósíum sem hæfa klámkóngum. Ég vil því skora á þegna þessa lands að koma með okkur félögum í Femínistafélagi Íslands og mótmæla óráðsíunni (fermingunni, jólum og páskum) fyrir utan Hallgrímskirkju á Pálmasunnudag. Hættum að vera gráðug, fáum okkur eins og einn ávöxt til hátíðabrigða en lifum annars meinlætalífi! Að lokum vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir dálkinn Orð dagsins. Þar er oft að finna þarfan boðskap á þessum síðustu og verstu tímum. Knaparnir fjórir nálgast óðum.

Guðrún Jónsdóttir.


Óbilandi trú móður minnar á barninu sínu

Ég átti eftirfarandi samtal við mömmu eftir hádegi:

L: Gettu hvað ég hjólaði langt í dag.

M: 30 km?

L: nei

M: 40 km?

L: nei

M: 50 km?

L: nei

M: 60 km?

L: nauhauts, það er nú bara eins og ég hjólaði í gærkvöldi 

M: 70 km?

L: nei

M: 80 km?

L: nei

M: 90 km?

L: nei

M (orðin ansi vantrúuð): 100 km!?!?

L: nei

M: aaa... 20 km!!!!?

L (mjög móðguð): Nei! 110 km!!!!!!!


Eva! ...eða eitthvað

Ég fór til læknis í dag.  Sat á biðstofunni, svo kom læknirinn fram, horfði í kringum sig, endaði með augnaráðið á mér og galaði "Eva!".  Ég sýndi takmörkuð viðbrögð svo hann bætti við "eða eitthvað".  Þá glotti ég nú og sagðist heita Lára. "Jú, það gæti passað - eða hvað sýnist þér?" sagði hann og rétti mér mjög slæmt ljósrit af mjög slæmri handskrift þar sem stóð hvað næsti sjúklingur átti að heita!

Ég fór líka einu sinni til læknis í Svíþjóð.  Eyþór orgeldrengur (sem ég bjó hjá) hringdi á heilsugæsluna fyrir mig og pantaði tíma.  Hann var heillengi að tyggja nafnið mitt ofan í símadömuna með þeim árangri að þegar ég mætti var ég skráð sem Igpfersdottir.  Ég hét líka Eggjartsdóttir í sálmaskránni í jarðaför nýlega.  Er nafnið mitt svona erfitt?

Talandi um nöfn, það var fjallað um Hollywood-stjörnu-barnanöfn í mogganum um daginn:  "Leikarinn Nicolas Cage á soninn Kal-el en það er einmitt skírnarnafn Súpermanns sjálfs. Erykah Badu og Andre Benjamin úr Out Cast eiga saman soninn Seven Sirius en fyrir á Badu dótturina Puma. Sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver á dæturnar Poppy Honey og Daisy Boo og tvö af fimm börnum Sylvester Stallone heita Sage Moonblood og Seargeoh. Þá á Frank heitinn Zappa dæturnar Moon Unit og Diva Muffin.  Vinninginn eiga þó trúlega þau Bob Geldof og Paula heitin Yates sem skírðu dætur sínar þrjár Fifi Trixibelle, Peaches Honeyblossom og Little Pixie. Þess má geta að Yates átti fyrir dótturina Heavenly Hiraani Tiger Lily með Michael Hutchence."

Mannanafnanefnd ætti kannski að opna útibú í Hollywood.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband