Færsluflokkur: Bloggar

"Átta daga á þrekhjóli"

Ég varð að sjálfsögðu überkát að sjá fyrirsögn á mbl.is um 8 daga gamalt barn á þrekhjóli og hugsaði mér gott til glóðarinnar að fara strax að þjálfa litla kút.

http://mbl.is/mm/folk/frettir/2008/05/13/atta_daga_a_threkhjoli/

Varð reyndar fyrir vonbrigðum þegar ég las fréttina.


Íbúðin hjá mömmu að fyllast

Þessar sætu systur eru mættar í heimsókn:

Selma tekur hlé á bakstrinum til a skipta á systur sinni

Eins og sést er búið að þjálfa Selmu til að hugsa um litlu systur sína svo Elín getur einbeitt sér að því að sinna litlu systur sinni (mér).


Megrunarlausi dagurinn í dag

Ber mér þá ekki siðferðisleg skylda til að fara á kaffihús og borða stóóóóra kökusneið? Kannski líka hægt að leysa málið með ís.  Eða súkkulaði ef allt annað bregst. 


Pabbar og brjóstagjafanámskeið

Ég er að fara á foreldranámskeið (fræðslu um fæðinguna og blabla) á eftir, alein að sjálfsögðu því pabbinn er í Danmörku.  Ágúst er líka að fara á foreldranámskeið í dag, aleinn að sjálfsögðu því mamman er á Íslandi!  Það er nebla þannig að við náðum ekki að komast að saman á námskeið áður en Ágúst fór út.  Svo er einn möguleiki fyrir okkur að fara saman á námskeið í Horsens eftir að ég kem út og áður en unginn skýst út, nema hvað foreldranámskeiðið og brjóstagjafanámskeiðið er sama kvöldið þannig að við þurfum að velja á milli.  Ég var eiginlega búin að ákveða að við færum þá saman á foreldradæmið, og viti menn, Ágúst ákvað þá að best væri að hann færi einn á brjóstagjafanámskeiðið fyrir okkar hönd! (sem er í dag líka) Það hefði sjálfsagt verið mjög upplífgandi fyrir jafnréttisumræðuna...  En svo kemst ég ekki að á brjóstagjafanámskeið hér heima svo við förum saman á það úti.  Ég hef aldrei skrifað svona oft um brjóst í jafnstuttum texta.

En ég hef víst fátt annað að skrifa um en óléttu og prjón því það gerist voða lítið í lífinu.  Heimurinn takmarkast við þríhyrninginn sófi-wc-eldhús.  Ég fór út úr húsi á laugardaginn og hafði þá ekki farið neitt síðan á miðvikudag.  Og hvert skyldi ég hafa farið annað en í bleiubúðina að rannsaka taubleiur...  (Jájá segið bara það sem þið hugsið "blessuð vertu þú átt eftir að gefast upp á þessu" en verið samt svo elskuleg að segja það ekki endilega í mín eyru, nennekkaðhlustáetta GetLost, áskil mér samt rétt til að hætta við af taubleiustand af eigin hvötum hvenær sem er).


Hah! Hver er fyrirvinnan á þessu heimili!!

Kom í ljós áðan þegar lækninn eiginmann minn vantaði pening enn einu sinni að hann veit ekki einu sinni reikningsnúmerið hjá mér! Augljóst í hvaða átt peningaflæðið er á þessu heimili mwahahaha.

Það gæti samt breyst eitthvað þegar ég er hætt að fá alvöru laun og skipti yfir á ölmusu frá Tryggingastofnun og Fæðingarorlofssjóði, arg.  Þ.e.a.s. þá get ég ekki lengur séð fyrir Ágústi líka Tounge

(Ok það var þannig í þetta skiptið að hann vantaði pening til að borga danska lögfræðingnum og þinglýsingargjald og eigendaskiptatryggingu og allt mögulegt uppá hálfa gaddem milljón þannig að það telst ekki beinlínis bara uppihald...  og þar á undan var það gámaflutningurinn... kostar sitt að flytja milli landa og splæsa í hús!  En ég er búin að finna snilldarsparnaðarleið, bý hjá mömmu og ét hana út á gaddinn, allt ókeypis!)

Enn þá endalaust pappírsvesen í kringum búferlaflutninginn, hringdi í þjóðskrá áðan og bað um hjúskaparvottorð (på dansk), gaf dömunni kennitölu og hún fletti mér upp, sagði svo hálfhissa og bjóst kannski við að það kæmi mér á óvart líka: "uuu.. já en, þú ert gift!"  Dööhh, hvers vegna var ég að biðja um hjúskaparvottorð? 


Æsispennandi!!

Já eða þannig, aðalspennan núna er hvað gerist næst í desperat hásvæfs og hvernig mér gengur að gera hælinn á sokkinn...  Jú og hvort það verði sól á svölunum svo ég geti fari í sólbað.  Er m.a.s. búnað beila á jóganu, hef alltaf ætlað að mæta í næsta tíma í meira en 2 vikur en þessi næsti tími er bara ekkert að fara að koma meðan það er of mikil áreynsla fyrir mig að fara í bað Errm.  Og ég sem hef gert grín að jóga í mörg ár! Ógeðslega gott á mig að það reynist svo vera of erfitt fyrir mig Tounge.

En ég fer bara á kostum í prjónaskapnum í staðinn, verst að sjálfsálitið og montstuðullinn hrundi þegar ég heimsótti Auði í gær (á Sjafnargötu 7) og það kom í ljós að meðan ég afrekaði heila 2 vettlinga og byrjaði á stroffi á sokk þá hafði Auður klárað vettlingapar, sokkapar, og kláraði sokkapar nr. 2 meðan ég sat og rembdist í þessu sama stroffi, aaaaarrrrrgggg.  Hún er líka óða ólétta prjónakonan sem var orðin leið á að prjóna allt í hlutlausum lit (hún er með barn af óþekk(t)u kyni í maganum) svo þegar hún ákvað að prjóna húfu þá barasta prjónaði hún eina bleika og eina bláa.  Sýndi mér svo húfurnar og kom í ljós að jújú hún hafði nú prjónað eina gula í leiðinni...

Soldið skrýtið að mæta í heimsókn "heim til sín", var búin að draga upp húslykilinn áður en ég fattaði að ég bjó ekki þarna, en þar sem var hvorteðer ólæst óð ég samt inn (maður lætur ekki kasóléttar konur standa upp að óþörfu).  Það er enginn flygill í stofunni, þarf að segja eitthvað meira um hvað allt er gjörbreytt! Í staðinn er nett sófasett í boganum góða, og svo heilt borðstofusett og skenkur þar sem mitt sófasett var, og samt nóg pláss eftir t.d. fyrir lítið kríli að æfa veltur og skriðtækni.  Og krílið er nú væntanlegt á hverri stundu, styttist í settan dag og litla Ausipaus eða lítinn Eyfaling.

En þetta minnir mig á hvað ég hlakka til að búa í risastóru einbýlishúsi þar sem er flygill og sófasett og borðstofusett og allt mögulegt í stofunni og samt pláss til að snúa sér í hringi Happy.  Já og hægt að æfa langskrið eftir endilangri stofunni, krakkinn verður í æfingabúðum allan daginn.  Eini gallinn er að húsið er frekar langt frá öllum sem ég þekki Crying.

Fór líka í eina heimsókn um helgina, alla leið á Eyrarbakka! Ég og Harpa Barkar (gradualekórinn, nobili, leiðsöguskólinn) heimsóttum bekkjarsystur okkar úr gönguleiðsögninni sem á þriggja vikna Herdísi Heklu.  Hún er algjört rassgat, og foreldrunum varð svo mikið um þegar kom í ljós að hún var á leiðinni að þau keyptu sér heilt hús á Eyrarbakka til að hafa nóg pláss, agalega krúttlegt ábyggilega eldgamalt hús. 

En já þó ég sé að æsast í heimsóknir "út um allt" þá er því miður takmarkaður kvóti á hvað ég "get" mikið, sleppur að fara út max. einu sinni á dag, annars verð ég alveg ómöguleg hnuss.  Og omg þessi skelfilegi stigi upp á 3. hæð hjá mömmu.  En nenni ekki að röfla um það núna, klára frekar hælinn og góni á despó!


Selma les fyrir Völu

Selma les fyrir Völu

Afmæli í gær!

Við Ágúst áttum enn eitt afmælið í gær, erum búin að vera saman í heil 8 ár! Mikið vatn runnið til sjávar síðan (tiltölulega) ungur drengur bauð ungri stúlku út að borða á Lækjarbrekku og kvöldið endaði með kossi InLove

En núna er þetta náttúrulega allt öðruvísi, ég ligg uppí sófa kasólétt og grömpí og Ágúst flúði land til að vinna fyrir ómegðinni LoL

En dagurinn í gær var nú ekki al-grömpí, fyrir það fyrsta þá hringdi Ágúst í konuna sína og það er svo sannarlega í frásögur færandi því hann pantaði heimasímann fyrir 3 vikum, og hann var loksins kominn í gagnið í gær, aðeins rúmri viku á eftir áætlun...  (síminn er +45 35 10 89 89 ef þið viljið spjalla við drenginn).

Síðan fékk ég góða heimsókn frá þeim mæðgum Sigurbjörgu (28 ára) og Þorbjörgu Þulu (8 mánaða).  Sibba mætti með prjónadótið og uppskriftir og kom mér af stað í vettlingaprjóni! Og til að peppa mig upp gaf hún mér (okkur) m.a.s. vettlinga og sokka á krílið, nú verð ég sko að standa mig a.m.k. jafnvel!  Er að verða búin með stroffið á einum vettling.. (og já það er nú meira en að segja það, stroffið er sko með uppábroti og heilir 8 cm, vaaaaááá).

Mæðgur voru rétt nýfarnar þegar tengdapabbi birtist með sumardagsblóm og hafði ofan af fyrir mér í dáldinn tíma (jájá ég viðurkenni, ég þarf pössun).

Svo má ekki gleyma að mamma var líka búin að gefa "mér" sumargjöf, grunsamlega litla silki-prjónahúfu sem var alls ekki merkt 25-30 ára heldur 3-6 mánaða, ég held að gjöfin sé í raun og veru ekki til mín heldur belgverjans.


Fæðingarorlofssjóður og beiskar sjómannskonur á Hvammstanga

Já loksins er ég í nógu góðu skapi til að skrifa um fæðingarorlofssjóð, enda á ég von á kökusneið rétt bráðum.  Ég er búin að hringja reglulega norður á Hvammstanga þar sem sjóbbi er staðsettur og röfla um að ég ætli að flytja til Danmerkur en samt heimta að fá borgað íslenskt orlof.  Svörin sem ég fæ við þessari hógværu kröfu hafa verið alveg sitt á hvað, stundum er það ekkert mál en stundum útilokað...  Magnaðasta samtalið var nokkurn veginn svona (ýkt og stílfært eftir hentugleikum), LH stendur fyrir Lára Hormónafulla, BSH stendur fyrir beisk sjómannskona á Hvammstanga sem vinnur hjá fæðingarorlofssjóði.

LH: Góðan dag.  Ég ætla að flytja til Danmerkur þegar ég verð búin að ávinna mér fullan rétt á fæðingarorlofi á Íslandi og fæða svo grislinginn þar.  Fá orlofið borgað til Danmerkur takk.  Er það vandamál?

BSH: Ertu galin.  Það er ekkert hægt að búa í útlöndum og fá orlofið borgað þangað.

LH: Ég er nú samt að flytja þangað og maðurinn minn er löngu fluttur og gengur ekki annað en að ég flytji út og fæði barnið þar ef pabbinn á að koma eitthvað nálægt þessu.  Verð nógu lengi grasekkja á klakanum samt.

BSH:  Það er vel á sig leggjandi að búa mánuðum saman í öðru landi en eiginmaðurinn til að tryggja sér rétt á fæðingarorlofi, annað eins hafa nú sjómannskonur þurft að þola (ath. þessi setning er ekki stílfærð og ýkt og fór ekki sérstaklega vel í hormónafullu Láru)

LH: Mér er alveg sama um það, ég vil bara fá skýr svör við hvort það séu einhver vandkvæði á þessu eða ekki.  Sé engin ákvæði um lögheimili á Íslandi í lögum um fæðingarorlof.

BSH: Bíddu augnablik, ég ætla að tala við sérfræðing (þó fyrr hefði verið)

15 bið-mínútum síðar rofnaði sambandið og búið að loka Hvammstangabúllunni, ég engu nær og mjööööög reið.  (Vaaaááá ég fer að þurfa þessa kökusneið til að halda mér góðri).

En góðu fréttirnar eru þær að ég hef haldið áfram að hringja reglulega (og fá alls konar svör) og eftir að ég fór að heimta hlutina skriflega svo þeir væru alveg á hreinu var haft samband við lögfræðing og liggalá, ég má flytja hvert sem ég vil þegar mér sýnist.  Nú þegar er búið að setja mig út af sakramentinu og skipa mér í veikindaleyfi (aumingjaleyfi) þá þarf ég bara að ganga frá sjúkradagpeningum frá TR og orlofi frá blessuðum Hvammstangasjóðnum og þegar á annað borð er byrjað að borga mér er ekki hægt að taka réttinn af mér og hananú.

Reyndar lítur ekki eins vel út með Ágúst, vissulega allt í góðu ef afkomandanum þóknast að fæðast á réttum tíma!  Nefnilega þannig að faðirinn þarf að hafa unnið í Danmörku 13 vikur fyrir fæðingu barns til að eiga rétt á þarlendu orlofi (verður löngu búinn að missa rétt á íslensku orlofi) og þessar 13 vikur eru búnar einmitt 1. júlí þegar krakkinn á að skjótast út! Ég geri mér reyndar óljósar vonir um að ég sé að misskilja og það sé nóg að hann skili ákveðið mörgum vinnustundum innan 13 vikna fyrir fæðingu, en megi t.d. alveg hafa unnið þær á síðustu t.d. 12 vikunum...  Er einhver búinn að missa þráðinn? (eða áhugann...)  Verst að vinnuvikan er svo stutt hjá Danskinum.

Hætt að röfla bæ.


Lára ehf

hefur sagt upp eina starfsmanninum og er fyrirtækið nú lokað.  Það verður þó starfrækt áfram að einhverju leyti undir nýrri kennitölu og heitinu Lára&co ehf.  Fyrst um sinn verður þó aðeins einn starfsmaður og tekur hann eingöngu að sér sérhæfð verkefni á borð við svefn, át, hvíld, sjónvarpsgláp, bóklestur og útsaum.  Áætlað er að fjölga starfsmönnum í júlí og bæta við aðstoðarmanni.  Aðstoðarmaðurinn verður í þjálfun í ca. 18 ár og veldur líklega tvöföldu álagi á starfsmanninn sem fyrir er, en það er víst algengt á vinnumarkaðnum, sérstaklega í svona atvinnubótavinnu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband