Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Jeminn

Hef lengi verið dyggur aðdáandi Florence Foster-Jenkins, en bara heyrt upptökur en ekki séð.  Gæti dáið.  http://www.youtube.com/watch?v=xdLyL2_mFaA

 


Hverjum dettur í hug að trúa tveggja ára barni fyrir leyndarmáli

og halda að það kjafti ekki frá?  Elín stóra systir er nefnilega með stelpu í bumbunni og það er búið að ákveða nafnið en ekki segja neinum nema Selmu!  Við mamma höfum samviskusamlega reynt að toga nafnið upp úr Selmu og loksins tókst það...  Hver er þetta? - Lára.   En hver er þetta? - Amma.  En hver er þetta? - Elín.  En hver er þetta (og þá benti ég á bumbuna) - xxxxx!!!! og nafnið kom, jíhaaaa...  Litla systir Selmu á sem sagt að heita voða fínu nafni og við mamma skömmuðum Elínu ekki neitt.

Annars sitjum við kellur og bökum sörur á fullu (ég greinilega alveg á fullu, þurfum bara að bíða eftir ofninum) og uppskriftin er svo stór að það þurfti að ná í risastóru bolluskálina niður í kjallara til að blanda deigið.  Þeir sem þekkja Elínu vita að partýin hennar eru fjörug og bolluskálin væn eftir því.

Í gær þóttumst við alls ekki vera húsmæður heldur vorum allan daginn í bænum og stóðum okkur mjööööög vel...  Ég var sérstaklega dugleg í hjólabúðinni, Elín segir að ég sé nörd.  Nældi líka í kjól og fleira fínt.  Fáum svo mikið taxfree til baka að við gætum keypt heila búð bara fyrir gróðann mwahahaha.  Förum samt í mollið á morgun.


Djörmaní hír æ kom

Er að fara til Þýskalands í fyrramálið, fyrst kórferð og svo heimsækja Elínu.  Svo fer ég aftur til Þýskalands eftir mánuð, fyrst heimsækja Elínu og svo stóra bróður Ágústar (vissi einhver að hann ætti stóran bróður?).  Æfði mig í þýskunni áðan, hringt í vitlaust númer og spurt sprechen sie deutsch og jújú, vitlausa-númers-konan hafði hitt á deutsch-sprechandi mig og þá vildi hún endilega kaupa af mér bíl, verst að ég vildi ekki selja henni bíl (og hét ekki heldur Tanja eins og konan sem átti að selja henni bílinn), er ekki einu sinni viss um að daman hafi vitað til hvaða lands hún var að hringja eða hvers vegna skyldi þýsk kona vilja kaupa bíl á Íslandi og búast við að sá/sú sem vilji selja bílinn tali þýsku.  Já og hvers vegna skyldi nokkur maður vilja eiga bíl á Íslandi þegar það er hægt að eiga bíl í Þýskalandi og keyra um á þýskum átóbönum.  Adrian tengdasonur mömmu og mágur minn skilur t.d. ekki hvers vegna mamma keypti sér þrusuflottan hraðbrauta-audi með alls konar æðislegum aukabúnaði og risavél til að keyra um á holóttum og hlykkjóttum íslenskum sveitavegum.  En þá er ég komin út í allt aðra sálma. 

Talandi um sálma, söng í jarðarför um daginn (sosum ekki í frásögur færandi) og einn sálmurinn var aldeilis með þeim furðulegri sem ég hef séð, heyrt eða sungið.  (Takið eftir ótrúlegum frumleika í 4. erindi.)

Svona byrjar 1. erindi: Dagur líður, fagur, fríður,

Svona byrjar 2. erindi: Líður dagur, fríður, fagur,

Svona byrjar 3. erindi: Dagur fríður, fagur líður.

Svona byrjar 4. erindi: Eyðist dagur, fríður, fagur (næsta lína: fagur dagur...)


Så skal vi altså flytte til Danmark

Eftir að eiginkonan benti eiginmanninum góðfúslega á að hætta að skipta reglulega um framhaldsnámsland þá ákvað hann að ákveða að fara til Danmerkur, sækja um núna fyrir mánaðarmót og fá svar fyrir áramót og byrja 1. apríl ef hann fær brúklega stöðu.  Þetta er svo gjörsamlega rífandi ákveðið í tætlur að hann er nú helst ekkert að segja neinum það svona ef ske kynni að... (...hann t.d. skipti um skoðun???).  Til öryggis ætti ég kannski að halda mig við gamla trikkið að segjast ekki vera að flytja eitt eða neitt fyrr en ég er komin með flugmiðann í hendurnar.  Las reyndar í mogganum minnir mig að í hollívúdd (eða var það metrópólitan) teljist maður nú varla kominn með hlutverk fyrr en maður er búinn að leika það, fá borgað, kaupa í matinn fyrir peninginn og sjálfsagt skila afgangnum út um hinn endann.  Skv. því tilkynni ég ekki hvert við flytjum fyrr en við flytjum heim aftur 10 árum síðar.


Dóra stóra á afmæli

Febrúar '05 009

Þessi fallega fermingarstúlka á afmæli í dag og er orðin 27 ára.  Við kynntumst fyrst í Gradualekórnum árið 1995 og mér fannst Halldóra hrútleiðinleg.  Alveg glatað að hún bjó líka í Kópavoginum og við vorum alltaf samferða.  Að hennar sögn breyttist viðhorf mitt þegar kom í ljós að hún átti flygil...  Nú eftir að þessi fyrsti erfiði hjalli var að baki (og hún var hætt að nöldra í mér út af skónum mínum, löng saga) urðum við agalega góðar vinkonur og hún er barasta ansi skemmtileg.  Við sungum náttúrulega saman í Gradualekórnum alveg endalaust, svo kom hún í MR, svo erum við samtals 1/3 af hinum fræga matarklúbbi, svo sungum við saman í Kór Langholtskirkju, Graduale Nobili (myndin er frá furðulegum nobili-tónleikum) og Kammerkór Langholtskirkju, hefur m.a.s. sést til okkar beggja í einu syngja með Mótettukórnum en ekki segja neinum.  Í gamla daga meðan Halldóra var nógu vitlaus fórum við líka í alls konar skrýtin ferðalög eins og frækna hjólaferð til Vestmannaeyja, gengum á fjöll og soleis en Halldóra hefur bara þroskast meira en ég.  Núna er hún einhvers konar ofurlíffræðingur eða eitthvað í mastersnámi í lýðheilsublabla og er geðveikt klár.


Ågust ska' være en kvinnesygdommelæge

Ágúst er að reyna að velja sér land fyrir sérnám.  T.d. kemur Danmörk til greina, einn gallinn er að danskan er hið versta mál (enda skilur ekki nokkur maður dönsku, ekki einu sinni Danir)

http://www.youtube.com/watch?v=s-mOy8VUEBk

 


Mælirinn svo gjörsamlega troðfullur að flæðir upp úr öllum keröldum

angry_man

Vaaaáááá hvað ég gæti skrifað langa færslu um ýmsar ástæður þess að fólk kýs að búa í eigin húsnæði og helst í sérbýli.


Ég á afmæli í dag!

Jibbí gaman að eiga afmæli. Dagurinn reyndar enn sem komið er ekki öðruvísi en aðrir.

Björgunarsveit, bjargaðu sjálfri þér!

Ég var í rötunaræfingaferð upp í Tindfjöllum um síðustu helgi, þvældumst um í smáhópum í alvöru ratleik eftir hnitum og stefnum og miðum og lallala, minn hópur villtist bara einu sinni... (kom reyndar í ljós að það var vegna segulskekkju, við vorum ekki svona miklir aular).

Á sunnudeginum löbbuðum við síðan norður yfir og enduðum á Fjallabaksleið syðri.  Með í för voru 40 nýliðar á 1. ári (B1) 10 á 2. ári (B2) og svo "alvöru" flugbjörgunarsveitargaur.  B2-mannskapurinn er frekar óheppinn, einn slasast í hverri ferð og það í stafrófsröð.  Einn af þeim tognaði á ökkla og þá var farið að leita að teygjubindi, kom í ljós að ég litli nýliðinn var eina manneskjan með sjúkratösku (get ekki annað, allavegana ef ég er í flíspeysunni minni með ísaumaða Wilderness First Responder merkinu sem þýðir að ég er sérmenntuð í skyndihjálp í óbyggðum, annað væri agalega vandræðalegt) og þegar ég spurði hvort ég ætti ekki bara að henda töskunni niður til þeirra (B2) og hvort þau kynnu ekki að vefja báðu þau mig bara að koma niður...  Svo virðist ég þurfa að hafa heilmikið fyrir að sleppa við að læra Skyndihjálp 1 um næstu helgi!

Svo er nú skipulagið sér kapítuli, guð hjálpi þeim sem þarf að bjarga ef það er sami mannskapurinn sem skipuleggur ferðalög nýliða og alvöru björgunaraðgerðir... (æfinging sjálf var sko vel skipulögð en allt hitt ó mæ god)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband