2.1.2009 | 19:12
Jólakortapistillinn 2008
Árið viðburðaríka hófst með lítinn laumufarþega í maganum á Láru og óljós áform um að Ágúst færi í framhaldsnám erlendis, þó ekki fyrr en hann væri búinn að ljúka einleiksáfanga í orgelleik á Íslandi. Í byrjun febrúar fengum við þær óvæntu fréttir að Ágúst væri kominn með stöðu í sérnámi í kvensjúkdómalækningum í Horsens í Danmörku frá 1. apríl. Við settum allt í gang, Lára skrapp til Horsens og keypti hús, Ágúst spýtti í lófana og flýtti einleikaraprófinu til 22. mars og spilaði með glæsibrag þrátt fyrir skemmri æfingatíma en til stóð. Ágúst flutti síðan út en Lára hélt áfram að spila og syngja á Íslandi, endaði þó með því að hún þurfti að snúa sér að prjónaskap og sjónvarpsglápi í staðinn fyrir orgelleik vegna meðgöngukvilla. Í lok maí mætti Lára til Horsens, gat því miður lítið gert til gagns heldur beið bara eftir að sonurinn fæddist. 24. júní kom Ágúst Ísleifur í heiminn, fallegur og yndislegur. Við fórum með hann til Íslands þriggja vikna gamlan til að sýna ættingjum og vinum og skíra, hann var skírður í Hallgrímskirkju 27. júlí. Lífið í Lindeparken hefur síðan aðallega snúist um litla manninn, en við höfum líka baukað við að gera húsið fínt og tekið á móti mörgum góðum gestum. Við höfum þó gefið okkur tíma til að spila meira á orgel, Ágúst hélt tónleika í Horsens í október og síðan héldum við sameiginlega tónleika í Langholtskirkju í nóvember. Síðast en ekki síst æfir Lára sig þessa dagana á fullu fyrir inntökupróf í Tónlistarháskólann í Árósum í janúar. Skemmtilegast af öllu er þó að fylgjast með Ágústi Ísleifi vaxa og dafna. Hann er byrjaður í tónlistartímum þar sem hann hristir tambúrínur og ber á bumbur, og einnig förum við reglulega í sund og njótum þess að busla. 
Við vonumst til að hitta sem flesta ættingja og vini um jólin á Íslandi, en annars má alltaf fá fréttir af okkur og sjá myndir á bloggsíðunni www.reykspolandi.blog.is. Og auðvitað eru allir velkomnir í heimsókn til Danmerkur!

Athugasemdir
Gleðilegt ár þið þrjú:) Litli gaurinn er svo fallegur og svona líka flottur með slaufuna kallinn:) Gott að allt gengur vel hjá ykkur þarna úti og gangi þér vel að æfa fyrir inntökuprófið Lára efast nú ekki um að þú klárar það með glans...Bestu kveðjur úr Munkanum..Erna
Móðir, kona, sporðdreki:), 2.1.2009 kl. 22:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.