Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Fjör í Markarfljóti og fyrsta gaffalstungan

"Þverun straumvatna" var á dagskrá í skólanum á laugardaginn.  Ég hef reyndar hingað til kallað þetta bara að vaða ár, en ætli ég verði ekki bara að þvera straumvötn héðan í frá.  Við fórum og djöfluðumst í Markarfljóti heilan dag og skemmtum okkur hið besta!

Hér eru rassarnir okkar í þurrbúningsbuxunumÞverun straumvatna 28.4.07 007

Fyrst vorum við bara að dúlla okkur yfir meinlausar kvíslar en færðum okkur svo upp á skaftið.  Við áttum nefnilega bæði að komast að því hvað við gætumÞverun straumvatna 28.4.07 008

og hvað við gætum alls ekki               Þverun straumvatna 28.4.07 023

En svo fór ég líka austur í Fljótshlíð á sunnudaginn með Ágústi og tengdapabba og við mældum fyrir skúrnum góða sem á að byggja í sumar Sumó gróðursetning 29.4.07 002

og ég tók "fyrstu gaffalstunguna" að kálgarði.  Hann er reyndar frekar skondinn, u.þ.b. 80 cm í þvermál og inniheldur ca. 20 radísur og 10 kartöflur.  En mjór er mikils vísir...  Sumó gróðursetning 29.4.07 008


Mér eru allir vegir færir

Úr árbók Ferðafélagsins 1962 um Arnarvatnsheiði og nágrenni:

"Það er 20 mínútna skikkanlegur gangur upp skriðuna að Eiríksgnípu og hægt að ganga allt í kringum hana, jafnvel fyrir kvenfólk."

Það er hins vegar spurning hvernig mér gengur með Surtshelli:

"Þar er erfitt að komast niður, en þó fært liprum karlmönnum."

En ég get þó allavegana þvælst um heiðarnar mér til heilsubótar:

"Ef til vill má telja til nytja af heiðunum, að þar una menn vel, og þangað er gott að fara í fríum, og hygg ég, að það sé gott við taugaveiklun og kaupstaðaþreytu."


Lára Nóbelsverðlaunahafi

Mig dreymdi að ég hafði fengið Nóbelsverðlaun.  Í bókmenntum af öllum greinum.  Það var soldið síðan þetta hafði gerst og hafði ekki hlotið neina athygli og í draumnum var ég loksins að átta mig á því að þetta væri nú nokkuð merkilegt og var steinhissa að það sem ég hefði skrifað væri metið til jafns við verk Halldórs Laxness.  Sérstaklega þar sem ég mundi nú ekki eftir að hafa skrifað neitt.  En mér flaug í hug að setja inn á bloggið mitt að ég hefði fengið þessi fínu verðlaun, svo að fólk myndi nú vita af því.  Svo var ég líka komin með svona nóbels-skírteini í veskið og datt í hug að það gæti hjálpað mér að komast yfir landamærin inn í Egyptaland (ekki það að ég viti hvað ég ætlaði að gera þar).

Draumaráðning:  Mig dreymir um að verða rithöfundur með aðsetur í Egyptalandi og þrái viðurkenningu fyrir ritstörf.

Aðrar tillögur?


Lára leiðsögumaður dettur í djúpu laugina!

Fyrsta leiðsögumannsstarfið frágengið! Verð á röltinu með Þjóðverja uppi á Arnarvatnsheiði í sumar, þrjár 11 daga ferðir takk fyrir.  http://www.geysir.com/Brekkulaekur/wandern/index.php Má segja að þetta sé djúpa laug dauðans til að byrja í, hafði kannski séð fyrir mér nokkrar helgarferðir svona fyrsta sumarið meðan ég væri að komast inn í þetta (og helst á ensku...) en þetta verður bara stuð.  Kem svo heim í 3 daga pásur á milli og spila messur í Hallgrími.  Stóri gallinn er að ég sé fram á að missa af öllum hjólakeppnum fyrri hluta sumars en næ Íslandsmeistaramótum o.fl. í ágúst.  Reyndar eru svo fáir bókaðir í fyrstu ferðina enn sem komið er að hún gæti fallið niður og þá kem ég, sé og sigra á Íslandshjólreiðunum í júní, 5 daga stuðkeppni.


Mistök eða...?

Fór í Kringluna (mistök) til að kaupa skóáburð.  Keypti 3 skópör en engan skóáburð.  Eina lekkera brúna spariskó, ein gordjös ökklastígvél og rauða og gyllta (já seisei) strigaskó.  Gæti ekki verið betra.  Hagsýna húsmóðirin fór náttúrulega á kostum, stígvélin á 30% afslætti þó að ég þyrfti nú að hafa ansi mikið fyrir því að fá afsláttinn í alvörunni þegar á kassann var komið, þoli ekki svoleiðis.  En árvökult auga skasssins (eru ekki ábyggilega 3 s í því?) láta ekkert fram hjá sér fara og bora gat á verslunarstjóra ef með þarf.  Læt ekki vaða yfir mig á skítugum rangra-verðmerkinga-og-vitlaust-verð-á-kassa-skónum.

Þar fyrir utan fór ég á fína hjólaæfingu í morgun, 60 km og komin heim upp úr 10, býsna gott.  Ætla að gera vísindalega könnun á testósterón-magni í blóði hjólreiðamanna.  Hún fer svona fram:  Ég hjóla fram úr strákahópi og segi "djöfull hjóliði hægt, strákar".  Síðan tek ég tímann þar til þeir taka viðbragð og bruna fram úr mér.  Stysti tími só far 7 sekúndur (HFR-guttar), lengsti tíminn 48 sekúndur (steingeldir eða hvað Hjólamenn á letiæfingu).


Að ferðast létt:

Ég hjólaði um með lágmarksfarangur í fyrradag.  Aftan á hjólajakkanum eru þrír vasar og í þeim var: Sími, viðgerðarsett, gleraugnahulstur, 3 uppþvottaburstar, tannbursti, tannkrem, debetkort, USB-kubbur, aukapedalar, bankaræningjagríma, 2 matarkex, lyklar, auðkennislykill. Var ég að klikka á einhverju?
Síðan var sumardags-fyrsta-hjólatúr á Nesjavelli í gær með öllum hjólafélögum og þríþrautarliði, ég held að við höfum verið fjörtíuogeitthvað.  Fórum Mosfellsheiði uppeftir og Nesjavallaleið til baka, frábært veður, ógeðslega margar brekkur, fokdýrt en vel þegið pasta á Nesjavöllum, brekkur dauðans upp frá Nesjavöllum (hefði verið fínt að vera óþreytt í þeim en hafði það samt upp hjólandi, margir létu sér nægja að reiða hjólið...).  Ég byrjaði reyndar túrinn á hópfalli í Árbænum (þegar einn dettur þá detta allir), gaur fyrir framan Hauk rakst í næsta fyrir framan (sem sveigði fyrir hann) og datt, Haukur lenti á honum og ég á Hauki (mjúk lending) og er með fínt marblettasafn en slapp samt bara vel.
Annars er það af uppeldinu að frétta að sólberjagræðlingarnir 115 dafna vel, komnir með fullt af stæðilegum laufblöðum og fá að fara út á daginn.  Það er fullt af krúttlegum kálspírum í einum bakka og glittir í rófu- og blaðlauksspírur líka.  Bíð spennt (og þið öll líka) eftir að eitthvað gerist hjá birkifræjunum og svo ætla ég að sá basiliku, gulrótum og radísum í dag...

Svöl eða ekki svöl?

Ég á í dálitlum vandræðum með kúlheit mín. Ég var nefnilega að kaupa mér sólgleraugu með styrkleika og þau eru hrikalega flott og ég æðislega töff með þau og sjálfsmyndarmælirinn rýkur í 10 (heyrist bliiiinnnngggg) um leið og ég set þau upp.  En svo er það almenningsálitið, eins og allir vita þá er kúl að vera með sólgleraugu við réttar aðstæður, t.d. þegar það er sól, hins vegar er það í flestum tilfellum lummó og vonnabíkúl-legt að vera með sólgleraugu þegar það er augljóslega ekki þörf á þeim, t.d. þegar það er rigning eða innandyra.  Það er líka yfirleitt halló að vera með sólgleraugun í hárinu þegar það er augljóslega engin ástæða til að vera með þau þar.  Eini sjensinn að geta verið með sólgleraugu þegar það er engin ástæða til að vera með þau og vera samt kúl er ef maður er bara ógeeeeeðslega kúl að eðlisfari og í flestum tilfellum líka frægur (t.d. poppstjarna) en þá er maður hvorteðer kúl á sólgleraugna og leyfist líka hvorteðer allt.

En snúum okkur aftur að mér og sólgleraugunum mínum.  Þegar ég fer út að hjóla á racernum mínum honum Rúdolf þá finnst mér mjög gott að vera með sólgleraugu, ég horfi nefnilega alltaf yfir venjulegu gleraugun mín og sé allt í móðu þegar ég hjóla (af því maður hallast svo mikið fram á racer) og þaraðauki grenja ég stanslaust út af vindinum í augun (af því að ég hjóla svo hratt, sjáiði til), það vandamál er skylt horvandamálinu góða.  Sólgleraugun eru prýðileg lausn á hvorutveggja, en þá er ég í svolitlum vandræðum ef það er ekki sól.  T.d. fór ég í vinnuna í morgun í sól og blíðu og var geðveikt kúl með sólgleraugun en svo kom allt í einu hríð og kúlheitin hrundu algjörlega.  Svo kem ég í búð og er geðveikt kúl í sólinni fyrir utan búðina en labba svo inn og þá er þrennt í stöðunni: Vera áfram með sólgleraugun og mjög ókúl af því að ég er inni, taka þau niður og sjá ekki neitt (af því að þau eru með styrkleika) eða taka þau niður og grafa venjulegu gleraugun upp úr bakpokanum og það er alveg glatað ef ég er inni í búðinni í 1 mínútu.  Sjitt hvað á ég að gera?  Ég held að ég sofi ekki neitt næstu nætur.  Kannski ef ég gerist bara geeeeeðveikt kúl að eðlisfari (og kannski fræg í leiðinni) verður þetta allt í lagi og ég get alltaf verið með sólgleraugun.


Megrunarkúrar og staðfesta

Heyrði á tal tveggja kvenna um megrunarkúra.  A: "Ertu búin að vera á þessum lengi?" B: "Já, ég reyndar hætti aðeins um jól og áramót og er bara nýbyrjuð aftur"

Það er 17. apríl í dag.


Himnaríki á jörð er fundið

70% expressosúkkulaði frá Kaffitári með kurluðum kaffibaunum

Horus horribilis og æfingus ojbarastus

Aldeilis munur að hafa lært læknisfræði og geta slegið um sig á latínu.  Best að þeir sem eru viðkvæmir fyrir líkamsvessum lesi ekki lengra því nú ætla ég að opna fyrir allar mínar horugu hugsanir.  Hafi einhver haldið að hjólreiðar snerust bara um að hjóla og þar geri menn ekkert nema að snúa löppunum í hringi þá er það misskilningur.  Færni í hjólreiðum er allavegana aukaatriði, það sem mestu máli skiptir er góð neftæmitækni.  Málið er að hið eilífa skítaveður á Íslandi er mjög ertandi fyrir slímhúðina í nefholinu og þegar við bætist áreynsla verður úr óhófleg horframleiðsla.  Ef nefið er ekki tæmt reglulega er hætta á að hortaumar leki út (eða sogist jafnvel út í vindi eða vegna þess hvað maður hjólar óóóógeeeeeðsleeeega hratt) og klessist út á kinnar.  Því þarf að snýta sér (á ferð) bæði til hægri og vinstri og halda fyrir hina nösina á meðan.  Þá skiptir miklu máli að slumman lendi ekki á hjólafélögum því þá tala þeir ekki við mann framar, eða hefna sín jafnvel.  Svo þarf að velja skotáttina vel eftir vindátt og stundum getur verið ómögulegt að tæma aðra nösina í lengri tíma í vondri átt og þá er mjög hætt við áðurnefndu horútsogsvandamáli og taumum út á kinn.  Eitt stærsta vandamálið hjá mér er svo að reyna að fá ekki hor í hárið, tek stundum ekki eftir því fyrr en næst þegar (ef) ég fer í sturtu.  Og þetta mál er alls ekki léttvægt, því öfugt við það sem margir kunna að halda í einfeldni sinni þá er hor (allavegana mitt) mjög ætandi og eitrað, getur valdið malbiksskemmdum, tætt í sundur dekk, gert göt á föt, eyðilagt hanskana sem maður notar við að þurrka framan úr sér, drepið smádýr t.d. hunda sem á vegi manns verða (ætti að beita því á hund fúlu konunnar við Gróttu) og svo mætti lengi telja.

Ég hef að sjálfsögðu samið lag um snýtingar. (Lag: "Eitt skref til hægri og tvö skref til vinstri")

Eitt snýt til hægri og tvö snýt til vinstri - snýta snýta snýta snýta snýta snýta hor.

En víkjum aðeins að hjólreiðahluta hjólamennskunnar.  Æfing dauðans í gær, ég hélt að það yrði skítaveður og stutt æfing, tók ekki með nesti og fyllti ekki einu sinni hjólabrúsann.  Endaði með því að ég lafði aftan í Íslandsmeistaranum og ofur-Hjólamanni og 2 öðrum gaurum sem ég þekki ekki í 2 1/2 tíma upp í móti og móti vindi alla leið, ég segi það satt.  Sprakk reyndar tvisvar hjá öðrum óþekkta (óþekka) gaurnum, fyrst á hjólinu og svo sprakk hann sjálfur og fór heim (fór allavegana heim hvort sem hann sprakk eða ekki).  Hinum tókst ekki að sprengja mig fyrr en eftir 2 tíma, en þá dró ég fram neyðar-orkugelið úr hnakktöskunni og drakk líka hálfan brúsa hjá næsta manni og varð aftur spræk sem aldrei fyrr (eða soleis).  Ég ætla að prófa að mæta á stelpuæfingu í dag til að fá smá föstudag-afslöppunarfíling, nú eða kannski spæna þær líka eins og vitlausar, kemur í ljós.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband