17.4.2008 | 08:34
Hótel Mamma
Mér var mokað út úr Sjafnargötunni í gær, ég reyndi að (þykjast) gera gagn og segja mömmu og Gísla og tengdamömmu til en sá að ég réð hvorteðer ekkert við þetta lið og lagist í bælið og flúði svo á kóræfingu upp í Grafarvog. Af einhverjum ástæðum virðist belgurinn á mér líta á kórstjórn sem erfiðisvinnu og var friðlaus allan tímann þó ég sæti bara við píanóið og röflaði í kórnum, púff.
Ég fór til læknis á mánudaginn og hún sagði að samdrættirnir væru í sjálfu sér ekki að gera neinar skammir af sér (allavegana eins og er) en þarf samt að ná þeim niður. Ég er búin að gera mitt besta að hanga í bælinu en ég er orðin svo leið á því að mér fannst hundfúlt að fara að sofa í gærkvöldi, og í x. skiptið sem ég vaknaði og sinnti hefðbundnum óléttuerindum var ég ferlega svekkt að klukkan væri ekki nema 4 svo það þýddi ekkert að fara á fætur!
Fer að hitta ljósmóðurina á eftir og ætla að segja henni tröllasögur af því hvað belgverjinn sé stór og sterkur og verði nú alveg sérstaklega fínt barn og líkt foreldrum sínum og gáfað etc, ætli sé ekki heilmikið álag að vera ljósmóðir og þurfa að vera sammála öllum hormónafullu mömmunum sem eru sannfærðar um að annað eins barn og þeirra muni aldrei fæðast!? Ljósurnar hugsa kannski "kommon ekki halda að þinn krakki verði merkilegri en allir hinir grenjiormarnir"
Síðan er æsispennandi hvort ég kemst lifandi gegnum að syngja heilar tvær jarðarfarir eftir hádegi (veit um allavegana einn í hvorri jarðarför sem kemst ekki lifandi frá því, ohhh ósmekklegur húmor) og ef það endar með skelfingu ætla ég að losna við að spila á tónleikum með Kammerkór Langholtskirkju á sunnudaginn (var einmitt verið að auglýsa mig í útvarpinu, mar má ekki kveikja á apparatinu án þess að heyra "Lára Bryndís Eggertsdóttir leikur á orgel", heimsfrægðin handan við hornið)
Einhvern tímann þarf ég svo að koma með skýrslu um furðuleg samskipti mín við Fæðingarorlofssjóð, en ég verð svo skapvond af því (m.ö.o. fæ geðprýðiskast) að ég þarf að vera vel undirbúin andlega (þ.e. búin að borða nóg súkkulaði).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.