22.6.2008 | 20:14
Það er ekki sama jólakaka og jólakaka
Bakaði jólaköku í dag (m.ö.o. fimleikarnir í gær dugðu ekki til að barnið reyndi að flýja úr belgnum) nema hvað eftir snarvitlausri uppskrift. Borðaði fyrstu sneiðina og hringdi svo beint í mömmu að heimta "rétta" uppskrift. Ekki það að kakan sé neitt vond, hún er bara ekki eins og hún á að vera.
En svo er ekki sama jólakaka og enska jólakakan hans Ágústar. Yfirleitt eru enskar jólakökur agalega vondar með alls konar eiturbragði (kirsuber, marsipan, möndludropabragð) en óekki, ekki kakan hans Ágústar. Man ekkert hvernig honum datt fyrst í hug að baka þessa köku fyrir mörgum árum en baksturinn varð strax að órjúfanlegri hefð. Kannski ekki margir sem vita af því og hafa smakkað kökuna því okkur finnst hún svo guðdómlega ljúffeng að við tímum henni helst ekki ofaní óvita , bara þeir sem geta sýnt það og sannað að þeim finnist kakan yfirnáttúrulega góð fá bita...
Baksturinn fer fram 2 mánuðum fyrir jól, 2 risastórar kökur fullar af hnetum, ávöxtum, súkkati (með góðu bragði, ekki vondu) og súkkulaði af fínustu gerð. Síðan er kakan vökvuð með koníaki í lítravís (ýki aðeins, en samt..) fram að jólum og af hreinni illgirni og þrjósku tekst Ágústi að koma í veg fyrir að ég fái að smakka fyrr en jólin eru komin (tókst samt að væla út bita aðeins fyrr síðustu jól )
Stóra vandamálið með síðustu köku var reyndar óléttuhysterían, kakan hefur stundum orðið svo rammáfeng að að eftir eina sneið ei aki neinn (æ þetta rímar ekki). Ágúst brá því á það ráð til að vera sjálfum sér samkvæmur sem læknirinn á heimilinu að vökva aðra kökuna miklu minna svo verðandi barn kæmist óskaddað gegnum jólahátíðina.
Meðal-Daninn hefði nú ekki haft svona miklar áhyggjur, hér þykir alveg normalt að sulla í solitlum bjór og léttvíni, bara ekki neitt aaaallltof mikið. Þarf ekki að segja neitt um reykingarnar, en var samt að lesa í danskri fæðinga- og brjóstagjafabók að að það sé best að fá sér að reykja strax eftir brjóstagjöf frekar en á undan (eða á meðan??). Svo var líka tillaga um að setja reykingareglur á heimilinu, líka fyrir gesti, og láta ekki á sig fá þótt fólk hneykslist á því...
Er orðin mjög sleip í dönskum fæðingarorðaforða eftir að hafa dúndrast gegnum slatta af bókum og bæklingum, uppáhalds orðið mitt er "millikjöt", mellemködet, sem á íslensku útleggst spöng (sem er álíka skondið orð). Þeir sem vita ekki hvar spöngin er þurfa ábyggilega ekki á því að halda.
Svo kalla Danirnir sprellann í fúlustu alvöru "tissemand", mér finnst það alveg hreint dandalafyndið. Hélt að kannski notuðu þeir þetta bara sem krúttlegt hugtak yfir smáguttatyppi (í bókinni var verið að fjalla um umönnun smábarna, ekki hvernig viðkomandi smábarn varð til), en Ágúst fræddi mig á því að fullorðinstyppi hétu líka pissimenn.
Athugasemdir
Ég get bara ekki annað gert en að reyna að gera mér í hugarlund svipinn á barninu þegar þú skellir þér í handstöðuna. Ég hneykslast nú ekki á þessu. Sumar (ofvirkar) konur eru með alls konar sprell alveg kasóléttar. Hvað hét hún aftur dökkhærða, hnellna karatekellan með sviputaglið í hárinu sem hoppaði og skoppaði um allt í kumite og kata alveg kas. Eitthvað Ólsen, ef ég man rétt. Anyhew, þetta er bara snilld. Ánægður með þig.
Einar Clausen (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 00:17
Ja kakan hans Agustar Inga er god en eg get hugsad mer ad jolakakan tin se lika god. En ad odru, ertu buin ad gera vogguna klara?
kv tengdo
Hallveig Guðný Kolsöe, 23.6.2008 kl. 11:17
Uss, ég hlustaði sko alveg á Danina með þetta með vínið - já, og reykingarnar, læknirinn minn var ekki hrifinn af reykingum á meðgöngu og með barn á brjósti. En þeir vildu meina allt í lagi að fá sér eitt og eitt glas, bara á meðan maður varð ekki drukkinn og drakk ekki daglega. Börnin mín eru líka þokkalega langt frá því að vera haldin áfengisskaðaeinkennum, eins og þú veist :p
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 26.6.2008 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.