Færsluflokkur: Bloggar
22.4.2008 | 21:44
Fæðingarorlofssjóður og beiskar sjómannskonur á Hvammstanga
Já loksins er ég í nógu góðu skapi til að skrifa um fæðingarorlofssjóð, enda á ég von á kökusneið rétt bráðum. Ég er búin að hringja reglulega norður á Hvammstanga þar sem sjóbbi er staðsettur og röfla um að ég ætli að flytja til Danmerkur en samt heimta að fá borgað íslenskt orlof. Svörin sem ég fæ við þessari hógværu kröfu hafa verið alveg sitt á hvað, stundum er það ekkert mál en stundum útilokað... Magnaðasta samtalið var nokkurn veginn svona (ýkt og stílfært eftir hentugleikum), LH stendur fyrir Lára Hormónafulla, BSH stendur fyrir beisk sjómannskona á Hvammstanga sem vinnur hjá fæðingarorlofssjóði.
LH: Góðan dag. Ég ætla að flytja til Danmerkur þegar ég verð búin að ávinna mér fullan rétt á fæðingarorlofi á Íslandi og fæða svo grislinginn þar. Fá orlofið borgað til Danmerkur takk. Er það vandamál?
BSH: Ertu galin. Það er ekkert hægt að búa í útlöndum og fá orlofið borgað þangað.
LH: Ég er nú samt að flytja þangað og maðurinn minn er löngu fluttur og gengur ekki annað en að ég flytji út og fæði barnið þar ef pabbinn á að koma eitthvað nálægt þessu. Verð nógu lengi grasekkja á klakanum samt.
BSH: Það er vel á sig leggjandi að búa mánuðum saman í öðru landi en eiginmaðurinn til að tryggja sér rétt á fæðingarorlofi, annað eins hafa nú sjómannskonur þurft að þola (ath. þessi setning er ekki stílfærð og ýkt og fór ekki sérstaklega vel í hormónafullu Láru)
LH: Mér er alveg sama um það, ég vil bara fá skýr svör við hvort það séu einhver vandkvæði á þessu eða ekki. Sé engin ákvæði um lögheimili á Íslandi í lögum um fæðingarorlof.
BSH: Bíddu augnablik, ég ætla að tala við sérfræðing (þó fyrr hefði verið)
15 bið-mínútum síðar rofnaði sambandið og búið að loka Hvammstangabúllunni, ég engu nær og mjööööög reið. (Vaaaááá ég fer að þurfa þessa kökusneið til að halda mér góðri).
En góðu fréttirnar eru þær að ég hef haldið áfram að hringja reglulega (og fá alls konar svör) og eftir að ég fór að heimta hlutina skriflega svo þeir væru alveg á hreinu var haft samband við lögfræðing og liggalá, ég má flytja hvert sem ég vil þegar mér sýnist. Nú þegar er búið að setja mig út af sakramentinu og skipa mér í veikindaleyfi (aumingjaleyfi) þá þarf ég bara að ganga frá sjúkradagpeningum frá TR og orlofi frá blessuðum Hvammstangasjóðnum og þegar á annað borð er byrjað að borga mér er ekki hægt að taka réttinn af mér og hananú.
Reyndar lítur ekki eins vel út með Ágúst, vissulega allt í góðu ef afkomandanum þóknast að fæðast á réttum tíma! Nefnilega þannig að faðirinn þarf að hafa unnið í Danmörku 13 vikur fyrir fæðingu barns til að eiga rétt á þarlendu orlofi (verður löngu búinn að missa rétt á íslensku orlofi) og þessar 13 vikur eru búnar einmitt 1. júlí þegar krakkinn á að skjótast út! Ég geri mér reyndar óljósar vonir um að ég sé að misskilja og það sé nóg að hann skili ákveðið mörgum vinnustundum innan 13 vikna fyrir fæðingu, en megi t.d. alveg hafa unnið þær á síðustu t.d. 12 vikunum... Er einhver búinn að missa þráðinn? (eða áhugann...) Verst að vinnuvikan er svo stutt hjá Danskinum.
Hætt að röfla bæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.4.2008 | 15:42
Lára ehf
hefur sagt upp eina starfsmanninum og er fyrirtækið nú lokað. Það verður þó starfrækt áfram að einhverju leyti undir nýrri kennitölu og heitinu Lára&co ehf. Fyrst um sinn verður þó aðeins einn starfsmaður og tekur hann eingöngu að sér sérhæfð verkefni á borð við svefn, át, hvíld, sjónvarpsgláp, bóklestur og útsaum. Áætlað er að fjölga starfsmönnum í júlí og bæta við aðstoðarmanni. Aðstoðarmaðurinn verður í þjálfun í ca. 18 ár og veldur líklega tvöföldu álagi á starfsmanninn sem fyrir er, en það er víst algengt á vinnumarkaðnum, sérstaklega í svona atvinnubótavinnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2008 | 23:19
Ein ég sit og sauma
og er sko ekkert á leiðinni snemma í háttinn, enda er ég ekki að fara að spila í einni einustu messu í fyrramálið. Held að þetta sé í annað skiptið á æfinni sem ég skrópa í messuspili útaf veikindum! Hitt skiptið var þegar ég var ca. 17 ára með flensu... Merkilega erfitt samt að ákveða svona nokkuð, hellings peningur fyrir tvær messur og allt það, og mar liggur ekki bara heima í bælinu af því að "æ ég er kannski ekki alveg alveg nógu hress", en hú givs a þú veist, þarf að passa upp á krakkagemlinginn, snemma byrjar það.
Í staðinn sit ég samviskusamlega fyrir framan sjónvarpið með saumadótið (nó kidding), er nú einu sinni að sauma Skaftafellsrósina með íslenskum krosssaumi (og hef verið að því síðan í desember 2006 ahemm)
En þetta er allt að koma, verður agalega fínn púði eða veggmynd eða eitthvað. Næst kemur "Drottinn blessi heimilið", veit einhver um flott design á soleis? (Gud blesse hjemmet)
Svo er líka spurning hvort ég leggi í að prjóna á afkomandann úr því að ég er svona mikið í því að hanga heima. Ætla mér nú ekki stóra hluti í þeim efnum, á ekki sjens í t.d. Sibbu og Auði sem byrjuðu að prjóna á sín krútt þegar þær voru í leikskóla held ég, og tengdó er nú verðugur fulltrúi fyrir heila ætt í að prjóna á belgverjann...
En - ég er samt sem áður með stór áform, hafði dottið í hug að kannski réði ég við að prjóna svona hosur á krúttið, en ég fékk enn þá betri hugmynd - ætla að prjóna svona smábarnavettlinga sem eru ekki einu sinni með þumal! Hið fullkomna verkefni fyrir óþolinmóðu manneskjuna! Pínkupínkulitlir...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.4.2008 | 19:04
"Amma á Brún setti aldrei lauk"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2008 | 15:14
Mín hinsta jarðarför
Já ég söng mitt síðasta í gær, veit ekki hvað ég var eiginlega að reyna en þóttist syngja í einni jarðarför en beilaði á þeirri seinni og fór heim í bælið og hef verið þar síðan. Ljósan sagði í gær að ég ætti að minnka við mig vinnu (hmm.. segir ekki) en ég fer til læknis á mánudaginn og hann segir þá kannski hvað ég sé mörg prósent ónýt... Veit samt ekki alveg hvernig þetta virkar með verktakavinnu (er nebla verktaki í Grafarvoginum eins og öllu öðru), vona allavegana að fæðingarorlofssjóður (uppáhaldsstofnunin mín) fáist til að borga mér einhver lúsar-veikindalaun sem duga fyrir poppinu og kókinu yfir öllu imbaglápinu þessa dagana. Auðvitað fúlt að missa af tekjum og allt það, en þessi krakki á hvorteðer eftir að vera svo brjálæðislega dýr að þetta munar engu. Hugsa sér öll hjólin sem þarf að kaupa undir hann (götuhjól, keppnishjól, fjallahjól, æfingahjól), einkatímar á orgel og öll möguleg hljóðfæri, bankareikningurinn minn verður bara hræddur ef ég held áfram.
Dagskráin samt búin að vera ótrúlega stíf í dag, heilir 2 organistar búnir að koma í heimsókn út af Biskupsstofu-/Söngvasjóðsmálum (Múhameð og fjallið - ekki fer ég út að hitta neinn) og svo er ég búin með heilmarga Scrubs-þætti og sauma svolítið út þess á milli...
Mamma ætlar síðan að tryggja það að við belgverjinn verðum stór og feit og sjóða kjötsúpu í kvöld, namminamm. Kannski ég reyni að hafa einhver áhrif á það sem fram fer í pottinum úr því að ég geri nú einu sinni bestu kjötsúpu í heimi, allavegana finnst okkur Ágústi það! Mamma verður alltaf jafnhissa þegar ég tel upp allt sem ég set í súpuna og hváir sérstaklega yfir hvítlauknum (oft, oft, í mörg ár). Í beinu framhaldi má minna á að ég geri líka besta saltkjöt og baunir í heimi (líka með hvítlauk).
Já og loksins getur mamma soðið kjötsúpu skammlaust, fékk svaka flottan 10 lítra pott í snemmbúna sumargjöf frá Gísla og hann trónir stoltur á eldavélinni og getur ekki beðið eftir að komast í gagnið. Hefur verið hálfneyðarlegt fyrir húsmóðurina hana Sigríði Teitsdóttur að þurfa að fá lánaðan pott hjá börnunum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2008 | 08:34
Hótel Mamma
Mér var mokað út úr Sjafnargötunni í gær, ég reyndi að (þykjast) gera gagn og segja mömmu og Gísla og tengdamömmu til en sá að ég réð hvorteðer ekkert við þetta lið og lagist í bælið og flúði svo á kóræfingu upp í Grafarvog. Af einhverjum ástæðum virðist belgurinn á mér líta á kórstjórn sem erfiðisvinnu og var friðlaus allan tímann þó ég sæti bara við píanóið og röflaði í kórnum, púff.
Ég fór til læknis á mánudaginn og hún sagði að samdrættirnir væru í sjálfu sér ekki að gera neinar skammir af sér (allavegana eins og er) en þarf samt að ná þeim niður. Ég er búin að gera mitt besta að hanga í bælinu en ég er orðin svo leið á því að mér fannst hundfúlt að fara að sofa í gærkvöldi, og í x. skiptið sem ég vaknaði og sinnti hefðbundnum óléttuerindum var ég ferlega svekkt að klukkan væri ekki nema 4 svo það þýddi ekkert að fara á fætur!
Fer að hitta ljósmóðurina á eftir og ætla að segja henni tröllasögur af því hvað belgverjinn sé stór og sterkur og verði nú alveg sérstaklega fínt barn og líkt foreldrum sínum og gáfað etc, ætli sé ekki heilmikið álag að vera ljósmóðir og þurfa að vera sammála öllum hormónafullu mömmunum sem eru sannfærðar um að annað eins barn og þeirra muni aldrei fæðast!? Ljósurnar hugsa kannski "kommon ekki halda að þinn krakki verði merkilegri en allir hinir grenjiormarnir"
Síðan er æsispennandi hvort ég kemst lifandi gegnum að syngja heilar tvær jarðarfarir eftir hádegi (veit um allavegana einn í hvorri jarðarför sem kemst ekki lifandi frá því, ohhh ósmekklegur húmor) og ef það endar með skelfingu ætla ég að losna við að spila á tónleikum með Kammerkór Langholtskirkju á sunnudaginn (var einmitt verið að auglýsa mig í útvarpinu, mar má ekki kveikja á apparatinu án þess að heyra "Lára Bryndís Eggertsdóttir leikur á orgel", heimsfrægðin handan við hornið)
Einhvern tímann þarf ég svo að koma með skýrslu um furðuleg samskipti mín við Fæðingarorlofssjóð, en ég verð svo skapvond af því (m.ö.o. fæ geðprýðiskast) að ég þarf að vera vel undirbúin andlega (þ.e. búin að borða nóg súkkulaði).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2008 | 21:34
Umgangist ófrískar konur af mikilli varfærni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 20:09
Rabbarbarasulta og annað meðlæti
Var að moka í mig lambasteikinni með brúnni sósu og kartöflum og vææææænnni hrúgu af rabarbarasultu (frá mömmu ovkors) og þá rifjaðist upp fyrir mér hvað kjötbúðingurinn hennar ömmu á Brún var alltaf dásamlega góður með kartöflum og vel af sultu, í framhaldi af því rifjaðist svo upp fyrir mér að ég fékk einmitt uppskriftina hjá Deddu frænku í síðustu heimsókn, aldrei að vita nema verði framreidd dönsk útgáfa af ködbuding með syltetöj í Lindeparken einhvern tímann .
En svo rifjaðist líka upp fyrir mér "meðlætisrifrildi" okkar Ólafar í gærkvöldi. Hún fór eitthvað að tala um hvað hefði nú verið gott að stappa matinn saman í gamla daga (fiskur og tómatsósa t.d.) og ég minnist á dásemdina við að grauta slátri, kartöflum rófum og öllu öðru saman á disknum og svo veeeel af uppstúf yfir. Ólöf gat ekki dulið hneykslunina. Uppstúf á slátur, þvílík og önnur eins vitleysa, það á að borða kartöflustöppu með slátrinu. Uppstúf með hangikjöti. Þá greip ég nú inn í og benti á að það á ekkert að vera sulla uppstúf á hangikjötið heldur borða kartöflustöppu með og ekkert kjaftæði. Grundvallarágreiningur. Bara svo að enginn fari að óttast þá skildum við Ólöf þrátt fyrir allt sem vinkonur síðar um kvöldið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.4.2008 | 11:02
Hrós dagsins
Fá:
Ólöf fyrir að mæta í gærkvöldi og vaska upp ógeð síðustu viku og elda svo dýrindis lax ofan í mig (leiðin að hjarta ófrísku konunnar er þarna gegnum magann).
Dagbjört fyrir að mæta með flakkarann sinn stútfullan af alls konar skemmtilegu dóti svo mér leiðist aðeins minna í bælinu, og síðan ætlar hún í búðina fyrir mig á eftir (svona úr því að hún er hvorteðer á bílnum mínum).
Halldóra fyrir að skipa mér strax að liggja í bælinu þegar ég minntist á hvort kannski hugsanlega svona ef í það færi ef ég væri ekki alveg nógu svakalega hress þá væri hún jafnvel laus að taka fyrir mig 2 jarðarfarir eftir hádegi. Kannski var þetta samt ekki af neinni umhyggju heldur bara fégræðgi.
Gísli fyrir að mæta með afganginn af lambasteikinni hennar mömmu (annars væri einmitt ekkert ætilegt í ísskápnum úr því að ég er búin með afganginn af laxinum nema 1 appelsína og 1 kókómjólk) og ætla svo að hjálpa mér að tæma íbúðina á miðvikudaginn, nema það heitir kannski ekki að "hjálpa" því það er ekki eins og ég ætli að gera neitt sjálf. Allir velkomnir hvenær sem er að pakka fyrir mig og svo þrííííífaaaa......
Stubburinn í maganum fyrir að halda uppi fjöri allan daginn og minna mig á að kannski er það einmitt þess virði að hanga í bælinu, púff (því ef hann tæki nú upp á því að fæðast þá yrði augljóslega mjög mikil vinna að hugsa um hann svona ofvirkan mwahahaha)
P.S. á einhver leisíboj til að lána mér í mánuð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2008 | 21:10
Samdráttur í efnahagslífinu
Jájá það má vel vera, en persónulega hef ég meiri áhyggjur af samdráttum í móðurlífinu. Er í fj.. rugli þessa dagana og þarf að rembast við að slappa af. Eða rembast við að rembast ekki neitt. Eða öllu heldur ekki rembast við neitt. Eða ég meina slappa af í stressinu. Eða bara sleppa því að gera nokkurn skapaðan hlut. Nema einmitt því að slappa af. Ó gad mér leiðist. Þarf samt að spila 2 messur á morgun en er að hugsa um að skrópa á nobbatónleikum þar sem ég á nú að spila eitthvað pínu, hmm.. kannski fara að hringja í Jónsa...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)