Nefnilega

Mbl. - Sunnudaginn 12. október, 2008 - Aðsent efni

Sýnum mjólkandi mæðrum stuðning

Huld Hafliðadóttir skrifar um brjóstagjöf ungbarna

Huld Hafliðadóttir Huld Hafliðadóttir skrifar um brjóstagjöf ungbarna: "Stuðningur við mjólkandi mæður frá upphafi til enda brjóstagjafar er undirstaða farsællar brjóstagjafar." Alþjóðlega brjóstagjafavikan er nú í fyrsta skipti formlega haldin hátíðleg á Íslandi. Þema vikunnar í ár er Stuðningur við móður: stefnum saman á toppinn og með þessu slagorði leitast skipuleggjendur brjóstagjafavikunnar og WABA (world alliance for breastfeeding action) eftir auknum stuðningi við mjólkandi mæður. Að umhverfi þeirra bjóði upp á að brjóstagjöf sé eina fæða ungbarna til sex mánaða aldurs og svo með fjölbreyttum og næringarríkum mat til tveggja ára aldurs og jafnvel lengur, eins og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með.

Hvers vegna brjóstagjöf?

Þegar dóttir mín fæddist, fyrir rúmum 9 mánuðum, vissi ég sama og ekkert um brjóstagjöf. Ég hafði jú ákveðið með sjálfri mér að hafa barnið á brjósti, en ástæðan var einfaldlega sú að mér virtist það svo mun þægilegra en hita pela með þurrmjólk. Áður en ég átti barnið hafði ég litla hugmynd um hversu mikilvæg móðurmjólkin er ungbarni fyrstu dagana, vikurnar, mánuðina, jafnvel árin. Ég vissi ekki að brjóstamjólk innihéldi um 300 efni (mótefni, ensím, hormón, auk vítamína og næringarefna) sniðin að þörfum ungbarnsins og alla þá næringu sem barnið þarf fyrstu 12 mánuðina (til viðmiðunar inniheldur þurrmjólk 30 af þessum efnum).

Stuðningur og réttar upplýsingar

Þegar kom að því að leggja barnið á brjóst í fyrsta skipti var það bara alls ekki svo auðvelt! Hvað var um að vera? Af hverju byrjaði þessi litla vera ekki bara að sjúga eins og öll nýfædd börn áttu að gera? Hvers vegna hafði enginn látið mig vita að þetta yrði svona mikið bras? Hvers vegna hafði enginn sagt mér að þetta tæki svona á andlegu hliðina? Eða hafði einhver sagt mér það? Ég veit það ekki enn í dag og þó svo að einhver hefði sagt mér frá þessu öllu saman áður en barnið kom í heiminn hefði ég ekki skilið það. Einfaldlega vegna þess að ég gat ekki sett mig í spor nýbakaðrar móður, fullrar af nýjum tilfinningum og upplifunum, ásamt öllu því óöryggi sem fylgir því að hefja fyrstu brjóstagjöfina. Þess vegna tel ég stuðning frá upphafi og til loka brjóstagjafar mjög mikilvægan. Réttar upplýsingar skipta einnig sköpum. Í dag er vitað meira um brjóstagjöf heldur en fyrir 20 árum, en það virðist, því miður, ganga hægt að koma þeim upplýsingum áleiðis til þeirra sem þurfa þeirra með, þ.e.til nýbakaðra mæðra. Þeir sem næst standa vilja allt gera til að létta undir með nýju móðurinni. Henni eru gefin hin og þessi ráð, sem því miður eiga ekki alltaf við rök að styðjast og gætu auk þess átt lítið skylt við brjóstagjöf. Til dæmis má nefna hinar óteljandi fæðutegundir sem mjólkandi móðir ætti að forðast, til þess að barnið fái síður í magann. En það sem fæstir virðast vita er að það er í undantekningartilvikum sem mataræði móður hefur áhrif á það hvort barnið „fái í magann“ eða ekki (og þá helst af völdum óþols og/eða ofnæmisvalda eins og kúamjólkur eða jafnvel fisks). Ungbörn fá oft svokallaða vindverki, sem eiga lítið skylt við lauk, kál, krydd eða annað sem móðirin gæti hafa borðað, þar sem fæðan sem hún innbyrðir er brotin niður í örsmáar einingar og aðeins valinn hluti af henni berst í móðurmjólkina. Það er því ekki á óöryggi móðurinnar bætandi að hún þurfi að tipla á tánum yfir því hvað hún megi eða megi ekki borða.

Gamlar mýtur um brjóstagjöf

Hinar og þessar mýtur lifa því miður enn góðu lífi, þrátt fyrir bættar upplýsingar. Ein sú stærsta sem ég hef orðið vör við er á þá leið að næringarefni móðurmjólkurinnar hverfi eftir að barnið nær 6 mánaða aldri. Að mjólkin verði einfaldlega óþörf, jafnvel óholl og að tími sé kominn til að gefa eitthvað annað í staðinn. Eins og um sé að ræða einhverja töfrastund þegar barnið þarf ekki lengur á þeim næringar- og mótefnum að halda sem móðurmjólkin inniheldur. Að mjólk úr öðru, mun stærra og ólíku spendýri sé jafnvel betri kostur. Þetta gæti ekki verið fjær lagi. Við lifum á tímum upplýsinga og rannsóknir á brjóstamjólk hafa sýnt að næringargildi mjólkurinnar rýrnar ekki eftir því sem barnið eldist. Hins vegar breytist samsetning mjólkurinnar og aðlagast aldri barnsins. Meðallengd brjóstagjafar í heiminum er 4,2 ár, þrátt fyrir að við Vesturlandabúar drögum meðaltalið ansi langt niður með okkar fremur stuttu brjóstagjöfum, sem léttilega má rekja til nútímavæðingar og tímaleysis. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með brjóstagjöf einni og sér til 6 mánaða og brjóstagjöf með fjölbreyttri fæðu til 2ja ára aldurs eða lengur. Stuðningur samfélagsins alls við mjólkandi móður getur skipt sköpum, mjólkandi móðir sem fer út á vinnumarkað eftir barneignarleyfi á ekki að þurfa að hætta brjóstagjöf, mjólkandi móðir á ekki að þurfa að fara afsíðis til að gefa barni sínu bestu fæðu sem völ er á og mjólkandi móðir þarf hvorki á röngum og óviðeigandi upplýsingum né gagnrýni að halda. Sýnum mjólkandi mæðrum stuðning frá upphafi til enda. Með brjóstagjafakveðju.

Höfundur er móðir og áhugamanneskja um brjóstagjöf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er til félag sem maður getur skráð sig í eða samtök til styrktar brjóstagjafakonum? Kannski er hægt að koma á skipti og sölumarkaði nú í efnahagsþrengingum. Ég er t.d. með eitt sett sem afar lítið notað og selst fyrir rétt verð. En það er auðvitað ekki brjóstagjöf, það er brjóstasala.

Sigrún ekkifjárglæfrakona (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband