Færsluflokkur: Bloggar
7.4.2008 | 20:22
101 leið til að klúðra orgelæfingum
Gæti verið efni í spennandi bók. Þessa dagana sleppi ég samt alltaf fyrstu 100 aðferðunum þegar ég þykist ætla að æfa mig og nota bara 101. aðferð, sem er að sofna. Langholtskirkja er reyndar frekar óheppilega hönnuð til svefns, kirkjubekkirnir ómögulegar stólaraðir og bara einn sófi lengst í burtu uppi á lofti. Grafarvogskirkja er hins vegar alveg dásamleg því þar er sófi á organistaskrifstofunni með koddum og teppi, zzz.... Af því að ég vissi hvað er glatað að leggja sig í Langholtskirkju þá sofnaði ég bara úti í bíl í 40 mínútur áður en ég skreið inn í kirkjuna í dag. Er orðin rosalega bjútífúl af öllum bjútíblundunum.
Hugsa ekki um annað en mat og svefn. Datt í hug þegar ég sá brot úr Kastljósi um þjálfun blindrahunda (sem ganga algjörlega fyrir mat og hrósi) að það væri líklega hægt að kenna mér nokkurn veginn hvað sem er gegn mat, t.d. hoppa í gegnum gjörð fyrir súkkulaði (líklega ekki mjög elegant þó), taka til fyrir ís, vakna á morgnana fyrir köku, er að mestu leyti ófær um þetta allt án þjálfunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 09:45
Að gleyma (sér)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2008 | 10:36
1. apríl!!!
Ég hef undanfarið velt mjög alvarlega fyrir mér einum möguleika (og þið kannski öðrum), að einhverjir aldeilis hnyttnir spéfuglar hafi undirbúið roooosalegt aprílgabb, sem fælist í því að láta mig halda að ég væri búin að festa kaup á húsi og fengi það einhvern tímann, já og kannski að það væri líka gabb að Ágúst væri að byrja í sérnáminu einmitt í dag 1. apríl. Átta mig ekki á því hverjir eru samsekir og hverjir eru gabbaðir. Allavegana alveg á hreinu að ég væri í gabbaða flokknum, ætla rétt að vona Ágústar vegna að hann væri það líka . Spurning með Hauk og pabba, með eða móti? Sko ef Ágúst teldist í gabbaða flokknum þá væri þetta líklega ekki lengur gabb, því hann fékk loksins lykilinn í gærkvöldi og tilkynnti mér stoltur að hann væri orðinn húsbóndi í Lindeparken 3 (æ mikið er það nú dauflegt heimilishald, svona húsmóðurlaust). Hins vegar ef hann er samsekur þá er hann ekki baun kominn með lykilinn... (og pottþétt ekki á hostelinu samt, heldur fínasta hótelinu í Horsens að drekka freyðivín og hlæja að mér, en ég trúi því samt ekki upp á hann!
) Líklega svaf Ágúst bara ljómandi vel á nýja heimilinu sínu (okkar meina ég) og er kátur á spítalanum núna fyrsta daginn.
En svo er það hinn möguleikinn sem þið hafið kannski velt fyrir ykkur, og það er að ég hafi bara spunnið upp þessa ljómandi skemmtilegu lygasögu til að láta vorkenna mér, æ mig auma ég fæ ekki húsið mitt, oooo... það er svo agalegt að hanga á þessu hosteli... æjæjæ algjör fýluferð etc. En í raun og veru höfum við flutt inn daginn sem við komum út og svo hafi ég verið að dunda við að mála barnaherbergið (og einmitt setja upp væmið veggfóður) og raða kristalnum fínt í skápa og halda innflutningspartý og god nós. Þið bara trúið því sem þið viljið mwahahaha
Annars þá get ég bent ykkur á frétt sem sannar sögu mína um að peningarnir hafi farið til fj... í bankakerfinu, http://mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/04/01/ranid_i_danmorku_thaulskipulagt/
(Til að fyrirbyggja misskilning þá er Haukur kominn heim og er með fjarvistarsönnun, get ekkert sagt um Ágúst samt)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2008 | 09:31
Formæður vorar
Ég held að það hljóti að vera miklu erfiðara á vorum dögum að vera ólétt en í gamla daga, allavegana heyrir maður ekki neinar sögur af því hvað langömmur okkar áttu bágt og þurftu að fara vel með sig og fara í jóga og slökun og meðgöngunudd og nota nógu fínt bumbukrem og spangarkrem já og muna spangarnuddið (nýbúin að komast að því hvað það er, ef þið vitið það ekki þá er ágætt að halda því þannig) og stuðningsbelti og stuðningssokka og passa líkamsstöðuna og sofa með kodda milli fóta og við bumbuna og fara í sérstaka óléttuleikfimi og gera réttar æfingar og passa grindarbotninn maður og borða rétt og taka öll vítamínin (en bara þau réttu) og omg finna rétta barnavagninn og bílstólinn og fara á foreldranámskeið og brjóstagjafanámskeið og uppeldisnámskeið og lesa heilt bókasafn um hvert skeið meðgöngunnar og undirbúa fæðinguna og læra öndun og horfa á fæðingarmyndbönd og æfa fæðingarstöður með makanum og gera barnaherbergið fínt og setja krúttípúttí veggfóður í réttum lit og finna nógu frumlegt (og væmið) nafn og kaupa nógu fín óléttuföt og óléttute og ráða einhvern til að taka vídjó í fæðingunni (nei hættu nú alveg) og já helst að vera búin að taka afstöðu til þess fyrirfram hvort eigi að öskra í fæðingunni eða vera pen og segja bara ái og annaðhvort vilja allt náttúrulegt og æðislegt og engar deyfingar og barnið verður hamingjusamt og fallegt eða panta mænudeyfingu fyrirfram já ef maður pantar ekki bara keisara fyrirfram eins og fræga fólkið og á að nota taubleiur eða pappírs (hugsaðu um umhverfið manneskja) og er svindl að kíkja í pakkann (dj.. þoli ég ekki athugasemdir um það) og er siðferðilega rangt að fara í fósturgreiningu og er ég að þyngjast akkúrat mátulega mikið og er bumban mátulega stór kannski ég hætti núna...
Kannski vissu langömmurnar bara að það mundi enginn nenna að hlusta á þær kvarta, ekki víst að þær hafi verið neitt sérstaklega sprækar síóléttar (nýyrði) með barnaskarann í pilsfaldinum og meira en nóg að gera og enginn tími til að spá of mikið í hlutina. Og ekki kvörtuðu þær eftirá sem létust af barnsförum og hugsa sér hvað þær misstu sumar mörg börn í fæðingu eða á unga aldri. Ég held að ég hafi það bara mjööööög gott. Ætla að hvíla mig aðeins núna og fara svo í barnavagnabúðina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2008 | 08:40
Grasekkjan komin heim
Ekki nóg með að ég vorkenndi mér sjálf heldur voru aðrir farnir að vorkenna mér og slegist um að sækja mig á völlinn, ekki hægt að láta þessa svekktu og óléttu og kvartandi grasekkju taka rútu eins og almúginn. Gísli hreppti hnossið og byrjaði á því að tilkynna mér að mamma væri að baka hjónabandssælu, svona af því að mín hjónabandssæla er eitthvað tæp þegar við hjónakornin erum í sitthvoru landinu? Síðan var byrjað á að fóðra mig á kakói og köku, svo lá ég í leti uppí sófa (n.b. enginn sófi í Sjafnargötunni, varð að nota tækifærið) og ætlaði nú einhvern tímann heim, mamma stakk upp á að horfa á vídjó, svo var spaugstofan að byrja, svo kom þessi fína mynd í sjónvarpinu.. Einhvern veginn var líka ekkert sérstakt sem dró mig heim, enda ekkert þar!
En frá Danmörkinni er það að frétta að Ágúst og Haukur tæmdu gáminn í gær með aðstoð heillar hrúgu af Íslendingum, ég hafði greinilega staðið mig þvílíkt vel í almannatengslum! Og það án þess að hitta nokkurna mann, svona er tölvuvæðingin... Ágúst sagði síðan að við ættum alveg yfirdrifið af búslóð/húsgögnum í húsið, áhugavert með tilliti til þess að húsið er meira en helmingi stærra en íbúðin í Sjafnargötunni!!! (fannst einhvern tímann einhverjum að það væri svolítið troðið í stofunni??) Já og nágrannarnir komu með blóm, helvíti eru danirnir næs! ég mein voða eru þeir hyggeligir.
Haukur er svo á heimleið og Ágúst einn eftir á farfuglaheimilinu, grasekkill á gistiheimili, það hljómar hálf-trist... Já btw hann er kominn með danskan gsm +45 27 19 61 40 (og ef ég þekki hann rétt er hann ekki búinn að segja nokkrum manni frá því og öll sms og hringingar til hans síðustu daga hafa bara brotlent í Atlantshafinu)
En ég vaknaði óvart allt of snemma (á dönskum tíma), búin að lesa fullt af blöðum og borða morgunmat 2x og ætla núna að skella mér í að spila 2 stk. fermingar í Grafarvoginum, bæjó spæjó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2008 | 17:34
Harmsaga í Horsens, 4. kapítuli
Setustofan á Farfuglaheimilinu í Horsens er orðin ákaflega heimilisleg, Ágúst stakk reyndar upp á því að við slepptum bara húsinu, hér er allt sem við þurfum - stór stofa, sjónvarp, píanó, internet, eldhús (engin uppþvottavél samt), kojur (vondar dýnur samt), hvað þurfum við svosem meira?
Þurfum samt eitthvað að gera við búslóðina úr því að hún er mætt til Horsens, Samskip fengu nefnilega nóg af þessu hringli og frestunum með gáminn og vildu fara að losna við hann. Ágústi tókst að láta fasteignasalann díla við seljandann um að opna fyrir okkur húsið og leyfa okkur að tæma gáminn, svo skellir hann í lás aftur. Já og N.B. þarf að standa yfir okkur allan tímann, annars aldrei að vita hvað svona skreiðarétandi glæponar gera af sér. Þess vegna er ekki hægt að gera þetta fyrr en á morgun laugardag (þegar ég er farin aftur heim) því seljandinn hefur ekki tíma fyrr en þá. Jibbíjei og allt það, næ ekki einu sinni að stinga annarri nösinni inn í húsið sem ég mætti til að flytja inn í. Engin beiskja, engin beiskja... En búið að skella gámnum við innkeyrsluna á Lindeparken og verður svo bara tekinn (tómur vonandi) á mánudag.
Alveg að rætast úr þessum greiðslum, meirihlutinn kominn til Danmerkur, en seljandinn lætur lykilinn ekki af hendi fyrr en hver einasta króna er komin og hananú. Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2008 | 18:52
Af afturfótunum niðrá rass
Jájá allt runnið á rassinn, fínt farfuglaheimili maður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2008 | 10:12
Afturfætur 2 - Haukur hetja
Haukur bróðir fékk brunasár í eyrun þegar ég útskýrði stöðuna fyrir honum því það byrjaði að rjúka svo mikið úr eyrunum, hann sagðist bara mæta og redda þessu no problemo... Hann mætti því eins og til stóð um miðja nótt, reyndar töskulaus því taskan (sem var aðallega full af dóti frá okkur, hann millilenti í Kastrup á leið til Brussel á fund og ferjaði út tösku fyrir okkur og geymdi á Kastrup) læstist inni á Kastrup af því að fluginu hans frá Brussel seinkaði, Danir fara svo snemma í háttinn.
Allavegana er hann að reyna að redda einhverju skammtímaláni t.a. dekka útborgunina svo að húseigandinn fáist til að hleypa okkur inn! Erum nógu bjartsýn til að vera búin að tékka okkur út af vandræðaheimilinu og færa okkur yfir í setustofuna (svaka munur), sitjum þar þrjú með tölvurnar að nördast og skiptumst á að nota innstungurnar tvær sem finnast í húsinu, er styttra síðan rafmagn var fundið upp í Danmörku en annars staðar?
M.a.s. búið að finna dreng í Köben sem ætlar að skjótast út á Kastrup og senda töskuna til Horsens svo Haukur þurfi ekki að vera í jakkafötunum það sem eftir er.
Nú og einar magnaðar fréttir, Ágúst hefur hafið innreið sína á msn-lendur (agusagu@yahoo.com) og svo minnist ég þess að hafa þekkt miklu fleiri á msn í gamla daga áður en tölvan mín hrundi síðast, viljiði kannski adda mér (laraegg@yahoo.com) ef þið nennið að tala við mig? Mér leiðist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2008 | 15:20
Afturfæturnir maður
Það þykir alltaf voðalega merkilegt og jákvætt þegar dýr (já og börn) geta gengið á afturfótunum, en hins vegar er alls ekki jákvætt þegar allt gengur á afturfótunum, eins og það gerir einmitt núna hjá okkur í Horsens. Fyrsta vísbendingin um að ekki sé allt eins og það á að vera er að ég sit núna uppí rúmi á Horsens Vandrerhjem en ekki í Lindeparken 3, hmm... Sem sagt smá vandræði við að fá húsið afhent, af því að einhverjir blýantanagandi enskir bankadrengir klúðruðu því gjörsamlega í tætlur að koma peningum sem pabbi var að skaffa okkur fyrir útborgun frá London til Danmerkur, væri of löng og fáránleg saga að útskýra hvernig böns af peningum getur týnst í bankakerfinu, ætli það tengist því að skoskar rottur eru alltaf að naga sundur sæstrengi?
Af svona sæmilega skiljanlegum ástæðum þá langar tilvonandi fyrrverandi húseiganda ekki að afhenda vafasömum kaupendum af yfirtöku-þjóðerni húsið án þess að fá einhvern pening, og þess vegna erum við enn húslaus, húsið eitt og yfirgefið, pabbi í London að tala yfir hausamótunum á sedrusviðarætunum, og bankalingarnir að hamast við að afsaka sig og segja pabba og okkur og fasteignasalanum að þetta sé allt að koma, nefin á þeim eru sífellt að lengjast.
Ég sem hafði mestar áhyggjur af því að við fengjum gáminn ekki afhentan á skikkanlegum tíma, búið að segja okkur að það myndi ábyggilega ekkert gerast fyrr en við hefðum samband á þriðjudegi (í gær) út af páskahelginni, en við hringdum samt til Árósa fyrir helgi og þeir sögðu þar að kannski hugsanlega gætum við fengið gáminn í allra fyrsta lagi í hádeginu á miðvikudegi. Og hringir svo ekki gámakeyrslumaðurinn í mig kl 13 í gær þriðjudag og spyr hvort ég sé ekki ábyggilega til taks að taka á móti gámnum, kolruglað lið. Ég sat bara á McDonalds á Hovedbane í Köben og átti ekki einu sinni hús undir dótið í gámnum.
Veit semsagt ekki alveg hvað ég er að gera í Horsens. Hugsanlegt að dæmið gangi upp á morgun fimmtudag og þá hefði ég allavegana föstudaginn t.a. raða dóti áður en ég fer eldsnemma á laugardag. Til að kóróna allt þá mætir Haukur bró til Horsens í kvöld t.a. hjálpa okkur að koma okkur fyrir, hann fær að kúra á milli okkar á farfuglaheimilinu og vonandi eitthvað tækifæri til að gera gagn! Æ ég er ekkert mjög kát yfir þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)