7.12.2010 | 09:50
...og ég er alveg að ná í skottið á sjálfri mér
Það hefur gengið svo mikið á síðan við komum frá Íslandi að ég er fyrst núna að vinna upp bloggleysið. Mamma kom með okkur frá Íslandi og hún er svo hrikalega dugleg að ég varð að vera a.m.k. jafndugleg og náði ekki andanum í þennan hálfa mánuð sem hún var hjá okkur. Til dæmis galdraði mamma gluggatjöld í borðstofuna og ég málaði forstofuna og eldhúsið. Ég tók líka niður gömlu bjölluna fyrir gamla öryggiskerfið (við fengum nýtt stjórnborð) og klippti í leiðinni sundur leiðsluna í hurðarnemann frá kerfinu, úbbs. En það er önnur saga.
Eftir að mamma fór þurfti ég að sofa hér um bil samfleytt í nokkra sólarhringa til að jafna mig eftir dugnaðinn. Gott að Hekla litla er ákaflega rólegt smábarn svo það er alveg hægt að fá sér góðan lúr eftir morgunmat meðan hún tekur fegurðarblund í 2-3 tíma. Því miður er stóribróðir ekki eins rólegur, sérstaklega ekki á nóttunni, en eftir nokkrar læknisheimsóknir var ákveðið í gær að setja rör í eyrun á honum og kannski hugsanlega fer hann þá að kvarta minna á nóttunni. Hann fær rörin 21. desember og þá verður hálf föðurættin mætt til að kæta hann eftir tilstandið.
Þessa dagana er ég að rifja upp sönghæfileika mína, er á stífum kóræfingum með kammerkórnum GAIA í Árósum öll kvöld þessa viku og törninni lýkur með tvennum tónleikum þar sem við flytjum verk eftir Vivaldi með Sinfóníuhljómsveitinni í Árósum, Dixit og Magnificat. Í gær æfðum við í sinfóníusalnum, hann er staðsettur í miðri Tónlistarháskólabyggingunni og ég geng fram hjá dyrunum í hvert sinn sem ég kem í skólann, en samt var ég að koma þangað inn í fyrsta skipti í gær. Það var að mjög mörgu leyti skemmtilegt. Til dæmis var í síðustu viku vígt þrusu-Klais-orgel í salnum sem ég bíð spennt eftir að prófa. Síðan kom mér ótrúlega mikið á óvart að það var góður hljómburður í salnum, ég hafði bara sjálfkrafa gert ráð fyrir bíó-hljómburði, svona er maður orðinn samdauna blessuðu Háskólabíóinu.
Það lendir á Ágústi að sjá um ómegðina meðan ég hobbýast í Árósum en hann vílar það ekki fyrir sér vopnaður eðal-brjóstamjólk í pela og barbapabbateiknimynd í tölvunni. Ágúst Ísleifur er ákaflega hrifinn af barbapabba og verður sennilega altalandi á frönsku innan skamms því við eigum þættina bara á frönsku! Þegar hann horfir á teiknimyndir þá endurtekur hann gjarnan það sem sagt er (ansi bjagað þó...) og það á líka við um frönskuna. Hann talar meira og meira, bæði íslensku og dönsku, en þó aðallega ísleifsku sem enginn skilur nema hann og foreldrar hans. Dæmi:
"Æjah hagúgú" = "Viltu gjöra svo vel að rétta mér hafragrautinn"
"Avvíah khlikki" = "Mig langar að pota í systur mína"
"Onní mah-möh-gu" = "Viltu klæða mig í sokkabuxurnar"
"Æjah túdd" = "Festa lestarvagna saman"
"Keymmbrmbrm" = "Þarna ekur bifreið".
Hann er líka að læra tölurnar á fullu og bendir á húsnúmer og segir stoltur hvað stendur. Það verður þó að segjast að hann er kannski ekki fremstur í flokki jafningja hvað málþroska varðar, en hins vegar er hann að læra tvö tungumál svo það er enginn furða að það grautist dálítið fyrir honum. Það er m.a.s. þekkt staðreynd að dönsk börn eru sein til máls því danskan er einfaldlega svo óskiljanleg að þau botna ekki neitt í neinu greyin
Þessum pistli lýkur að sjálfsögðu með myndum af sætustu stelpu í heimi. Hér er hún í pífubúningi frá ömmu Siggu:
Og hér í skokk sem Elín móðursystir prjónaði af mikilli snilld:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.