Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
17.1.2011 | 10:12
Púff...
Ég hef ekki náð andanum undanfarið en núna er loksins smá slökun. Jólin voru auðvitað svaaaka stuð með afa og ömmu og Hallveigu frænku, ég stóð vaktina "bak við eldavélina" og við átum á okkur hvert gatið á fætur öðru. Að sjálfsögðu þurfti ég að leggjast með tærnar upp í loft til að jafna mig þegar stóðið var farið og var ósköp fegin að senda Ágúst Ísleif til dagmömmunnar á meðan . Sú sæla entist þó ekki lengi því stráksi fékk lungnabólgu og átti hriiiiiikalega bágt greyið og hafði allt á hornum sér. Hann var til skiptis hálfrænulaus með háan hita eða þá heldur hressari eftir að hann fékk stíl, nógu hress til að gala og góla og kvarta yfir því hvað honum leið illa. Stundum vissi ég hreinlega ekki hvort var skárra að gefa honum stíl eða bara hafa hann rænulausan uppi í rúmi... Læknisferðir á miðvikudag (út af ÁÍ) og föstudag (út af Heklu) voru ævintýralegar, ég þurfti náttúrulega að drösla þeim báðum með mér og í fyrri ferðinni öskraði Ágúst Ísleifur út í eitt á biðstofunni og í seinni ferðinni (þegar hann var orðinn hressari og líka mátulega langt frá því að hann fékk stíl) hljóp hann um allt snaróður úff. Uppeldið fór algjörlega til fj...ans meðan á veikindunum stóð, ég lét allt eftir honum til að halda honum ó-öskrandi þannig að þegar hann var orðinn frískur hélt hann samt áfram að orga t.d. "meiji úís" (meiri rúsínur, það eina sem hann fékkst til að borða þegar hann var veikastur) og "hovvvva" (horfa á teiknimynd). Pabbinn var því miður ekki alveg nógu mikið heima og gisti í Odense eina nótt vegna námskeiðs, það var skrautleg nótt. Sem betur fer er Ágúst Ísleifur núna kominn aftur til Selmu dagmömmu (organdi "eih Seeeehmu" að sjálfsögðu) og fer vonandi að rifjast upp fyrir honum hvað hann er í raun ljúfur og góður drengur .
Hekla veiktist líka, fékk slæman hósta og hita og ég var skíthrædd um að hún væri líka að fá lungnabólgu en læknir dæmdi hana með venjulega kvefpest. Hún er enn hálftuskuleg með hósta og hor en öll að koma til. Hún var vigtuð og skoðuð vegna kúkaleysis í leiðinni, hún er nefnilega lítið fyrir það að gera í bleiuna og meðaltalið er komið í 13 daga. Svo þyngist hún alls ekki nóg samkvæmt stöðlum, fylgir engum kúrfum nema sinni eigin sem er heldur flöt og ekki komið nema 1.15kg frá fæðingu, það þykir ekki fínt í samanburði við búttuð Michelin-börn. Hún verður í eftirliti áfram þó að ekki sé farið að grípa til neinna aðgerða.
Já eins og fram hefur komið eru blessuð börnin TVÖ en bara pláss fyrir EITT í barnavagninum. Það getur skapað vandamál (t.d. Ágúst Ísleifur að henda sér organdi í götuna af því að hann vill ekki labba) og ég hef verið að klóra mér í kollinum. Komst að þeirri niðurstöðu að best væri að kaupa systkinapall sem Ágúst Ísleifur getur staðið á og rúllað með, ætlaði að splæsa í einn notaðan á heilar töttöguogfimmkrónurdanskar til reynslu en úpps skyndilega var ég búin að kaupa Phil&Teds systkinakerru í staðinn. Það tók eiginlega steininn úr þegar ég fór með þau til læknisins á miðvikudaginn, Ágúst Ísleifur organdi í kerrunni, Hekla í sjalinu og frekar erfitt að halda á Sleibba líka til að hugga hann, taka þá Heklu úr sjalinu, setja hana í vagninn í staðinn, æ þá fer hún að góla etc etc. Ég gekk semsagt frá kaupum á kerru þegar ég kom heim úr læknisferðinni Því miður kom hún ekki í hús fyrr en á meðan ég var hjá lækninum á föstudaginn (keypti notaða og eigandinn átti leið hjá) svo hún var ekki vígð fyrr en í morgun þegar ég trillaði systkinunum til Selmu, Ágúst Ísleifur í hásæti ofan á og Hekla Sigríður kúrandi í "skottinu". Kerran er ekki fyrirferðarmeiri en venjuleg eins-barns-kerra og ekkert mál að fara í strætó og hvert sem manni sýnist, jibbíjeij . Pabbinn er aðeins skeptískur á hversu NAUÐSYNLEGT hafi verið að kaupa enn eina græjuna inn á heimilið, en ég leysti það mál með því að kaupa kerruna meðan hann var á námskeiðinu í Odense . Myndir síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)