Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
7.2.2008 | 14:11
1. apríl!!!!
Danskurinn er snemma í því að undirbúa aprílgabbið í ár, þeir gerðu sér lítið fyrir og tóku Ágúst inn í framhaldsnám í kvensjúkdómafræði í Horsens á Jótlandi og þar á hann að byrja 1. apríl, við trúum því allavegana þar til annað kemur í ljós!
Við erum búin að vera í samfelldu sjokki síðan á mánudag þegar fréttirnar komu, en dagurinn byrjaði einmitt á því að ég fletti fasteignablaðinu í kvefpestar-hálbólgu-leti-aumingjaskap mínum á Akureyri og sá auglýst þetta fína hús í Odense á fínu verði. Ég hringdi í Ágúst og sagði honum að flott hús kostuðu ekkert svo mikið þarna úti, ættum að geta fundið okkur prýðilegt hús þegar þar að kæmi. Svo hringir hann seinna um daginn hálf-orðlaus og segir mér að kaupa húsið, hann sé kominn með stöðu!
Staðan er reyndar ekki alveg kyrr á sama stað, fyrst er 1 1/2 ár í Horsens, svo 1 1/2 ár í Odense (100km á milli) og svo aftur til Horsens í óákveðinn tíma, jafnvel nokkur ár. Eftir miklar pælingar um hvar væri best að búa ákváðum við að finna bara hús í Horsens og sjá svo til hvað við gerum þegar drengurinn fer að vinna í Odense.
Ég hef síðan staðið mig mjög vel í húsnæðisleit og er komin með draumahúsið rétt hjá spítalanum, þriggja hæða einbýlishús með MÖRGUM GESTAHERBERGJUM!!! (sem fyllast kannski strax af börnum, þið verðið að vera fljót að koma í heimsókn...). Erum að vinna í því í fúlustu alvöru að kaupa hús sem fyrst, þetta er alveg rosalegt. Já og risa-einbýlishús kostar sama og meðal-merkileg íbúð í Reykjavík!!!
Sem stendur er planið þannig að Ágúst fari út á einhverjum skynsamlegum tíma, en fyrst þarf hann að láta hendur standa fram úr ermum og klára einleiksprófið á orgel með svaka tónleikum! Hann ætlar að drífa í því að taka út sumarfrí fljótlega og einbeita sér að orgelinu. Ég verð áfram heima til að byrja með og klára mína plikt í Grafarvogskirkju o.fl. (já og vinn mér inn peninga áfram, ekki geri ég það í Horsens), mæti bara út til að segja Ágústi hvar húsgögnin eiga að vera og læt hann svo sjá um rest hehe. Síðan færi ég út seinnipartinn í maí (á að geta flogið vandræðalaust út maí) og er þá bara föst úti þar til unginn fæðist 1. júlí kl. 15:03 (svona sirka), eftir það vitum við ekkert hvað gerist, ef Ágúst fær sæmilegt orlof komum við heim í smátíma en annars verður bara allt að koma í ljós...
Það þýðir allavegana lítið að ég sitji heima á Íslandi og fæði meðan Ágúst er úti því ef ég er snögg að hlutunum gæti hann hreinlega misst af fjörinu, hins vegar þarf hann ekki einu sinni að koma heim úr vinnunni ef mér liggur á úti í Horsens
Hér er svo Horsens, aðalpleisið í Danmörku, þarna fyrir neðan Árósa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2008 | 12:21
Ættgeng græðgi?
Það bendir allt til þess að við Ágúst eignumst barn með góða matarlyst. Móðirin gefur ekkert eftir þessa dagana. Sat í kaffi hjá Óskari og mokaði í mig kleinum og ostum í gær og sagði honum pönnukökugræðgissöguna þegar Dedda hringdi og spurði hvort ég vildi ekki mæta í bollukaffi, ég hélt það nú og sagði henni að ég myndi að sjálfsögðu ekki segja henni að ég hefði verið á fullu í kleinunum, og að sama skapi myndi ég auðvitað ekki segja Óskari að ég væri á leið í næstu át-törn mwahaha og bollurnar voru sko þrusugóðar...
Ágúst þurfti svo líka að borða fyrir tvo sunnan heiða, hann mætti sem fulltrúi okkar hjóna í mat til mömmu að heilsa upp á Elínu og dætrakrúttin, þar voru bollur í eftirmat og ég er stolt af frammistöðu míns manns!
Annars er ég aðallega að drepast úr aumingjaskap núna, öðru nafni hálsbólgu, og í staðinn fyrir að gera gagn lagðist ég upp í sófa hjá Deddu þar sem finnst ákveðinn heimilis-staðalbúnaður sem þekkist ekki á mínu heimili. Aukaverkanirnar af þessum staðalbúnaði eru 4 fjarstýringar og ég veit aldrei hvað er hvað - sjónvarp, vídjó, dvd, sjónvarpsflakkari, e-r afruglari. Svo eru líka 2 símar til að rugla mig endanlega. Fann Grey's Anatomy á flakkaranum, sjáum til hvernig 1. þáttur virkar á mig, hvort ég kem suður á miðvikudaginn eða ekki.
Og P.S. borðaði 2 bollur í morgunmat áður en ég tók til við súrmjólkina, mmm...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2008 | 12:25
Alldaf á Agureyri
Ég gleymi stundum að reikna með þenslunni um miðbikið, sérstaklega þegar ég pakka niður náttfötum fyrir Akureyrarferðir. Síðast kippti ég með í hugsunarleysi náttbuxum sem hafa alltaf verið í nettari kantinum, eru með klauf og tölu og ég fór næstum því að grenja úr hlátri þegar ég reyndi að ná þeim utan um mig og hneppa. Núna er ég aftur komin norður og passaði að finna brækur sem duga, en fór í staðinn að hlæja þegar ég fór í treyjuna því hún náði ekki niður á brækurnar, ótrúlega svöl með bert á milli
Verð núna í heila 6 daga, kom í gærmorgun og spilaði í helgistund í hádeginu, sat síðan inni á skrifstofu með lappirnar uppi á skrifborðinu hans Eyþórs að bora í nefið þegar átti að fara að aflýsa barnakórsæfingum á síðustu stundu vegna veikinda. Ég kalla nú ekki allt ömmu mína eftir að hafa dílað við drengjakór Langholtskirkju og sendi grislingana auðvitað ekki aftur heim í stórhríð heldur æfði bara í tætlur með heraga hnéhnéhné. 2 barnakórar takk fyrir, var hálffegin þegar þriðji kórinn birtist að það fylgdi honum annar kórstjóri...
Ingvar Deddumaður skaust þá og náði í mig og bakaði oní mig pönnukökur við svakalega góðar undirtektir, ég held að ég hafi borðað ca. 57 pönnukökur með sykri (passaði að fá mér bara eina brauðsneið á undan því ég var enn hálfsödd eftir hádegismatinn, eða þannig?). Ingvar missti út úr sér til við frúna í símann að hann hefði bakað, hún var að keyra í stórhríð heim úr Þistilfirði og engdist um af pönnukökutilhlökkun alla leið, en svo var barasta gesturinn búinn að éta þær allar, úbbs...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)