Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Afi og amma mætt og jólin geta komið

Afi Ágúst og amma Guðný eru komin með jólin með sér. Ágúst Ísleifur er svaka kátur og vill ólmur sitja hjá þeim til skiptis og fá almenna afa/ömmuþjónustu.

Á þriðjudaginn fær Ágúst Ísleifur rör í eyrun, hugsanlega lagar það eitthvað næturbröltið og skapstyggðina á morgnana. Hallveig frænka kemur líka á þriðjudaginn og kætir guttann ef hann verður eitthvað pirró eftir aðgerðina.

Fröken Hekla Sigríður er svo pen dama að hún er hætt að gera í bleiu, það er komið vel á aðra viku núna og einhver pirringur í henni en það virðist samt ekki angra hana neitt sérstaklega mikið. Annars stundar hún ekki að gera í bleiu nema 1-2x í viku, annað en bróðir hennar sem á þessum aldri dúndraði 1-2x í hverri gjöf, LÍKA Á NÓTTUNNI Errm.

Nóvember2 10 004 (Large)     Desember 10 013 (Large)

Á fyrri myndinni er Hekla í fyrirtaks ullarbúningi sem hún fékk hérumbil eiginlega í skírnargjöf, hún fékk nefnilega stærri stórubarna-Janus-ullargalla sem við skiptum í smábarnagalla sem hún gæti notað strax og hún hefur varla farið úr honum síðar. Á myndinni til hægri er hún í fínum fötum af stóra bróður. Ágúst Ísleifur á líka matrósagallann sem Hekla er í þegar hún leikur sér með dúkkuna sína:

Desember 10 112 crop (Large)

Desember 10 121 crop (Large)

Ágúst Ísleifur fékk "jafnvægishjól" (pedalalaust tvíhjól) í 2 ára afmælisgjöf fyrir bráðum hálfu ári en þrátt fyrir að það hafi verið minnsta stærð og ætluð frá 2 ára þá er hann nýfarinn að ná nógu vel niður til að ná tökum á hjólinu en hefur verið óstöðvandi síðan:

Desember 10 060 (Large)

Desember 10 061 (Large)

Ég lauk "skyldum" mínum fyrir jólin áðan, spilaði með kórnum hans Ágústar á tónleikum í Klosterkirken, og spila ekkert meira jóló! Sennilega minnsta desemberspilamennska allra tíma hjá mér. Enda má ég ekkert vera að orgelstússi, þurfti að rústa þvottahúsinu dálítið til að koma nýja frystiskápnum fyrir (og hann verður FYLLTUR af jólamat...) og svo stendur til að mála eftir jól. Ágúst er í fríi á morgun og tekur að sér smákökubaksturinn, kannski í samvinnu við ömmuna. Ég ætla bara í ræktina á meðan og kem síðan heim og moka í mig spesíum og hunangskökum Tounge.


...og ég er alveg að ná í skottið á sjálfri mér

Það hefur gengið svo mikið á síðan við komum frá Íslandi að ég er fyrst núna að vinna upp bloggleysið. Mamma kom með okkur frá Íslandi og hún er svo hrikalega dugleg að ég varð að vera a.m.k. jafndugleg og náði ekki andanum í þennan hálfa mánuð sem hún var hjá okkur. Til dæmis galdraði mamma gluggatjöld í borðstofuna og ég málaði forstofuna og eldhúsið. Ég tók líka niður gömlu bjölluna fyrir gamla öryggiskerfið (við fengum nýtt stjórnborð) og klippti í leiðinni sundur leiðsluna í hurðarnemann frá kerfinu, úbbs. En það er önnur saga.

Eftir að mamma fór þurfti ég að sofa hér um bil samfleytt í nokkra sólarhringa til að jafna mig eftir dugnaðinn. Gott að Hekla litla er ákaflega rólegt smábarn svo það er alveg hægt að fá sér góðan lúr eftir morgunmat meðan hún tekur fegurðarblund í 2-3 tíma. Því miður er stóribróðir ekki eins rólegur, sérstaklega ekki á nóttunni, en eftir nokkrar læknisheimsóknir var ákveðið í gær að setja rör í eyrun á honum og kannski hugsanlega fer hann þá að kvarta minna á nóttunni. Hann fær rörin 21. desember og þá verður hálf föðurættin mætt til að kæta hann eftir tilstandið.

Þessa dagana er ég að rifja upp sönghæfileika mína, er á stífum kóræfingum með kammerkórnum GAIA í Árósum öll kvöld þessa viku og törninni lýkur með tvennum tónleikum þar sem við flytjum verk eftir Vivaldi með Sinfóníuhljómsveitinni í Árósum, Dixit og Magnificat. Í gær æfðum við í sinfóníusalnum, hann er staðsettur í miðri Tónlistarháskólabyggingunni og ég geng fram hjá dyrunum í hvert sinn sem ég kem í skólann, en samt var ég að koma þangað inn í fyrsta skipti í gær. Það var að mjög mörgu leyti skemmtilegt. Til dæmis var í síðustu viku vígt þrusu-Klais-orgel í salnum sem ég bíð spennt eftir að prófa. Síðan kom mér ótrúlega mikið á óvart að það var góður hljómburður í salnum, ég hafði bara sjálfkrafa gert ráð fyrir bíó-hljómburði, svona er maður orðinn samdauna blessuðu Háskólabíóinu.

Það lendir á Ágústi að sjá um ómegðina meðan ég hobbýast í Árósum en hann vílar það ekki fyrir sér vopnaður eðal-brjóstamjólk í pela og barbapabbateiknimynd í tölvunni. Ágúst Ísleifur er ákaflega hrifinn af barbapabba og verður sennilega altalandi á frönsku innan skamms því við eigum þættina bara á frönsku! Þegar hann horfir á teiknimyndir þá endurtekur hann gjarnan það sem sagt er (ansi bjagað þó...) og það á líka við um frönskuna. Hann talar meira og meira, bæði íslensku og dönsku, en þó aðallega ísleifsku sem enginn skilur nema hann og foreldrar hans. Dæmi:

"Æjah hagúgú" = "Viltu gjöra svo vel að rétta mér hafragrautinn"
"Avvíah khlikki" = "Mig langar að pota í systur mína"
"Onní mah-möh-gu" = "Viltu klæða mig í sokkabuxurnar"
"Æjah túdd" = "Festa lestarvagna saman"
"Keymmbrmbrm" = "Þarna ekur bifreið".

Hann er líka að læra tölurnar á fullu og bendir á húsnúmer og segir stoltur hvað stendur. Það verður þó að segjast að hann er kannski ekki fremstur í flokki jafningja hvað málþroska varðar, en hins vegar er hann að læra tvö tungumál svo það er enginn furða að það grautist dálítið fyrir honum. Það er m.a.s. þekkt staðreynd að dönsk börn eru sein til máls því danskan er einfaldlega svo óskiljanleg að þau botna ekki neitt í neinu greyin LoL

Þessum pistli lýkur að sjálfsögðu með myndum af sætustu stelpu í heimi. Hér er hún í pífubúningi frá ömmu Siggu:

Nóvember 10 033 (Large)

Og hér í skokk sem Elín móðursystir prjónaði af mikilli snilld:

Nóvember2 10 019 (Large)


Skírnarmyndir

Hérna má sjá systkinin í nýskírð og fín (það MÁ á milli sjá hvort er hárprúðara)

Hekluskírnarferð 060 crop     Skírnarmyndir 4.ág. 035


Skírnarferðin góða

Föstudaginn 29. október þegar Hekla Sigríður var 3 1/2 viku gömul var kominn tími til að fara með hana í pílagrímsferð til Íslands. Það var lítið mál að fara með tvö börn, Hekla kúrði meira og minna í sjalinu alla leið og síðan biðu amma Guðný og afi Ágúst spennt í Keflavík að taka á móti barnabörnunum (og foreldrum þeirra). Síðan biðu fleiri spenntir í Barmahlíðinni og ættin sameinaðist í aðdáun á nýja krúttinu, vöffluáti og kjötsúpuáti.

Amma Sigga er ánægð með nöfnu sína:

005 (Large)

Afi Ágúst í hrókasamræðum við afastelpuna:

Hekluskírnarferð 036 (Large)

Ákaflega gott að kúra hjá ömmu G, og ekki spillir hvað þær eru klæddar flott í stíl. Takið eftir myndinni af Ágústi Ísleifi nýfæddum í baksýn!

Hekluskírnarferð 054 (Large)

Laugardagurinn fór í túrbó-skírnarveisluundirbúning sem hófst með svaaakalegri Bónusferð og lauk með skírnartertuskreytingu, en Dedda frænka galdraði fram nafn skírnarbarnsins ásamt glæsilegu eldfjalli. Því miður fórst fyrir að ná tertunni á mynd!!!!

Einn liður í undirbúningnum var að láta Ágúst Ísleif máta sparifötin:

Hekluskírnarferð 010 (Large)

Vestið fékk hann í eins árs afmælisgjöf frá Huldu og það passar enn þá ljómandi vel á hann. Þess má til gamans geta að í baksýn glittir í hjólreiðabikara móðurinnar Cool, ég á enn eftir að koma þeim til Danmerkur.

Stúlkan var skírð við messu í Hallgrímskirkju og Heklu var pakkað niður í bílstól til að komast þangað.

Hekluskírnarferð 031 (Large)

 Ömmurnar og Haukur voru skírnarvottar og amma Sigríður hélt á nöfnu sinni undir skírn.

025 (Large)

034 (Large)

035 crop

Síðan kúrði stelpan nýskírð og vatnsgreidd í ömmufangi og mömmufangi. 

041 (Large)     046 (Large) 

Sr. Jón Dalbú skírði, og ég fæ ekki betur séð en hann sé nokkuð ánægður með dagsverkið. 

051 (Large)

Ágúst Ísleifur er klárlega flottasti stóribróðirinn. Takið eftir púðanum í baksýn, hann saumaði ég fyrir ca. 80 árum í handavinnu í Digranesskóla. Eigin hönnun og að sjálfsögðu húsnúmerið 45 eins og í Fögrubrekkunni í gamla daga.

Hekluskírnarferð 022 (Large)     Hekluskírnarferð 025 (Large)

 

 


Annállinn heldur áfram: Hallveig frænka kom í heimsókn

Áður en við fórum til Íslands í skírnarferð kom Hallveig systir Ágústar í heimsókn. Hún er duglegust systkina okkar foreldranna við að mæta í heimsókn enda býr hún í ekki nema 900 km fjarlægði í Gent í Belgíu, ca. 1/2 sólarhrings lestarferð. Hún var fyrst ættingjanna til að knúsa Heklu Sigríði og fannst það bara ekkert slæmt held ég. Ágústi Ísleifi fannst heldur ekki slæmt að fá skemmtilegu frænkuna í heimsókn. Já og okkur Ágústi Inga fannst það ekki slæmt ef út í það er farið Tounge

8.-28. okt 120 (Large)

Fæðingarorlofið hjá Ágústi var örlítið undarlega samsett svo hann var fyrst í fríi í tvær vikur, vann síðan í tvo daga og aftur frí í tvær vikur. Þegar hann mætti í vinnuna var tekið vel á móti honum (enda kom hann með heimabakað súkkulaðikex) og Hekla Sigríður fékk pakka, ljómandi fínan galla sem stendur "Daddy's little HERO" á. Heimildarmynd um hvað Hekla er fín í búningnum hangir að sjálfsögðu uppi á vegg á Odense Universitetshospital.

8.-28. okt 122 (Large)     8.-28. okt 123 (Large)

Mamma fær nú líka að halda á stelpunni sinni þó að hún sé merkt pabba.

8.-28. okt 134 (Large)

8.-28. okt 144 (Large)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband