Færsluflokkur: Bloggar

Lífið komið í fastar skorður í Lindeparken?

Onei aldeilis ekki, allt snarbrjálað aldrei þessu vant, enda ekkert gaman öðruvísi!

Inntökuprófið góða var á föstudaginn, mér fannst ég kannski ekki alveg fara á kostum í allri spilamennsku en nældi mér samt í fullt hús takk fyrir og hallelúja, mont mont.  Þeir eru alveg til í að fá mig í masterinn, en kannski verður hnoðað saman handa mér eins-árs-BA-uppfyllingarprógrammi og svo tveggja ára master þar á eftir, kommer i lys. 

Og ég hélt svo að ég væri sloppin þegar föstudagsprófið með pössunargræjingu og stressi var búið, en neinei, á laugardagsmorgni hringdi tónlistarskólaskrifstofukonan í mig og taldi upp 4 próf sem ég átti eftir að taka, allur dagurinn í dag og eitt próf í fyrramálið þriðjudag.  Það rann loksins upp fyrir mér að það væri pínu vesen að eiga barn (!), hvað geri ég við krúttið meðan ég tek 3 próf í Árósum frá 9.40-15.40? Eftir miklar pælingar og símtöl varð niðurstaðan að ég myndi bara lauma honum með mér í píanópróf og munnlegt tónheyrnarpróf, bruna svo til Horsens í lestinni, láta Hrafnhildi Horsensbúa sækja stráksa útá lestarstöð og ég mundi spæna með næstu lest til baka til Árósa, en sem betur fer tókst Ágústi að losa sig úr vinnunni svo þeir feðgar chilluðu bara heima (en Ágúst Ísleifur fær samt að heimsækja Hrafnhildi og Emilíu Glóð vinkonu sína í fyrramálið meðan ég tek hljómfræðipróf).  Og við mæðgin höfum aldrei verið aðskilin svona lengi! 8-17, heill vinnudagur!

En þrátt fyrir yfirvofandi aukapróf hömuðumst við í húsinu um helgina aldrei þessu vant, GESTAHERBERGIÐ ER TILBÚIÐ!!!!! ALLIR AÐ KOMA OG PRÓFA!!!!! Semsagt það sem var einu sinni gluggalaus geymsla er núna dásamlega fínt herbergi, fataskáparnir okkar komnir upp þar (ekki pláss í svefnó nebla) og svefnsófinn á sínum stað, jibbíjei!  Og svo málaði ég barnaherbergið, þá er öll svefnálman tilbúin með parketi og ferskri málningu (húsið er svo stórt að það eru álmur, rímember).

Og Ágúst Ísleifur er líka aldeilis búinn að hamast, það þyrfti nú að virkja orkuna í þessu barni einhvern veginn, hann er svo snarofvirkur hele tiden, aldrei kjurr, spriklar og hamast eins og hann fái borgað fyrir það enda líka stinnur og flottur strákur.  Byrjaði að tala í dag takk fyrir, núna er það bara dadadadadadadada út í eitt (skilgreinist það ekki sem "tal"? Allavegana talsverð framför frá "aaaaaa..... vaaaaa......").  Og því má bæta við að hann er sérdeilis gáfaður etc. annað eins barn hefur ekki sést.

Svo er löngu kominn tími á smá jólaupprifjun, ég er loksins að moka 199 myndum af myndavélinni frá Íslandsförinni.  En þar sem Ágúst Ísleifur er farinn að skæla inni í rúmi verður það að bíða betri tíma að skella myndum inn, yfir og út.

 


Já seiseijá og sveimérþá

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld etc. við vitum nú allt um það.  Barnið sprettur hratt, tók 5 sentimetra á einum mánuði, geri aðrir betur.  Og það var m.a.s. áður en hann fór að moka í sig grautum og grænfóðri í akkorði, ég hef ekki undan að finna til mat handa honum.  Tengdapabbi og Hallveig voru hjá okkur yfir áramótin og allt á fullu í framkvæmdum, komið parket á alla svefnálmuna, geymslan sem átti að breyta í herbergi er orðin að flottu hvítmáluðu herbergi með parketi og glugga og næsta skref að setja loksins upp fataskápana okkar þar inni, þeir eru orðnir leiðir á því að hanga ósamsettir inni á skrifstofu.  Svefnsófinn vill líka komast á sinn stað.

En svo er ég á leiðinni í inntökupróf í Tónlistarháskólann í Árósum á föstudaginn, hef verið að myndast við að æfa mig fyrir það undanfarið svo ég gerði ekki alveg nógu mikið gagn sjálf í öllum framkvæmdunum, en reyni að bæta upp fyrir það eftir helgi.  Ágúst fór í morgun til Odense á námskeið (samferða pabba sínum á leið til Kastrup) og kemur beint til Árósa á föstudaginn til að fletta og registrera í prófinu.  Og nennir einhver að koma og passa barnið þangað til á föstudaginn? ÉG ÞARF AÐ ÆFA MIG!!! Metnaðarfull áform um að spæna niður í kirkju snemma í dag og láta stráksa sofa daglúrinn sinn þar gufuðu upp fyrir svefnleysi í nótt, stráksi vældi og svaf lítið og reyndist vera með harðlífi... en sveskjumaukið er komið oní maga og gerir vonandi sitt gagn Cool


Jólakortapistillinn 2008

Árið viðburðaríka hófst með lítinn laumufarþega í maganum á Láru og óljós áform um að Ágúst færi í framhaldsnám erlendis, þó ekki fyrr en hann væri búinn að ljúka einleiksáfanga í orgelleik á Íslandi.  Í byrjun febrúar fengum við þær óvæntu fréttir að Ágúst væri kominn með stöðu í sérnámi í kvensjúkdómalækningum í Horsens í Danmörku frá 1. apríl. Við settum allt í gang, Lára skrapp til Horsens og keypti hús, Ágúst spýtti í lófana og flýtti einleikaraprófinu til 22. mars og spilaði með glæsibrag þrátt fyrir skemmri æfingatíma en til stóð.   Ágúst flutti síðan út en Lára hélt áfram að spila og syngja á Íslandi, endaði þó með því að hún þurfti að snúa sér að prjónaskap og sjónvarpsglápi í staðinn fyrir orgelleik vegna meðgöngu­kvilla. Í lok maí mætti Lára til Horsens, gat því miður lítið gert til gagns heldur beið bara eftir að sonurinn fæddist.   24. júní kom Ágúst Ísleifur í heiminn, fallegur og yndislegur.  Við fórum með hann til Íslands þriggja vikna gamlan til að sýna ættingjum og vinum og skíra, hann var skírður í Hallgríms­kirkju 27. júlí. Lífið í Lindeparken hefur síðan aðallega snúist um litla manninn, en við höfum líka baukað við að gera húsið fínt og tekið á móti mörgum góðum gestum. Við höfum þó gefið okkur tíma til að spila meira á orgel, Ágúst hélt tónleika í Horsens í október og síðan héldum við sameiginlega tónleika í Langholts­kirkju í nóvember. Síðast en ekki síst æfir Lára sig þessa dagana á fullu fyrir inntöku­próf í Tónlistarháskólann í Árósum í janúar.  Skemmtilegast af öllu er þó að fylgjast með Ágústi Ísleifi vaxa og dafna. Hann er byrjaður í tónlistartímum þar sem hann hristir tambúrínur og ber á bumbur, og einnig förum við reglulega í sund og njótum þess að busla. 

Við vonumst til að hitta sem flesta ættingja og vini um jólin á Íslandi, en annars má alltaf fá fréttir af okkur og sjá myndir á bloggsíðunni www.reykspolandi.blog.is. Og auðvitað eru allir velkomnir í heimsókn til Danmerkur!

Jólakortamyndataka 007

Púha

Þvílíka jólafríið, þvílík afköst í jólaboðunum, þvílíkt pakkaflóð, þvílík heimferð.

In æsland, planið á næstunni

Við erum nú löngu komin mæðginin en nennum ekki að liggja í tölvunni.  Erum hjá mömmu sem sinnir ömmuhlutverkinu mjög samviskusamlega.  Elín og dætur lenda eftir hálftíma, en Adrian löngu kominn að kaupa vinnuvélar.  Ágúst kemur á sunnudaginn.  Ég spila á Jólasöngvum kórs Langholstkirkju föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld (fernir tónleikar) og í miðnæturmessu á aðfangadagskvöld í Langholtskirkju.  Rembist við að æfa mig sem mest fyrir inntökuprófið (9. jan, óhemju illa tímasett) og tónleikana, kann samt allt fyrir jólasöngvana...  Búin að syngja jólalög á lansanum og Landakoti, gaman gaman.  Matarklúbbur í kvöld, fullskipaður í fyrsta sinn í mörg ár, þ.e. Ég, Halldóra, Hildur, Ragga, Regína og Auður.  Matarklúbburinn er orðinn 10 ára takk fyrir, frumdrögin voru lög í Portúgal 1998.  Segi ekki meira, ætla að finna orgel fyrir okkur Ágúst Ísleif.


Þegar Ágúst Ísleifur týndist í Kaupmannahöfn

Ágúst Ísleifur týndist næstum því í rúminu heima hjá Sigrúnu í Köben:

Köben 010

En sem betur fer fannst hann aftur.  Annars hefðum við sennilega ekki farið á veitingastaðinn seinna um daginn þar sem hann heimtaði ris á la mande í eftirrétt (hann fékk það ekki, ekkert dekur hér...)

Köben 008

En nú er ég orðin grasekkja einu sinni enn, Ágúst stunginn af á tveggja daga námskeið í Kaupmannahöfn.  Hann kemur aftur á föstudagskvöld, svo sting ég af til Íslands á laugardaginn.  Stærstu áhyggjurnar eru hvort Ágúst standi sig í að brenna dagatalskertið eftir að ég fer, ekki viljum við koma heim 29. desember og sitja uppi með óbrunnið kerti...

Síðan ætla ég ekki að reyna að útskýra af hverju barnið er að gera fimleikaæfingar úti í glugga hálfklætt í spariföt, en á þessum aldri er maður bara flottur sama hvernig maður er klæddur og sama hvað maður er að gera.

Jólakortamyndataka 017


13° í eldhúsinu, fallandi

Það er nú að verða komin svolítil þreyta í kuldakvartrausið, enda meira en mánuður síðan olían kláraðist, en nú fyrst er í alvörunni kyndingarlaust því karrýgula olíuskrímslið var aftengt í gærmorgun og verið að ganga frá hitaveitutengingunum NÚNA! W00t

En Köbenferðin var brill, mjög gott að satsa bara inn á að hafa stráksa mátulega slappan, hann svaf nánast alla helgina, drakk líka voða lítið og þurfti þar af leiðandi ekki mikið af bleiuskiptingum, við vissum varla af honum... (en mamman hafði samt stanslausar áhyggjur)

Síðan mátaði hann jólafötin þegar við komum heim:

Jólakortamyndataka 001

Agalega fullorðins að vera með þverslaufu...


Ókei það þarf að hafa viss atriði á hreinu

Hvort notar maður tannþráðinn á undan eða eftir tannburstun? Við Sigrún Magna erum agalega ósammála, ég segi á undan, hún á eftir.  Ég vil ekki moka jakkinu milli tanna út í nýskúraðan munn, hún vill ekki bursta gumsinu á tönnunum milli nýþræddra tanna.  Þetta er grundvallarspurning sem verður rædd alla helgina.

Æji við vælum bara

Því við erum svo agalega lítil í okkur núna ("við" lesist "aðallega Ágúst Ísleifur"), nebla bólusetning í morgun og þá orgar maður miiiikið seinnipartinn Frown en vonandi ekki fram á nótt.  Ágúst eldri fer svo ábyggilega að vola af þreytu einhvern tímann bráðum, fór í vinnuna í morgun og kemur heim kl. 15 á morgun! Vaktafyrirkomulagið er nú ekki alveg svona geðbilað, hittist bara þannig á að lendir saman afleysingarvakt og einhver lærdómsvakt þar sem Ágúst lærir að taka á móti börnum, iss eins og hann kunni það ekki, ég er með sönnunargagn í fanginu.

Hitaveitufréttir: (önnur ástæða til að væla).  Þarna fyrir mánuði var okkur talin trú um að við fengjum express afgreiðslu á hitaveitunni, og jújú varmeværket kláraði sitt síðasta mánudag, þá fyrst kom í ljós að verktakinn sem gerir innanhúsvinnuna kemst ekki fyrr en næsta mánudag, grömp.  Mér er kalt á tánum og orðin leið á að dæla í olíubrúsa úti á bensínstöð.

Að lokum ein ástæða til að væla alls ekki neitt: Styttist í dúberskemmtilega helgi í Köben W00t.  Ekki það að sé ekki ææææðislegt í Horsens, bara fínt að fá smá tilbreytingu Tounge.

Lok nóv 001

En sjáið hvað feðgarnir eru fínir í kuldanum, Ágúst Ísleifur (soldið mæddur á upphitunarleysinu þó) í Janus-ullargallanum sínum og pabbi hans í skátapeysunni sinni sem hefur haldið á honum hita frá því sautjánhundruð og súrkál (hvað hefur aftur kviknað oft í henni? Búið að skipta um rennilás nokkrum sinnum, skipta um stroff, bæta út um allt...)


Ágúst Ísleifur leikur sér með bangsana sína

Dótakassinn 2.des 035Hann hefur reyndar ekki undan því þeir eru svo margir.  Takið sérstaklega eftir Bangsímon í tvíriti, báðir frá sömu ömmunni LoL. Já og ef út í það er farið á hann alveg helling af dóti litla stýrið og púha jólin nálgast, foreldrarnir fá létt kvíðakast... Ætli þyki nokkuð agalega dónalegt að reyna að stýra hugsanlegum gjafakaupum að einhverju leyti fráááá böngsunum og dótaríi í miklu magni og meira í áttina að bókum, geisladiskum, fötum og slíku praktísku (nema þið viljið bara styrkja orgelkaupasjóð foreldranna Tounge það mun að endingu koma Ágústi Ísleifi til góða).  Og að sjálfsögðu hefur barnið sama smekk og foreldrarnir, fílar allt þetta gamla góða, Kardimommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi og Svanhildi og Pétur og Úlfinn og Olgu Guðrúnu og Mararþaraborg og já alla orgeltónlist.  Og uppbyggilegar barnabækur.  Jeminn hvað Ágúst Ísleifur á tilætlunarsama foreldra.

Annars er litli guttinn búinn að vera þrælkvefaður greyið og sérstaklega óhress á nóttunni, þá verða foreldrarnir sérstaklega óhressir á morgnana.

En mitt í öllu svefnleysinu og snýtingunum afrekaði ég að skila inn umsókn í Tónlistarháskólann í Árósum, aðeins óljóst hvað ég er að sækja um en eg tek allavegana inntökupróf í janúar og þarf að spýta í lófana og æfa mig fyrir það.

Svo ætlum við í julefrokost til Köben næstu helgi, Erla Elín er að fara í hitting þar og bauð okkur far, gistum hjá Sigrúnu, kíkjum á tónleika (og í H&M) og málum bæinn rauðan!  Eins gott að sjáist ekki glitta í íslensku kreditkortin í veskjunum...

Minni svo á að það styttist í mig og snúlla, við komum til Íslands 13. des (Ágúst eldri 21.) og förum aftur 29. des, tökum tengdapabba með og hann verður hjá okkur yfir áramótin ásamt Hallveigu sem er orðin þaulvön lestinni milli Belgíu og Horsens.  Hlakka til að hitta sem flesta! Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband