Kúr og púl

Það er svo gott að kúra, það finnst Ágústi Ísleifi allavega. Jafngildir heilum panodil-stíl að kúra hjá pabba og mömmu þegar eitthvað er að angra piltinn.  Búið að vera mikið af slíku undanfarið, tennur, eyrnabólga, svínaflensa (já eða bara kvef) og reyndar hefur kúr + stíll ekki alltaf náð að bjarga nætursvefninum, en ástandið er loksins að lagast.  Þau tíðindi gerðust í gærkvöldi að við skelltum rúminu hans inn í barnaherbergið og hann svaf þar til kl. 4 í nótt, þá vældi hann nógu mikið til að ég nennti ekki að standa í að svæfa hann aftur og þurfti þar að auki að affrysta barnið því sængin tollir illa ofan á bröltorminum.  Það var líka ósköp notalegt að fá hann upp í að kúra InLove.

Stráksa er að fara fram í "skriði", núna fer hann um á maganum, ekki hratt, en seiglast áfram á gremjunni (rymur í hvert skipti sem hann spyrnir) og maður þarf aðeins að hugsa um hvað hann getur náð í, forðaði t.d. saumadótskassanum frá honum áðan áður en hann borðaði títuprjónana og skærin.

En yfir í sjálfshólið að vanda, smá um heimilismyndarskapinn: 

Við settum upp "wall of fame" í gær, keyptum stafla af römmum og skelltum upp viðurkenningarskjölum og tónleikaplakötum í skrifstofunni, með ríflegu plássi fyrir viðbætur Cool

Svo er ég með metnaðarfull áform um gluggatjaldasaum, þ.e. breyta stofugluggatjöldunum úr Sjafnargötunni svo þau passi í borðstofuna og gestaherbergið og græja ný gluggatjöld í skrifstofuna.  Gömlu tjöldin í borðstofunni voru of ljót til að mega hanga uppi og þau í skrifstofunni sundurétin af sólinni.  Og það voru engin gluggatjöld í gestaherberginu því þar var engin gluggi...  Ætla í saumabúð á eftir að kaupa fansí pansí borða til að sauma aftan á sem gluggatjaldastöngin er svo þrædd í gegnum á nokkurra cm fresti, ætla rétt að vona að þeir eigi svona í Horsens eins og í Reykjavík.

Og puttarnir eru aðeins að grænkast, ég hreinsaði rósabeðið fyrir utan stofuna sem var búið að breytast í fífla-/grasbeð (tók nokkra daga) og klippti niður rósirnar (árans þyrnarnir) og tætti hellings mosa úr grasflötinni og sáði í sárin (tók marga daga), bíð núna eftir að rósirnar blómstri og grasið spretti.  Nja það er kannski ekki hægt að segja að ég bíði beinlínis eftir að grasið spretti, það er rétt kominn maí og þarf að slá á viku til 10 daga fresti nú þegar, hvernig verður þetta í sumar púff.  En ég bíð allavega eftir að nýja grasið spretti.  Og ég bíð líka eftir að einhver með virkilega græna fingur, eða bara virkilega duglegur, komi í heimsókn og geri allt hitt sem þarf að gera í garðinum, almáttugur hvað allt vex hratt hvort sem það á að gera það eða ekki.

Smá messuhugleiðingar í lokin - ég spilaði í sveitamessu í gær þar sem safnaðarsöngurinn er alveg dásamlegur, allir syngja sem mest þeir mega og ef þeir gera það ekki skammar presturinn þá.  Ég þen orgelið sem mest ég má því annars heyrist ekki í því fyrir söngnum.  Þandi það líka í eftirspilinu og hlaut að launum ekki bara klapp heldur uppklapp W00t.  Kom svo heim mátulega til að hlusta á íslenska útvarpsmessu á netinu.  Við Ágúst fórum í hefðbundna gettukeppni um kirkju, organista og prest (er það ekki á öllum heimilum?) og höfum aldrei klúðrað því eins illilega.  Vissum prestinn um leið (en það hjálpaði lítið því það var María héraðsprestur sem getur verið hvar sem er), grunaði fljótlega hvaða orgel þetta væri en það stóðst samt ekki að það væri réttur organisti, svo missti María líka út úr sér að messan væri í Háteigskirkju en við neituðum samt að trúa að þetta væri DB að spila.  (Ókei þetta er soldið hardcore messunördadæmi).  En jújú svo var afkynnt að DB spilaði svo við þurftum að éta allt oní okkur (en það var ekkert mál því ég eldaði svo fína grasamjólk og það rennur allt ljúflega niður með henni Tounge).  Núna vitið þið hvað fer fram á organistaheimilum á sunnudögum...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

hehe var DB bara að standa sig?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 4.5.2009 kl. 12:07

2 identicon

Ég elska að heyra um nýjan nördaskap

Jóhanna Dagbjartarsystir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 11:50

3 identicon

Er enþá bara kúr og púl

Amma G (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband