Af ófærð og annarri vitleysu

Það var meira og minna ófært fyrir gangandi vegfarendur á Akureyri allan tímann sem ég var þar, þvílík manndrápshálka að ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta þegar ég kjagaði milli staða.  Una frænka er að læra lögfræði í Háskólanum á Akureyri og hleypti mér sko aldeilis ekki óstuddri niður útitröppurnar hjá sér, ætlaði sko ekki að láta mig lögsækja sig ef ég dytti (var nýbúin að taka kúrs um skaðabótakröfur...).

Síðan kom að heimferðinni, búið að spá freeeeekar vondu veðri á miðvikudagskvöldið og spurning hvort vélin slyppi suður.  Ekki er ég nú flughrædd, en hins vegar flugveikust (og bílveikust og sjóveikust og m.a.s. vindsængur- og tívolítækjaveikust) í heimi.  Og hvað gera lyfjaheildsalar? Klikka á því að eiga lager af bílveikipillum.  Bílveikipillur eru uppseldar á landinu!!!!  Það er að vísu til önnur tegund en ég nota (brúka koffínátín), þ.e. postafen, en það gerir nákvæmlega ekki neitt fyrir mig, komst að því mér til mikillar skelfingar í 12 tíma flugi til Afríku.  Ég bjóst því við hinu versta þegar ég steig inn í vélina, og það rættist.  Ældi hérumbil alla leið í hristingi dauðans og hélt áfram eftir að vélin lenti.  Flugfreyjan hafði nóg að gera við að taka á móti ælupokum og afhenda nýja (þurfti 3).  Vildi til að ég sat ein aftast þannig að það þurfti enginn að kveljast með mér...

Og svo kemur vonda veðrið aftur og grey mamma sem ætlaði til Elínar í morgun situr úti á Leifsstöð og gæti þurft að bíða lengi!  Reyndi að hringja í hana áðan til að biðja hana um að tékka hvort leynist koffínátín í apótekinu í fríhöfninni, en hún er greinilega svo niðursokkin í að nota tímann vel í búðunum að hún svarar ekki.

En það "gerðist" líka dásamlega skemmtilegur misskilningur áðan, ég ætlaði að senda Gísla hennar mömmu sms og spyrja hvort frúin hefði komist skammlaust út á völl, en ákvað svo að kíkja fyrst á netið hvort vélin hefði farið.  Hlustaði á meðan á fréttirnar um brjálaða veðrið í borginni og ákvað að senda eiginmanninum sms um að ég yrði greinilega föst heima að taka til í dag, ekkert ferðaveður.  Nema hvað, var búin að setja inn númerið hjá Gísla og hann fékk óvart tiltektar-sms-ið.  Hann las það og gerði í fljótheitum ráð fyrir að það væri frá mömmu og sendi um hæl "á ég að sækja þig?"  Ég hringdi nú í hann og sagði að hann þyrfti allavegana ekki að sækja mig og við hlógum vel og lengi...

Það rifjaðist líka upp fyrir mér þegar ég ætlaði að senda einni Auði í söngskólanum sms um að sækja einhverjar nótur á einhvern stað í söngskólanum, henni gekk illa að skilja hvað ég átti við, ég reyndi að útskýra betur, ekki skildi hún betur, svo kom að lokum sms "þetta er Auður Agla" sem er allt önnur Auður, var snarvitlausu Auðina farið að gruna að það væri einhver maðkur í mysunni.  Ég fór náttúrulega að skellihlæja og hringdi strax í hana til að útskýra misskilninginn og romsaði heil ósköp, en þá skildi Auður ekki neitt hvað ég var að blaðra, enda hafði ég þá óvart hringt í söngskóla-Auðina sem kom alveg af fjöllum, gaaaahhhh.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru margir skemmtilegir rangir misskilningar :) Og ekkert svo skemmtileg flugferð... Það er svo ógeðslegt að æla að ég fæ samúðarvontbragð í munn og nef við að lesa þetta.

Dagbjört (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband