6.4.2007 | 13:30
Velvakandi Moggans - ælovit
Góðan dag.
NÚ GENGUR senn í garð helgasti árstími okkar kristinna manna. Það er ljóður á ráði að það virðist vera sem helgistundum fylgi mikil óráðsía. Á jólunum liggja börnin organdi og heimta sífellt stærri pakka, í stað þess að minnast fæðingar Krists. Á páskunum liggja börnin organdi í sykursjokki eftir að hafa graðgað í sig súkkulaði í lítravís. Ég þoli ekki börn. Sjálf átti ég erfiða æsku og hagaði mér aldrei eins og barn. Ég var ekki alin upp við stanslaust gjafaflóð, heldur var ég látin vinna fyrir mat mínum og var reglulega hýdd. Þess ber ég enn merki. Þá var ég ekki ánægð með þessa meðferð, en í dag sé ég að hún var mér fyrir bestu. Ef ekki hefði verið fyrir umræddar barsmíðar lægi ég liggjandi í gólfinu organdi á meiri sykur og gjafir. Þess í stað er ég þakklát fyrir það sem ég hef og ætla ekki að borða súkkulaði á páskunum. Þó má vera að ég fái mér epli. Og svo eru það fermingarnar. Þegar ég var yngri þótti það munaður að fá á annað borð að vera fermdur. Nú telst enginn maður með mönnum nema hann fái fermingarveislu fyrir mörg hundruð þúsund og helst gjafir, einkum tölvuspil og sælgæti! Þetta ætti ekki að heita ferming lengur. Þetta ætti að heita Óráðsía.Það er að vísu líka nafn á landi en fermingar gætu einnig kallast það.
Fermingarbörn mæta jafnvel í veislurnar á gulum limósíum sem hæfa klámkóngum. Ég vil því skora á þegna þessa lands að koma með okkur félögum í Femínistafélagi Íslands og mótmæla óráðsíunni (fermingunni, jólum og páskum) fyrir utan Hallgrímskirkju á Pálmasunnudag. Hættum að vera gráðug, fáum okkur eins og einn ávöxt til hátíðabrigða en lifum annars meinlætalífi! Að lokum vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir dálkinn Orð dagsins. Þar er oft að finna þarfan boðskap á þessum síðustu og verstu tímum. Knaparnir fjórir nálgast óðum.
Guðrún Jónsdóttir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.