7.2.2008 | 14:11
1. apríl!!!!
Danskurinn er snemma í því að undirbúa aprílgabbið í ár, þeir gerðu sér lítið fyrir og tóku Ágúst inn í framhaldsnám í kvensjúkdómafræði í Horsens á Jótlandi og þar á hann að byrja 1. apríl, við trúum því allavegana þar til annað kemur í ljós!
Við erum búin að vera í samfelldu sjokki síðan á mánudag þegar fréttirnar komu, en dagurinn byrjaði einmitt á því að ég fletti fasteignablaðinu í kvefpestar-hálbólgu-leti-aumingjaskap mínum á Akureyri og sá auglýst þetta fína hús í Odense á fínu verði. Ég hringdi í Ágúst og sagði honum að flott hús kostuðu ekkert svo mikið þarna úti, ættum að geta fundið okkur prýðilegt hús þegar þar að kæmi. Svo hringir hann seinna um daginn hálf-orðlaus og segir mér að kaupa húsið, hann sé kominn með stöðu!
Staðan er reyndar ekki alveg kyrr á sama stað, fyrst er 1 1/2 ár í Horsens, svo 1 1/2 ár í Odense (100km á milli) og svo aftur til Horsens í óákveðinn tíma, jafnvel nokkur ár. Eftir miklar pælingar um hvar væri best að búa ákváðum við að finna bara hús í Horsens og sjá svo til hvað við gerum þegar drengurinn fer að vinna í Odense.
Ég hef síðan staðið mig mjög vel í húsnæðisleit og er komin með draumahúsið rétt hjá spítalanum, þriggja hæða einbýlishús með MÖRGUM GESTAHERBERGJUM!!! (sem fyllast kannski strax af börnum, þið verðið að vera fljót að koma í heimsókn...). Erum að vinna í því í fúlustu alvöru að kaupa hús sem fyrst, þetta er alveg rosalegt. Já og risa-einbýlishús kostar sama og meðal-merkileg íbúð í Reykjavík!!!
Sem stendur er planið þannig að Ágúst fari út á einhverjum skynsamlegum tíma, en fyrst þarf hann að láta hendur standa fram úr ermum og klára einleiksprófið á orgel með svaka tónleikum! Hann ætlar að drífa í því að taka út sumarfrí fljótlega og einbeita sér að orgelinu. Ég verð áfram heima til að byrja með og klára mína plikt í Grafarvogskirkju o.fl. (já og vinn mér inn peninga áfram, ekki geri ég það í Horsens), mæti bara út til að segja Ágústi hvar húsgögnin eiga að vera og læt hann svo sjá um rest hehe. Síðan færi ég út seinnipartinn í maí (á að geta flogið vandræðalaust út maí) og er þá bara föst úti þar til unginn fæðist 1. júlí kl. 15:03 (svona sirka), eftir það vitum við ekkert hvað gerist, ef Ágúst fær sæmilegt orlof komum við heim í smátíma en annars verður bara allt að koma í ljós...
Það þýðir allavegana lítið að ég sitji heima á Íslandi og fæði meðan Ágúst er úti því ef ég er snögg að hlutunum gæti hann hreinlega misst af fjörinu, hins vegar þarf hann ekki einu sinni að koma heim úr vinnunni ef mér liggur á úti í Horsens
Hér er svo Horsens, aðalpleisið í Danmörku, þarna fyrir neðan Árósa.
Athugasemdir
Hæ, svakalega er þetta spennandi. Ertu búin að kaupa húsið? Ég prentaði út kortið til að vera viss um að rata til ykkar og pant fá minnsta herbergið á jarðhæðinni með glugganum, sem snýr út í garðinn.
Hallveig Guðný Kolsöe (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.