30.3.2009 | 22:03
Prrr...
Við mæðgin tölum sama tungumálið, Ágúst Ísleifur purrar heil ósköp sérstaklega þegar hann er pirraður, og ég er hundpirruð núna því mér tekst ómögulega að setja inn flottu myndirnar sem ég var að taka af guttanum. Blessuð tölvan mín þyrfti bara að komast á heilsuhælið í Hveragerði eða spa-meðferð einhvers staðar, já og kannski eigandinn með, teldist það þá fjölskyldumðferð?
En engin ástæða að vera með pirr og volæði, ég sem var í svo dandalagóðu hrökkbrauðspartíi í Randers sem er úti í ra...ti einhvers staðar fyrir ofan Árósa. Ég fór nú ekki alla leið þangað bara til að éta hrökkbrauð, ekki einu sinni þó að það hafi verið mysuostur ofaná, heldur var Ágúst að syngja á kórtónleikum sem enduðu í þessu líka rokna stuði. Ég hef komið í veglegri kórpartý.
Ég hafði reyndar prýðilegt tækifæri til að pirrast yfir þvottavélinni í dag, hún þvoði bleiurnar svona agalega illa að það var bara pissufýla og ég veit ekki hvað. Kom síðan í ljós eftir heilmiklar pælingar og rannsóknir að Ágúst hélt að ég hefði sett vélina af stað, en ég hélt mjög eindregið að ég hefði sagt Ágústi að gera það, m.ö.o. bleiurnar fóru inn í vélina og svo út úr henni aftur og ahemm upp á snúru, síðan niður af snúrunni og inn í vélina aftur og húsfreyjan ýtti á start og fyrirgaf þvottavélinni. En það er auðvitað ágætis sparnaður að hengja pissubleiurnar bara upp, eintómt pjatt að vera alltaf að þvo þetta...
Kannski lokapirrið sé yfir harðsperrunum í lærunum, ég verð alltaf jafnhissa þegar þetta gerist, og ég liðkaðist lítið við það að tölta niður í bæ og kaupa í matinn, er orðin algjör sérfræðingur í að versla með iðandi orm framan á mér í burðarpoka, held að hann eigi hreinlega eftir að hoppa upp úr pokanum einn daginn ef hann nær spyrnu einhvers staðar. Hann náði reyndar svo góðri spyrnu í rúminu sínu þegar ég var að reyna að koma honum í háttinn áðan að hann dúndraði kollinum í brúnina á rúmhliðinni eða hvað það nú heitir með tilheyrandi kúlu og orgi. Væri nær að hann notaði eitthvað af allri þessari hreyfiorku í eitthvað skynsamlegt eins og t.d. velta sér eða skríða, við ræðum þessi mál reglulega við hann en hann situr sem fastast á rassinum og skælir þegar hann er afvelta á maganum, sjálfsbjargarviðleitnin alveg að fara með hann. En svona er það bara að vera smábarn, ekki hægt að kunna allt.
Nú og svo styttist í heimferðina, ég er mikið að klóra mér í kollinum yfir því hvort ég eigi að rjúka af stað snemma á fimmtudagsmorgun og verða samferða Ágústi til Köben (er að fara á námskeið) þó að flugið sé ekki fyrr en síðdegis, eða hvort ég eigi að drösla sjálfri mér, barni og farangri í lestina hjálparlaust seinna um daginn. Veit sosum ekki hvað ég á af mér að gera í Köben eða almáttugur minn hangandi á Kastrup, en það er ljómandi gott að vera með burðarmann og selskap í lestinni. Ætla helst að drösla sem mestu af sumar-farangri með mér núna, þ.e. nota ferðina til að flytja eitthvað sem ég þarf í sumar á Íslandi en þarf ekki hér þangað til. Er m.a.s. búin að kaupa afmælisgjöf handa Ágústi Ísleifi og ætla að kippa henni með, mjöööög flottur pakki og mjög svo í anda móðurinnar snemma beygist krókurinn höfum það bara þannig eða gerum allavega okkar besta til að beygja hann.
Athugasemdir
Ekki nokkur einasta spurning, - nýta kallinn og slappa aðeins af í lestinni til Köben !! Nóg að gera á Kastrup !! Hlakka til að sjá þig Góða ferð xxx
Sigga Pé (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 22:49
Sammála Siggu, þetta segir sig sjálft, það er líka alltaf fínt að hanga á Kastrup, ljómandi góð klósett og allt til alls :)
Auður Agla (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 09:38
Eh, þegar ég fór að athuga málið þá þyrfti ég að hanga í 9 tíma á Kastrup! Soldið langt þó að klósettin séu góð...
Lára Bryndís Eggertsdóttir, 31.3.2009 kl. 11:25
...9 tímar á Kastrup er ágætis æfing fyrir 12 tíma lestarferðina til Gent einn góðan veðurdag
Hallveig (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 17:24
Mér finnst kommentið um klósettin frá Auði alveg yndislega Auðarlegt!!
En ég held að þú ættir að fara bara um morguninn, og alla leið út á Kastrup og skilja dótið þar eftir með hjálp Á stóra og svo ferðu bara í mollið að versla með Á litla ;)
Hlakka til að sjá ykkur mæðgin
Halldóra Viðarsdóttir (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 19:20
Annars get ég sosum ekki sagt að ég sé neitt dolfallin yfir klósettunum á Kastrup, klósettálman í Lindeparken er a.m.k. ekki síðri, sérstaklega dótið og spiladósin hjá skiptiborðinu. Og Á stóri har desværre ikke tid til að lufsast með mér út á Kastrup svo það er lítið gagn að honum nema til að koma mér út á brautarstöð og inn í lest. Held að góður nætursvefn og góður lúr fyrir Á litla komi bara betur út!
Lára Bryndís Eggertsdóttir, 31.3.2009 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.