Færsluflokkur: Bloggar
9.7.2009 | 23:58
Já sæll...
Hvaðasta hvaða það hefur náttúrulega ekkert gerst á heimilinu síðasta mánuðinn. Eða þannig. Smotterí eins og að flytja tímabundið til Íslands (3 mánuðir hlýtur að teljast flutningur), eins árs afmæli frumburðarins, 4 gull í hjólakeppnum og fleira og fleira. En aðallega allt of mikið að gera í vinnunni, já ég er að vinna, ekki eins og venjuleg manneskja samt heldur í tölvunni heima hjá mér. Og ekkert meiri tími nú en endranær, er að fara að spæna norður á morgun, Glerárdalshringinn á laugardaginn (fram á sunnudag) og aftur suður á sunnudag púff. 24 tindar á 24 tímum, og ég sem hef ekki gengið á fjöll síðan Ágúst Ísleifur var bara nokkrir sentimetrar í maganum á mér. Jú skutlaði okkur mæðginum upp á Esjuna í gær, það er víst stærsta afrekið á göngusviðinu undanfarið. En ætla að bæta úr því á laugardaginn. Hef hins vegar staðið mig betur í hjólamálum, Bláalónsþrautin, Heiðmerkuráskorun og Guðmundarlundur á fjallahjóli og Hvalfjarðarkeppni á götuhjóli, gull í öllu takk fyrir. Og hvar eru myndirnar af barninu? Svar: Í myndavélinni. Svo er líka hægt að heimsækja barnið til að sjá það, eða enn betra, passa barnið... . Og til að svara nokkrum klassískum spurningum: Já hann skríður enn á maganum, nei hann kann ekki að labba, já hann kann að vinka bless, nei hann kann ekki svona stór, nei hann kann ekki að setjast upp, já hann kann að segja datt, já hann er mesta æði í heimi. Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 21:13
Uppeldisstöðin
Frábært starf sem skilar frábærum árangri á mörgum sviðum, hvað ætli séu núna margir starfandi tónlistarmenn eða í framhaldsnámi sem hafa verið í Gradualekórnum? Og meirihlutanum af vinum mínum kynntist ég í kórunum í Langholti og gæti hreinlega ekki ímyndað mér hvernig hlutirnir væru ef ég hefði ekki dottið inn í kór þar fyrir bráðum 20 árum almáttugur...
Til hamingju Jónsi og allir! Leiðinlegt að hafa ekki verið með í þetta skiptið.
Gullverðlaun til Gradualekórsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2009 | 09:01
Íslandsför
Íslandsför okkar mæðgina nálgast óðfluga, komum annað kvöld! Fréttaleysið hefur verið þvílíkt síðasta mánuðinn að Ágúst Ísleifur dauðskammast sín fyrir að hafa ekki sett inn neinar myndir. En ætlar að bæta það upp með því að koma sjálfur og sýna sig og sjá aðra. Í 3 mánuði takk fyrir. Ágúst eldri kemur tvisvar, í fyrra skiptið 23. júní, rétt mátulega til að baka fyrir afmæli sonarins daginn eftir.
En það er annars helst að frétt af heimilinu að Ágúst Ísleifur var rétt í þessu að læra að vinka eftir u.þ.b. hálfs árs þjálfunarferli. Hann er líka orðinn mjög öflugur í skriðinu og þvælist um allt hús og reynir að gera skammir af sér eins og smábarna er siður, foreldrarnir ljóma að sjálfsögðu af stolti. Hann er hins vegar ekki búinn að læra að klappa, "svona stór" eða pí með 20 aukastöfum.
En hann á rólu og er rosa kátur með hana, og fékk skó í fyrradag og finnst æðislegt að labba úti í garði (með taalsverðri hjálp). Nú og hann er að sjálfsögðu farinn að spila prýðilega á orgel og sést hér pósa íbygginn á svip eins og kollegar hans á myndum í tónleikaprógrömmum, augljóslega upprennandi snillingur.
En það er best að pakka, búin að senda eina 20 kg tösku til Íslands með nótum, barnafötum o.fl., mæti svo sjálf með krútt, hjól, hjólavagn og eitthvað smáræði til viðbótar. Sjáumst!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2009 | 20:41
Hóstafrávit
Já núna er ég búin að hósta frá mér allt vit, fékk leiðinda bronkítis upp úr kvefpest og er loksins farin að vera eins og eðlileg manneskja á kvöldin og morgnana. Hjóla bara eins og vitleysingur til að hressa mig við. Dró m.a.s. Ágúst Inga með í cykeltur áðan og Ágúst Ísleifur að sjálfsögðu attaní. Hann er orðinn svo stór strákur að hann er hættur að kúra í bílstól í hjólavagninum heldur er kominn í innbyggðu sætin. Þar er pláss fyrir heil tvö börn í 5 punkta belti og Sleibba litla finnst mikið stuð að bjóða vinkonunum á rúntinn.
Hér er Steindís Elín sest uppí svaka kát. Ágúst Ísleifur er reyndar með efasemdir, hann er vanur að hafa vagninn bara allan fyrir sig.
Svo kom Emilía Glóð í heimsókn og prófaði að fara í labbitúr í vagninum (fjölhæf græja nefnilega, fínasta labbi/hlaupakerra), þau voru hress gömlu hjónin.
Nú en förum aðeins út í öryggismálasálma, þegar Ísleifur litli krúttaðist í bílstólnum var hann auðvitað ekki með hjálm, og skv. vagnaspekingum er ekki bráðnauðsynlegt að vera með hjálm þegar barn situr eitt í tveggja barna vagni (í miðjunni) því það er veltigrind og höfuðið nær ekki að slást í eitt eða neitt, hins vegar verða bæði börnin að vera með hjálm ef þau eru tvö því þau geta slegið saman höfðunum. Við fórum því í hjálmakaupaleiðangur og hér sést árangurinn:
Ágúst sagði nú bara "hjálmurinn er stærri en hann sjálfur" og það er mikið til í því... ætla reyndar að kanna hvort ég finni enn þá minni hjálm hér í Horsens, þessi er 48-52 cm en það á að vera hægt að fá 46 cm. Svo var pabbi hennar Steindísar svo ljómandi heppinn að fá bleikan smábarnahjálm í afmælisgjöf síðustu helgi...
En skiptum yfir í almennar krúttamyndir, maður er extra krúttlegur í náttfötum:
(ekki búinn að læra að komast yfir þröskulda)
Svo er voða fullorðins að sitja í sófa eins og herramaður.
Og án þess að ég sé neitt hlutdræg, getur einhver rengt það að Ágúst Ísleifur er fallegasta barn í heimi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.5.2009 | 07:32
Kúr og púl
Það er svo gott að kúra, það finnst Ágústi Ísleifi allavega. Jafngildir heilum panodil-stíl að kúra hjá pabba og mömmu þegar eitthvað er að angra piltinn. Búið að vera mikið af slíku undanfarið, tennur, eyrnabólga, svínaflensa (já eða bara kvef) og reyndar hefur kúr + stíll ekki alltaf náð að bjarga nætursvefninum, en ástandið er loksins að lagast. Þau tíðindi gerðust í gærkvöldi að við skelltum rúminu hans inn í barnaherbergið og hann svaf þar til kl. 4 í nótt, þá vældi hann nógu mikið til að ég nennti ekki að standa í að svæfa hann aftur og þurfti þar að auki að affrysta barnið því sængin tollir illa ofan á bröltorminum. Það var líka ósköp notalegt að fá hann upp í að kúra .
Stráksa er að fara fram í "skriði", núna fer hann um á maganum, ekki hratt, en seiglast áfram á gremjunni (rymur í hvert skipti sem hann spyrnir) og maður þarf aðeins að hugsa um hvað hann getur náð í, forðaði t.d. saumadótskassanum frá honum áðan áður en hann borðaði títuprjónana og skærin.
En yfir í sjálfshólið að vanda, smá um heimilismyndarskapinn:
Við settum upp "wall of fame" í gær, keyptum stafla af römmum og skelltum upp viðurkenningarskjölum og tónleikaplakötum í skrifstofunni, með ríflegu plássi fyrir viðbætur .
Svo er ég með metnaðarfull áform um gluggatjaldasaum, þ.e. breyta stofugluggatjöldunum úr Sjafnargötunni svo þau passi í borðstofuna og gestaherbergið og græja ný gluggatjöld í skrifstofuna. Gömlu tjöldin í borðstofunni voru of ljót til að mega hanga uppi og þau í skrifstofunni sundurétin af sólinni. Og það voru engin gluggatjöld í gestaherberginu því þar var engin gluggi... Ætla í saumabúð á eftir að kaupa fansí pansí borða til að sauma aftan á sem gluggatjaldastöngin er svo þrædd í gegnum á nokkurra cm fresti, ætla rétt að vona að þeir eigi svona í Horsens eins og í Reykjavík.
Og puttarnir eru aðeins að grænkast, ég hreinsaði rósabeðið fyrir utan stofuna sem var búið að breytast í fífla-/grasbeð (tók nokkra daga) og klippti niður rósirnar (árans þyrnarnir) og tætti hellings mosa úr grasflötinni og sáði í sárin (tók marga daga), bíð núna eftir að rósirnar blómstri og grasið spretti. Nja það er kannski ekki hægt að segja að ég bíði beinlínis eftir að grasið spretti, það er rétt kominn maí og þarf að slá á viku til 10 daga fresti nú þegar, hvernig verður þetta í sumar púff. En ég bíð allavega eftir að nýja grasið spretti. Og ég bíð líka eftir að einhver með virkilega græna fingur, eða bara virkilega duglegur, komi í heimsókn og geri allt hitt sem þarf að gera í garðinum, almáttugur hvað allt vex hratt hvort sem það á að gera það eða ekki.
Smá messuhugleiðingar í lokin - ég spilaði í sveitamessu í gær þar sem safnaðarsöngurinn er alveg dásamlegur, allir syngja sem mest þeir mega og ef þeir gera það ekki skammar presturinn þá. Ég þen orgelið sem mest ég má því annars heyrist ekki í því fyrir söngnum. Þandi það líka í eftirspilinu og hlaut að launum ekki bara klapp heldur uppklapp . Kom svo heim mátulega til að hlusta á íslenska útvarpsmessu á netinu. Við Ágúst fórum í hefðbundna gettukeppni um kirkju, organista og prest (er það ekki á öllum heimilum?) og höfum aldrei klúðrað því eins illilega. Vissum prestinn um leið (en það hjálpaði lítið því það var María héraðsprestur sem getur verið hvar sem er), grunaði fljótlega hvaða orgel þetta væri en það stóðst samt ekki að það væri réttur organisti, svo missti María líka út úr sér að messan væri í Háteigskirkju en við neituðum samt að trúa að þetta væri DB að spila. (Ókei þetta er soldið hardcore messunördadæmi). En jújú svo var afkynnt að DB spilaði svo við þurftum að éta allt oní okkur (en það var ekkert mál því ég eldaði svo fína grasamjólk og það rennur allt ljúflega niður með henni ). Núna vitið þið hvað fer fram á organistaheimilum á sunnudögum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2009 | 11:37
Sýnist ykkur þessi piltur eitthvað hvekktur?
Það er svo agalega erfitt að vera smábarn, Ágúst Ísleifur þjáist af tanntöku og eyrnabólgu þessa dagana. Tönn nr. 5 og 6 komu síðustu helgi (uppi) og okkur grunar að það styttist í 7 og 8 (niðri). En tannmálin eru yfirstíganleg, verra með eyrnabólguna, búinn að vera endalaus pirringur í okkar manni leeeeeengi, fórum með hann dýrvitlausan (ok smá, ýkjur þó hann hafi vissulega orgað mikið um nóttina) á læknavaktina síðustu helgi (fyrir rúmri viku semsagt) og jújú smá roði í öðru eyranu og síðan aftur á þriðjudaginn og þá var mældur þrýstingurinn í miðeyra og gutlar allt í vökva báðum megin. En hann hefur ekkert verið lasinn með hita og það sést enginn roði núna svo það á bara að skoða aftur eftir 3 vikur. Panodil-stílar skaffa svefnfrið á nóttunni.
Svo má til gamans geta að þetta hálffullorðna barn var löngu búið að missa áhugann á brjóstajapli, drakk bara smá af einskærri skyldurækni þegar var troðið upp í hann, helst ef hann var hálfsofandi. Ég ákvað bara að holde op með þessa mjólkurkúgun og hætti að gefa honum á 10 mánaða afmælisdaginn og hann hefur ekki tekið eftir því enn þá...
Og ekki má gleyma að ég gerðist tvíburamóðir í gær án þess að blikka auga, passaði Emilíu Glóð vinkonu Ágústar Ísleifs, öllu heldur pössuðu þau hvort annað og ég sá bara um að keyra vagninn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.4.2009 | 16:11
Aðeins eftirá...
aldrei þessu vant. Við erum náttúrulega löngu komin frá Íslandi og búin að vera á fullu við að gera ekki neitt. Stráksi varð 10 mánaða í gær og við Ágúst 9 ára. Ég er nýbúin að koma grillinu aftur í gang eftir hálfs árs gaslausa pásu svo við grilluðum nautasteik í gær í tilefni dagsins. Þurftum að fjárfesta í dönskum kút og dönsku tengi og úff það kostaði sitt, en steikin góð.
En best að rifja upp síðustu vikur í máli og myndum (hljómar eins og áramótaannáll RÚV)
Ágúst Ísleifur sá vinkonu sína Eddu Sjöfn kúka í kopp og var alveg heillaður (eða öllu heldur mamma hans...). Hann er einmitt svo ljónheppin að amman á sérdeilis flottan BabyBjörn kopp svo heimatökin voru hæg að prófa. Það skilaði ágætis árangri í tvö skipti, enda flottur koppur á ferð, merkjavara og svona. Við foreldrar hans vorum ekki eins flott á því þegar við fórum í kaupfélagið eftir heimkomuna og keyptum einhvern nóneim kopp, það hefur hvorki komið vott né þurrt í hann þrátt fyrir fjölmargar tilraunir. En hér er Ísleifur glaður á ömmukopp.
Svo kom sumar á Íslandi einn daginn (og fór þann næsta), við notuðum tækifærið og vígðum fína burðarstólinn sem afi Eggert gaf litla kút í skírnargjöf. Við gengum upp á heilt fjall (á danskan mælikvarða) og Ágúst Ísleifur varð sybbinn af átökunum.
Mamman hins vegar ýkt hress... (Ágúst þóttist sjá sama svip á syni sínum og á Fögrubrekkusystkinunum á gömlum jólamyndum)
Svo var komið að því að fara í pílagrímsferð á Sjafnargötu 7 að heimsækja Úlfar Jökul og prófa bílinn hans. Úlfar Jökull gaf leiðbeiningar - horfa beint fram, báðar hendur á stýri, og svo vrúmm vrúmm.
Afi Ágúst var kátur með báða afastrákana sína í einu, Hlöðver var að útskýra að núna er hann 4 ára, svo 5, svo... svo 10.
Og síðan vorum við svo ljónheppin að Gunnhildur bakaði pönnukökur ofan í Ágúst Ísleif og Úlfar Jökul (og mæður þeirra). Ágúst Ísleifur fékk nú líka smábarnagraut og Úlfar hjálpaði honum aðeins með smekkinn.
Hér með lýkur Íslandsferðarannálnum og við skiptum aftur yfir til Danmerkur. Heimferðin gekk tíðindalaust en heima biðu heldur betur tíðindi því orgelið var mætt inn á skrifstofuna. Það passar prýðilega þar inn, hver sentimetri af veggplássi nýttur fyrir nokkrar bókahillur, bókaskáp, 2 skrifborð, veggfasta skápa og geisladiskahillur, verst að það komast bara 2 af 3 geisladiskahillum fyrir núna og við erum alveg í vandræðum með þá þriðju , er of mikið af einhverju hjá okkur?
En til að rifja aðeins upp þá keyptum við rafmagns-æfingahljóðfæri, spilaborðið er nákvæmlega eins og á meðalstóru pípuorgeli, 2 hljómborð og pedall, fullt af röddum en ahemm bara rafmagnsdósahljóð samt. Ágúst Ísleifur kippir sér sem betur fer ekki upp við það og spilar af hjartans lyst
Hann er m.a.s. búinn að ná ágætum tökum á því að spila á tvö hljómborð í einu, en pedallinn bíður aðeins
En nú eru það lokamyndirnar af kátum tíu mánaða strák, yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2009 | 10:01
Ferming
Já Ágúst Ísleifur passar enn í jólafötin og skartaði þeim í fermingu Teits Erlingssonar á Brún. Teitur gengur líka undir nafninu "litli Teitur", en það er þó ekki mjög lýsandi. Stóri Teitur Arason er jafnaldri minn, síðan er mið-Teitur Ingvarsson að nálgast tvítugt og litli Teitur Erlingsson nýfermdur, allt bræðrasynir mömmu.
Við skelltum okkur norður í Reykjadal, keyrðum á þriðjudaginn, ferming skírdag í dásamlegu veðri, og suður aftur föstudaginn langa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2009 | 20:00
Skriðæfingar og annað sprikl
Ýmis ráð notuð til að kenna Ágústi Ísleif að skríða. Eins og sést þá er hann stinnur eins og planki og dettur ekki í hug að beygja hné og mjaðmir. En það vottar þó fyrir framförum, þ.e. honum fer fram í að fara fram með fæturna, ansi hnyttin setning.
En það er nú einfaldast að sitja bara á rassinum, og maður nýtur sín vel í svona fínni peysu sem Úlfar Jökull prjónaði (með aðstoð Auðar mömmu býst ég við) og á teppinu sem einhverjir muna kannski eftir sem dularfullri sængurgjöf (frá Elínu Björk & co). Hér er hann (tiltölulega) þolinmóður á æfingu fyrir tónleikana sem Ágúst var að syngja á á sunnudaginn. Það vakti talsverða lukku þegar hann fór að slá taktinn með skeiðinni sinni, framtíðarstjórnandi á ferð.
En svo var heldur betur fjör hjá okkur í gær þegar við mæðgin fórum á róluvöll. Ágúst Ísleifur skemmti sér veeeel í rólunni, dandalagóð smábarnaróla sem er ekki hægt að detta úr.
Og að lokum allt annað: Hvern dreymir ekki um að eiga eitt svona á heimilinu?
Það þarf auðvitað að vera alvöru orgel á öllum betri heimilum, og þar til við höfum skrapað saman fyrir alvöru pípuorgeli þá verður rafmagnsstaðgengill að nægja. Við höfum ákveðið að festa kaup á svona æfingahljóðfæri, gerir lífið mun auðveldara næsta vetur þegar ég þykist ætla að fara á kostum í orgelnámi, og Ágúst kvartar ekki heldur yfir að geta spilað þegar honum sýnist. Það er von á einu svona frá Þýskalandi eftir helgi, verst að ég verð ekki á staðnum til að taka á móti því, en Ágúst hefur þá allavega eitthvað við að vera meðan 2/3 fjölskyldunnar moka í sig páskaeggjum á Íslandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)