Horus horribilis og æfingus ojbarastus

Aldeilis munur að hafa lært læknisfræði og geta slegið um sig á latínu.  Best að þeir sem eru viðkvæmir fyrir líkamsvessum lesi ekki lengra því nú ætla ég að opna fyrir allar mínar horugu hugsanir.  Hafi einhver haldið að hjólreiðar snerust bara um að hjóla og þar geri menn ekkert nema að snúa löppunum í hringi þá er það misskilningur.  Færni í hjólreiðum er allavegana aukaatriði, það sem mestu máli skiptir er góð neftæmitækni.  Málið er að hið eilífa skítaveður á Íslandi er mjög ertandi fyrir slímhúðina í nefholinu og þegar við bætist áreynsla verður úr óhófleg horframleiðsla.  Ef nefið er ekki tæmt reglulega er hætta á að hortaumar leki út (eða sogist jafnvel út í vindi eða vegna þess hvað maður hjólar óóóógeeeeeðsleeeega hratt) og klessist út á kinnar.  Því þarf að snýta sér (á ferð) bæði til hægri og vinstri og halda fyrir hina nösina á meðan.  Þá skiptir miklu máli að slumman lendi ekki á hjólafélögum því þá tala þeir ekki við mann framar, eða hefna sín jafnvel.  Svo þarf að velja skotáttina vel eftir vindátt og stundum getur verið ómögulegt að tæma aðra nösina í lengri tíma í vondri átt og þá er mjög hætt við áðurnefndu horútsogsvandamáli og taumum út á kinn.  Eitt stærsta vandamálið hjá mér er svo að reyna að fá ekki hor í hárið, tek stundum ekki eftir því fyrr en næst þegar (ef) ég fer í sturtu.  Og þetta mál er alls ekki léttvægt, því öfugt við það sem margir kunna að halda í einfeldni sinni þá er hor (allavegana mitt) mjög ætandi og eitrað, getur valdið malbiksskemmdum, tætt í sundur dekk, gert göt á föt, eyðilagt hanskana sem maður notar við að þurrka framan úr sér, drepið smádýr t.d. hunda sem á vegi manns verða (ætti að beita því á hund fúlu konunnar við Gróttu) og svo mætti lengi telja.

Ég hef að sjálfsögðu samið lag um snýtingar. (Lag: "Eitt skref til hægri og tvö skref til vinstri")

Eitt snýt til hægri og tvö snýt til vinstri - snýta snýta snýta snýta snýta snýta hor.

En víkjum aðeins að hjólreiðahluta hjólamennskunnar.  Æfing dauðans í gær, ég hélt að það yrði skítaveður og stutt æfing, tók ekki með nesti og fyllti ekki einu sinni hjólabrúsann.  Endaði með því að ég lafði aftan í Íslandsmeistaranum og ofur-Hjólamanni og 2 öðrum gaurum sem ég þekki ekki í 2 1/2 tíma upp í móti og móti vindi alla leið, ég segi það satt.  Sprakk reyndar tvisvar hjá öðrum óþekkta (óþekka) gaurnum, fyrst á hjólinu og svo sprakk hann sjálfur og fór heim (fór allavegana heim hvort sem hann sprakk eða ekki).  Hinum tókst ekki að sprengja mig fyrr en eftir 2 tíma, en þá dró ég fram neyðar-orkugelið úr hnakktöskunni og drakk líka hálfan brúsa hjá næsta manni og varð aftur spræk sem aldrei fyrr (eða soleis).  Ég ætla að prófa að mæta á stelpuæfingu í dag til að fá smá föstudag-afslöppunarfíling, nú eða kannski spæna þær líka eins og vitlausar, kemur í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gætir náð stórkostlegum frama sem hjólasendill hér í Köben. Þú yrðir ein af þessum grænklæddu, ofurstæltu rakettum sem skjótast á milli áfangastaða með hvatningarópin í talstöðinni. Samt gott að vera mjög varkár í snýtingunum hér á fjölmennum hjólastígunum. Ekki það að ég myndi kippa mér upp við eina slummu eftir að ég fékk sígarettuna í fangið í fyrra.

orgelstelpa (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband