Fjörmjólk

121Ólöf (sem er í heimsókn) fann skýringuna á því hvað Ágúst Ísleifur er fjörugur en jafnframt grannvaxinn og með sterk bein.  Það kemur nefnilega fjörmjólk úr brjóstum móðurinnar...

 


Pondus og dökku krullurnar (fyrir Hallveigu)

Pondus

Afmælisdrengur!

IMG_0930Stóri strákurinn okkar hann Ágúst Ísleifur varð þriggja mánaða í gær.  Í tilefni dagsins fékk hann að fara í bíó.  Það var kannski ekki alveg hefðbundið bíó, heldur "filmcafé" í safnaðarheimili Klausturkirkjunnar þar sem myndin "Koret" var sýnd (heitir Les Choristes á útlensku, menn kannast nú frekar við það.).  Þar var samankomið félag eldri borgara og svo við... snittur og öllari á eftir og presturinn (sem þekkti flesta viðstadda með nafni, svona ef það segir eitthvað um samkomuna) stýrði umræðum um myndina.  Geggjað!  Við allavegana skemmtum okkur prýðilega framan af, Ágústi Ísleifi fór reyndar að leiðast undir lokin af því að hann skilur ekki frönsku og kann ekki heldur að lesa textann.

 

 

Síðan smá uppeldismál, varla þætti það gott mál að binda barnið sitt niður á höndum og fótum og pína það til að sofa FootinMouth, en hins hef ég verið að prófa ævaforna aðferð sem mælt er með á "dugleg" börn, það er nefnilega aftur komið í tísku að vefja börn í reifar.  Grey krúttin sem hreyfa sig mikið vekja sig stundum sjálf jafnóðum með spriklinu, og það á ágætlega við Ágúst Ísleif.  Ég ákvað því að prófa þetta í fyrradag.  Það er hægt að kaupa alls konar sérhönnuð (og eftir því dýr) "reifi" en ég lét burðarsjalið duga.  Vafði eftir kúnstarinnar reglum, kúrði svo með honum þar til hann sofnaði, síðan lúrði hann bara heillengi alsæll.  Prófaði aftur í gær, sama sagan.  Enn einu sinni í dag, á orgelloftinu í Klosterkirken, lagði hann frá mér innvafinn og hann steinsofnaði.  En hafið ekki áhyggjur, ég ætla ekki að fara geyma blessað barnið í böggli allan daginn...

IMG_0928

Og að lokum - taubleiumamman talar: Þvílík og önnur eins pissulykt sem kemur úr þessum pappírslufsubleium, hendum af og til á hann pappírsbleiu ef alvöru bleiurnar eru ekki orðnar þurrar á snúrunni eða ef ég er með hann útí bæ og á bara pappír í bleiutöskunni.  Ég finn bara langar leiðir af honum lyktina um og leið og hann pissar í þessi risadömubindi og var alveg að kafna þegar hann lenti í því að vera með þennan ósóma á rassinum að næturlagi, æ, ó.

En eitt gott taubleiuráð, ekki stinga óvart puttanum INN í bleiuna AFTANVERÐA til að gá hvort hún sé orðin blaut...


Já ungabörnin anga svo yndislega

Svo lengi sem mamma þeirra mokar ekki í sig guacamole með alltof miklum hvítlauk og sullar yfir barnið.  Og grey drengurinn ef satt er að bragðið af því sem móðirin lætur ofan í sig smitist yfir í móðurmjólkina, þá fær hann hræring af hvítlauk, harðfiski, súkkulaði, geitaosti, mygluosti og ég veit ekki hvað, ógeðsdrykkir hvað!!!

Reyndar er hlutfallslega lítið af súkkulaði í blöndunni því ÁGÚST FALDI SÚKKULAÐIÐ!!!! Til að tryggja það að hann gæti borðað eitthvað af heimilisbirgðunum sjálfur þá greip hann til þessa örþrifaráðs.  Síðan þarf ég reglulega að reyna að blíðka hann til að fá smá bita.


Góður þessi...

Mig dreymdi að ég náði svo góðum árangri í sundkeppni (óóótrúlegur lokasprettur hjá mér) að ég ákvað að drífa í að fara að æfa þríþraut (hjól, sund og hlaup). Stúderaði m.a.s. æfingaplanið í sundhöllinni í Horsens í nótt og sá líka að það var barnapössun á miðvikudögum, mjög hentugt.

Þetta væri kannski ekki svo vitlaust ef ég væri ekki svona arfaléleg að synda og hefði alltaf verið.  Ég hef aðeins einu sinni á ævinni tekið þátt í "opinberri" sundkeppni, það var fyrir ca. 20 árum þegar ég var í sumarbúðum í Hlíðardalsskóla með Ástu Guðlaugu vinkonu minni.  Þar var margt til gamans gert, þ.á.m. blessuð sundkeppnin.  Ekki nóg með að ég væri minnst í öllum hópnum heldur virtust allir aðrir en ég kunn að synda með hausinn í kafi.  Ég vildi ekki minni vera í þeim efnum, synti samviskusamlega í kafi en þurfti að halda fyrir nefið svo ég hafði aðeins not af annarri höndinni til sunds.  Ég var ááááákaflega síðust í mark.

img152

Sem betur fer voru líka iðkaðar aðrar greinar þar sem hæfileikar mínir nutu sín betur.  Til dæmis var æfður bjöllukór fyrir lokaskemmtunina (þegar foreldrarnir mættu og tóku þessa mynd af okkur Ástu) og Meistari Jakob hefði alls ekki notið sín svona vel ef ég hefði ekki spilað F-ið af innlifun.


Sjálfsvorkunn

Afi Ágúst og Hallveig ág.08 017Lasin og eftir því ljúf í skapinu eða þannig.  Eins gott að barnið er þægt því mamman nennir ekki að sinna því.  Brúnin á mér lyftist þó aðeins við að moka í mig kexi með geitasmurosti og hugsa til Hallveigar í leiðinni (hún er ekki þekkt fyrir aðdáun á geitaafurðum). 

Hér er einmitt ein mynd frá því að Hallveig heimsótti okkur þegar Ágúst Ísleifur var lítill:

 

 

 1

 

Einu sinni var strákurinn líka svooona lítill, þessar myndir voru teknar um verslunarmannahelgina í Borgarfirði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

3

 

 

Annars finnst mér hann enn þá pínulítill, en fötin hans eru samt farin að minnka töluvert og hann er hrikalegur hlunkur þ.e. þungt í honum pundið.

 

 

 

 

En svo ég taki aftur upp sjálfsvorkunnar-/kvartþráðinn þá ætla ég að lýsa frati á dönsku veðurstofuna, þeir ættu að flytja inn nokkra íslenska belgingsfræðinga.  Kemur bara sól þegar er spáð rigningu og öfugt.  Þetta með sólina er þó mun minna svekkjandi en hitt.


Ég ætla að spyrja Ísleif hvort hann langi í sleif

Mwahahahaha...


Nýjar reglur á heimilinu

Nú eftir að við fengum okkur fína baðinnréttingu með speglaskápum hefur húsmóðirin séð ástæðu til að setja strangar reglur:

BANNAÐ AÐ NOTA TANNÞRÁÐ FYRIR FRAMAN SPEGILINN

Svo er líka komið agalega strangt þrifaplan, ég var hálfpartinn miður mín þegar ég ryksugaði stofuna að óþörfu á miðvikudaginn (þ.e. það var ekki von á gestum), en sem betur fer meldaði Erla Elín sig svo í mat kvöldið eftir, hjúkk.  Rafmagnið þar að auki svo dýrt í baunalandi að það borgar sig eiginlega ekki að ryksuga, frekar að bíða þar til ógeðið er orðið nógu mikið til að raka það.

Desuden er það helst að frétta á heimilinu að ég bakaði rúgbrauð í gærkvöldi/nótt, hef aldrei áður bakað þrumara, en hefur staðið til í ca. 10 ár.  Helmingaði uppskriftina nema setti óvart orginal sykurmagn, enda er brauðið algjört lostæti.  Verður svo gaman að vita hvernig andrúmsloftið verður á morgun.

Litli kútur orðinn heill heilsu, samt spurning hvort teljist normalt að hann svaf þrjá góða lúra í dag án þess að honum væri sagt að gera það.  Var kannski að vinna upp nætursvefninn, þyrsta barnið drakk sex sinnum í nótt, segi og skrifa sex sinnum.  Og nei það voru ekki bara smásopar og svo aftur að lúlla, móðirin tæmd inn að lungum í hvert sinn.  Ég hélt nú að hann væri að grínast þegar hann heimtaði 4. drykkinn kl 03.00, en honum var fúlasta alvara.  Svo vakti ég pabbann þegar ég gafst upp á ótrúlega hressum Ágústi Ísleifi upp úr 8 og sagði honum að passa ofvirka barnið úr því að það vildi ekki sofa.  Og hvað gera þeir annað en að leggja sig, aaarrrrggg af hverju hef ég ekki þessi syfjuáhrif á stráksa.

Yfir og út, farin að sofa.

 


Æjæjæj

Ágúst Ísleifur var svo óheppinn í gærmorgun að fá tvær sprautur, þó ekki í rassinn heldur lærin.  Sprauturnar innihéldu bólusetningar við öllu mögulegu og fóru heldur illa í stráksa, frá því klukkan þrjú orgaði hann af vanlíðan, gat varla drukkið eða sofið og sýndi alls ekki á sér sparihliðina þegar Erla Elín mætti í mat! Endaði þó með því að hann sofnaði í sjalinu góða, en þó ég setti á mig fína Hallgrímskirkjuservíettu í tilefni gestakomunnar þá var Ágúst Ísleifur með kál í eyranu, sósu í hálsakoti og hrísgrjón á öxlinni að lokinni máltíð.

IMG_0873

 


Ágúst Ísleifur eignaðist nýja vini

IMG_0850[1]

Fyrsti mömmugengishittingurinn var í dag (sbr. fyrri færslu um að hjúkkur komi mæðrum saman í mödregrupper).  Strákarnir voru kátir að kynnast og fóru í gubbukeppni.  Frederik (lengst til vinstri) stóð sig vel og er eins og sést með spýjuna á neðri vörinni, en varð þó að lúta í lægra haldi fyrir Otto (lengst til hægri) sem var mun öflugri, bæði í magni og fjölda atrenna.  Frederik fékk samt bónusstig fyrir að reyna að líkja eftir Agli Skallagrímssyni, hann miðaði upp í son minn en dreif því miður ekki.  Skemmst er síðan frá því að segja að Ágúst Ísleifur skíttapaði með aðeins einni gusu.  Fjórði pilturinn, Ásgeir Elí (íslenskur eins og nafnið ber með sér), var farinn þegar keppnin var háð og fær því engin stig.  Hann átti samt góða spretti í orgkeppninni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband