17.10.2009 | 18:38
Alveg eins gott að halda þessu áfram...
Þau stórtíðindu urðu í Lindeparken síðasta laugardag að húsfreyjan varð þrítug. Vegna einangrunar í Horsens hétu báðir afmælisgestirnir Ágúst. Þeir sem ég þekk(t)i í Horsens eru annaðhvort fluttir til Íslands eða stálust í heimsókn þangað akkúrat meðan ég átti afmæli, hnuss. En við héldum bara fjölskylduboð í staðinn, elduðum dýrindis önd og höfðum það huggulegt. Síðan hefur verið haustfrí í skólanum síðustu viku og ég hef legið með tærnar upp í loft að lesa afmælisgjafir. Tengdapabbi sendi mér Litlu stúlkuna með eldspýturnar eða hvað hún nú heitir eftir Stieg Larsson og Ágúst gaf mér (m.a.) Karla sem hata konur eftir sama höfund (kannski svolítið villandi skilaboð að fá svoleiðis bók frá eiginmanninum? ). Tengdamamma prjónamaskína sendi ullarpils OG peysu OG kraga, allt rosa flott, pabbi samdi heilan lofsöng (grínlaust, kvæði sem fer upp á vegg ) og mamma ætlar að gefa mér nördahlaupa-gps-púlsmæli sem er á leiðinni í pósti. Hallveig systir Ágústar er snargalin og er búin að senda TVO pakka! Konfekt og gæjaföt á litla kút í fyrstu atrennu og svo pæjuhúfu í töku tvö, geri aðrir betur! En það hlýtur að vera hálfgert ellimerki að ég fæ hálfgert samviskubit yfir að fólk sé að eyða peningum í gjafir handa mér, ég man ekki betur en að hingað til hafi ég ekkert kippt mér upp við svoleiðis...
Önnur stórtíðindi á heimilinu eru að við erum búin að eignast vídjóvél. Það er ekki erfitt að giska á hvað er uppáhaldsmyndefnið, vinir og ættingjar eiga eftir að sitja í súpunni og neyðast til að horfa á ENDALAUS myndbönd af Ágústi Ísleifi að bora í nefið, Ágústi Ísleifi að segja dadada, Ágústi Ísleifi að detta á rassinn etc., allt óritskoðað, óklippt og óstytt.
Jólahaldið: Við verðum í Horsens um jólin, tengdapabbi og tengdamamma og Hallveig systir Ágústar verða hjá okkur og kannski pabbi líka (mamma verður í Þýskalandi hjá Elínu að taka á móti þriðja krúttinu þar á bæ), Hans bróðir Ágústar (sem býr í Þýskalandi) kemur í skreppitúr fyrir jól, reyndar ekki enn þá ljóst hvort hann nær að hitta foreldrana og Hallveigu. Ég ætlaði að koma til Íslands fyrir jól og spila jólasöngvana í Langholtskirkju en gugnaði loksins á því í gær. Kem þá ekkert fyrr en í febrúar þegar ég spila Pétur og úlfinn á orgel í Langholtskirkju!
Nú er þetta orðið gott og Barnaby að fara að byrja í danska sjónvarpinu (nei, við eigum ekki sjónvarp, en það má alveg laumast til að horfa á eina og eina mynd á netinu).
Athugasemdir
Þú ert engri lík Lára mín, loksins er þú ferð af stað með fréttir hér. Það hafa margir sakknað
þessa
Tengdó (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 19:35
Gaman að heyra af ykkur! Á svo ekki að fara í bíó og sjá myndirnar? Eða eiga þær eftir að skemma? ;)
Ég kem til Odense seint að kvöldi 23. október og fer heim 3. nóvember þannig að það er aldrei að vita nema við getum hist eitthvað? Heyri í þér þegar ég kem út a.m.k.
Dagbjört (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 21:55
Nei, til hamingju! En virðulegt, komin á fertugsaldurinn ;) Karitas biður að heilsa kæró :)
Guðný (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 10:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.