Færsluflokkur: Bloggar
3.5.2011 | 20:18
Páskaferðasaga
Svakalegri páskaferð er lokið, 11 lestir, 1 flug, óteljandi strætóar og sporvagnar, 2 börn og 2 foreldrar.
Við lögðum af stað um kvöldmatarleytið 19. apríl til Elínar&co í Muggensturm. Strætó út á brautarstöð og lest til Kolding. Þar biðum við í 50 mínútur eftir næturlestinni til Karlsruhe. Það vildi svo skemmtilega til að það var nýbúið að rífa niður klósettin á brautarstöðinni svo Ágúst Ísleifur gekk um með væna klessu á bossanum þar til við komumst í lestina, það átti eftir að koma sér illa síðar.
Næturlestin hét því fína nafni City Night Line en var ekkert mjög fín, skv. óáreiðanlegum heimildum eyddi hún æskuárunum í Rússlandi einhvern tímann á síðustu öld og lúxusinn eftir því. Við vorum með sér-svefnklefa fyrir fjörugu fjölskylduna þar sem var boðið upp á kojur á 3 hæðum með svefnplássi fyrir 6 fullorðna. Það tók dágóðan tíma að ná börnunum niður og að ná brúklegri svefnstellingu á ansi hörðum svefnbekk (ég með Heklu klessta upp við mig) en það endaði með því að sólin reis í austri og þá var aldeilis gott að hafragrauturinn hans Ágústar Ísleifs var með í för.
Elín var síðan mætt á brautarstöðina á nýja ofur-fjölskyldubílnum að sækja okkur og heima í Muggensturm biðu amma Sigga og Nanna spenntar. Elín og Hekla voru að hittast í fyrsta sinn og voru báðar sáttar. Hekla og Nanna voru líka að hittast í fyrsta sinn og urðu strax góðar vinkonur.
Við drifum okkur fljótlega í vettvangsferð að skoða gröfurnar hans Adrians. Ágúst Ísleifur var reyndar ekkert mjög kátur í þeirri ferð enda sveið hann voðalega í bossann. Hann varð heldur aumur í neðra eftir biðina á brautarstöðinni í Kolding en ofan í það fékk hann í magann og var sífellt gerandi í bleiuna fyrsta daginn í Muggensturm og fór að háskæla í hvert sinn af því hvað hann sveið mikið.
Ágúst Ísleifur var alls ekki sá eini sem fékk í magann því pabbi hans varð fljótlega eitthvað undarlegur, Vala fékk 1/2 sólarhrings gubbupest og síðan steinlá ég í tvo daga með hressilega steinsmugu og hita. Þetta gerist í hvert einasta skipti sem ég heimsæki Elínu, þá liggja 2-3 með magapest.
En hvað sem því líður þá var líf og fjör með 5 börn á aldrinum 0-5 ára á heimilinu. Ég lagði mikið á mig til að ná mynd af frændsystkinunum saman og eftir 135 tökur var þetta niðurstaðan:
Það er verið að kanna hitastigið í heita pottinum og busla svolítið. Ágúst Ísleifur tæplega 3 ára, Vala rúmlega 3 ára, Nanna 1 1/2 árs, Selma 5 1/2 árs og Hekla 1/2 árs. Aldeilis fríður flokkur.
Það náðust nú fleiri myndir af þeim saman, en ákaflega misgóðar.
Nú við héngum ekki bara heima að taka myndir heldur fórum líka í dýra/leiktækjagarðinn í Muggensturm. Selma hjólaði á hjólinu sínu og Ágúst Ísleifur fékk lánað jafnvægishjólið hennar Völu (það var áður en Vala áttaði sig á því að Ágústi Ísleifi fyndist voða gaman að hjóla á hjólinu HENNAR og það væri betra að hún héldi því bara fyrir sjálfa sig og bannaði honum að fá það lánað).
Selma og Hekla spjölluðu mikið saman:
Og Amma Sigga fékk líka að vera með:
Síðan rann páskadagur upp skýr og fagur. Það var ekki lögð mikil áhersla á upprisu Krists heldur var meiri spenna yfir því hvað páskahérinn hefði verið að bardúsa um nóttina. Í Þýskalandi býr nefnilega mjög rausnarlegur páskahéri sem felur páskaegg og gjafir handa þægum börnum. Allir krakkarnir tóku þátt í leitinni (með mismikilli aðstoð) og allir fengu eitthvað fallegt.
Til dæmis fékk Vala nýtt rúm
Selma fékk nýtt hjól
Nanna og Elín fengu hjálma
Hekla fékk sólhatt og sólgleraugu
og Ágúst Ísleifur fékk ósköpin öll af bílum sem því miður týndust, hann hefur sennilega sett þá á "góðan" stað.
Öllum að óvörum var Haukur mættur í páskastuðið, síðast hafði sést til hans í Horsens nokkrum dögum fyrr, en hann gerði sér lítið fyrir og hjólaði þaðan til Elínar. Í þessum töluðum orðum er hann að gera sér enn minna fyrir og hjóla til Santiago de Compostela á Spáni, en það er önnur saga.
En til að gera allt of langa sögu aðeins styttri þá yfirgáfum við Elínu 26. apríl og tókum lest til Belgíu. Eftir 3 lestir vorum við komin á brautarstöðina í Gent og þar tók Hallveig systir Ágústar á móti okkur. Hún varð voða glöð að sjá okkur en leist samt ekki á blikuna þegar hún taldi komumenn. Ágúst Ingi - tjékk. Lára Bryndís - tjékk. Ágúst Ísleifur - tjékk. En hvar var Hekla, gleymdist hún? Sem betur fer sat hún bara í aftursætinu á systkinakerrunni góðu (sem Hallveig hafði aldrei séð) svo allir gátu andað léttar. Við tróðum okkur svo inn í pínulitlu íbúðina sem Hallveig deilir með kisunum sínum tveimur. Köttunum leist reyndar ekki á blikuna og sá feimnari lét ekki sjá sig fyrr en á þriðja degi. Hallveig sem var voða glöð að sjá okkur var kannski aðeins minna glöð þegar Hekla öskraði alla fyrstu nóttina (þetta er stúdíóíbúð) og var orðin hundveik greyið. Hún var send til læknis um morguninn og reyndist vera komin með bullandi eyrnabólgu og fékk sýklalyf og verkjalyf. Eftir þessa byrjunarörðugleika gekk Gent-dvölin prýðilega; við skoðuðum bæinn, fórum í udflugt til Oostende og Brugge, drukkum heilmikið af belgískum bjór og tróðum okkur út af súkkulaði og frönskum kartöflum með mæjó.
Síðasti leggurinn var síðan lest til Brussel 1. maí, flug til Kaupmannahafnar og lest til Horsens.
Það er ekkert grín að vera lítill gutti á svona ferðalagi, sífellt nýjar aðstæður, nýtt fólk, má ekki þetta og má ekki hitt, en Ágúst Ísleifur stóð sig ótrúlega vel. Honum var reyndar eiginlega öllum lokið þegar við komum til Hallveigar eftir 6 tíma ferðalag í staðinn fyrir að koma HEIM, en tók gleði sína fljótt aftur. Það voru nú allir fegnir þegar við loksins komum heim, og Ágúst Ísleifur sjálfur ábyggilega ósköp feginn að komast til dagmömmunnar á mánudagsmorgun, loksins allt eins og það átti að vera!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2011 | 18:57
Þytur í laufi
Einhvern veginn hugsa ég ekki um Danmörku sem rokrassgat, en þó verður að segjast að einhvern veginn snúast vindmyllurnar. Það var svo hvasst í dag að tré hafa verið á fleygiferð um allt land, trampólín í veg fyrir lestina milli Horsens og Árósa (ég var ekki í henni), takmörkuð umferð um stóru brýrnar og svo framvegis. Ég hélt auðvitað að þetta gæti ekki verið svo slæmt, skellti Heklu í hjólavagninn og hjólaði af stað í ræktina. Hafði sem betur fer vit á því að fara aðra leið svo ég væri ekki á berangri uppi á háhæðinni (þar sem heitir Blæsbjergvej = rokrassgatsvegur), rétt dreif á móti vindi og var skíthrædd um að vagninn færi á flug í verstu hviðunum. En sem betur fer er Hekla búin að borða svo mikinn graut síðustu daga að hún er ágætis kjölfesta fyrir vagninn . Ljósi punkturinn er sá að ég þurfti ekki að hjóla heim, meðvindurinn sá til þess .
Það á hins vegar að vera sól og sumar á morgun og ábyggilega brjálæðislega góð illgresisspretta. Vonandi fer limgerðið hjá okkur bráðum að laufgast almennilega svo að ég sjái ekki hvað nágrannarnir eru duglegir í görðunum, apríl rétt byrjaður og við erum strax að tapa baráttunni við illgresið. Ég kættist reyndar í dag yfir illgresisupprætingarkæruleysi, það er nefnilega þannig að utan við limgerðið með fram götunni er ca. 50 cm rönd af einhverju sem á eiginlega bara að vera sandur, en í okkar tilfelli er það aðallega illgresi. Það sem hefur bjargað okkur síðustu tvö sumur er að þessi ræma er reglulega grafin upp til að leggja ljósleiðara og þvíumlíkt, reyndar er alltaf tekið fram að vinnusvæðinu verði "skilað í sama ástandi" en ég hef ekkert verið að standa í því að kvarta yfir að allir fínu njólarnir, brenninetlurnar og fíflarnir séu horfnir og bara eintómur sandur í staðinn. En þessi ljóta illgresissandræma er bara fyrir framan 4 fyrstu húsin hvorum megin í götunni, rest er malbikað (og alltaf nýmalbikað því það er alltaf verið að grafa það upp og skila "í sama ástandi") og í dag kom bréf frá "Lindeparkens ejerforening" þar sem kom fram að á aðalfundinum í næstu viku verði lögð fram tillaga um að ómalbikuðu gangstéttirnar/drulluræmurnar "istandsættes til samme æstetiske og kvalitetsmæssige niveau som í den øvre del af gaden". Sem sagt, af því að arfaröndin okkar er svo ljót og illa hirt þá á að malbika allt draslið (af fagurfræðilegum ástæðum), JIBBÝÝÝ!!! .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2011 | 09:48
Um daginn og veginn
Jæja hvað er búið að vera á seyði upp á síðkastið? Við Hekla fórum af bæ um þarsíðustu helgi, skelltum okkur í æfingabúðir í Viborg með Gaia, hrikalega góða kórnum sem ég syng með í Árósum. Við vorum svo heppnar að foreldrar Antons (besta vinar Ágústar Ísleifs) bjuggu í Viborg löngu áður en Anton fæddist og Ingunn reddaði okkur þrusugóðri barnapíu sem krúttaðist í Heklu meðan ég söng Arvo Pärt, James MacMillan, Bach o.fl. gúmmelaði.
Já og loksins loksins loksins loksins er Odense-útlegðinni lokið hjá Ágústi og hann byrjaði aftur að vinna í Horsens 1. apríl, semsagt síðasta föstudag. Enn sem komið er höfum við ekki sést neitt meira en þegar hann var í Odense. Hann kom heim úr vinnunni á föstudaginn, henti dóti í ferðatösku og stakk af til Parísar með Munkakór Klausturkirkjunnar (grínlaust), kom heim seint á sunnudagskvöldi, fór í vinnuna á mánudaginn, kom ekki heim fyrr en eftir dúk og disk því það var fundur eftir vinnu, eftir vinnu á þriðjudaginn fór hann beint á kóræfingu og að syngja á tónleikum, frí á miðvikudaginn (í gær) en úbbs þurfti samt að gera heilan helling í Odense (!) og kom ekki heim fyrr en kl. 22. Við trúum samt á betri tíð með blóm í haga .
Hekla er orðin að svakalegum skriðdreka, þeysir um allt án þess að blikka auga og lætur ekki þröskulda stoppa sig eins og Ágúst Ísleifur forðum daga. Ég held að stóribró hafi verið ca. 9 mánaða þegar við KENNDUM honum að skríða yfir þröskuldinn milli stofu og borðstofu, hann festist nefnilega alltaf og fór að skæla. Hekla skellti sér hins vegar yfir hann í gær hjálpar- og hvatningarlaust, 6 mánaða og 1 dags takk fyrir. Svo laumar hún sér undir borð til að naga dimmerinn á standlampanum, japlar á öllu dótinu og bókunum hans Ágústar Ísleifs og er alsæl með þetta allt saman. Og það þýðir ekkert lengur að hafa hana í hvítum (=skítsælum) sokkabuxum og fínum kjólum, hún verður að vera í gallabuxum til að verða ekki rauð á hnjánum og helst einhverju dökku að ofan svo það komist ekki upp um hvað gólfin eru skítug .
Ég laumast endrum og sinnum til að spila í jarðarförum og þá kemur sér vel að ég ættleiddi auka-ömmu fyrir Heklu. Ég "lenti" nefnilega í því fyrir mánuði að aðstoða við undirbúning og syngja í jarðarför hjá íslenskum manni hérna í Horsens. Hekla tók þátt í því og heillaði að sjálfsögðu alla viðstadda upp úr skónum og þar á meðal ekkjuna, svo ég ættleiddi frúna bara áður en ég fór heim úr erfidrykkjunni, og núna er hún búin að passa 2x meðan ég hef spilað í jarðarförum. Og haldiðekkibara að hún heiti Lára takk fyrir .
Ég er búin að fá smábarnasæti í hjólavagninn svo systkinin geta setið hlið við hlið (Hekla hefur farið með mér á hjólinu en þá hefur hún setið í bílstólnum sem tekur miklu meira pláss) og þau skemmta hvort öðru meðan ég hjóla. Við fórum í könnunarleiðangur um vesturbæ Horsens (við búum í austurbænum) í gær og fundum dandalagóðan leikvöll þar sem Hekla gat spólað í rennibrautinni meðan ég hjálpaði Ágústi Ísleifi að príla upp í risastóran kastala og þannig skemmtum við okkur góða stund. Það verður gaman þegar Hekla verður farin að sitja sjálf og getur dundað með dót á leikvellinum.
Að lokum um þyngd Heklu. Hún þyngist ekki eins og meðalbörn (enda er hún ekkert meðalbarn) en hér sést á kúrfu hvað hún er langt frá því:
Hún fæddist tæplega meðalbarn í þyngd og ef hún hefði fylgt þeirri kúrfu (breiða strikinu) væri hún ca. 7.5 kg, en í staðinn hefur hún bara dregist jafnt og þétt aftur úr og er ekki nema 5.5 kg. Kannski ekki neitt svakalegur munur en allavega þá er fylgst með henni og ég reyni að lokka ofan í hana eins mikinn mat og mjólk og hægt er. Hún lafir hins vegar nokkurn veginn í meðaltalinu með lengdina svo það er bara spikið sem vantar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2011 | 19:07
6 mánaða stelpurófa
Hekla Sigríður er dugleg stelpa, skríður um stofugólfið, leikur sér með dótið hans stóra bróður, borðar graut og er svakalega mikið krútt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2011 | 10:32
Meira myndafyllerí
Það voraði snemma og ég náði að fara í nokkra fína hjólatúra með Ágúst Ísleif í janúar áður en veturinn kom aftur í febrúar. Hérna erum við á harðaspani í risastóru brekkunni úti í garði:
En hér er maður tilbúinn fyrir fjölskylduferð í stóóóru brekkuna í Horsens. Stóra brekkan er (þrátt fyrir að vera í Danmörku) svo stór að snúlla þótti nóg um, garðurinn dugar okkur alveg.
Hekla hefur meiri áhuga á tásunagi en snjóþotum:
Svo er líka soldið sport að sitja í kassa
Í hófi a.m.k.
Ágúst Ísleifur rifjar upp gamla tíma á leikteppinu:
Hann er ákaflega góður við systur sína (nema þegar hann henti traktor í hausinn á henni um daginn)
Hekla er ákaflega dugleg að liggja á maganum og reisa sig upp, og hana langar heilmikið til að skríða af stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2011 | 21:33
Samantekt á fyrsta árssjöttungi
Eftir lungnabólgustuðið í janúar þá rifjaði ég aðeins upp orgelhæfileikana og spilaði á þrennum tónleikum á vegum tónlistarháskólans (já ég er í svona líka bullandi barneignaleyfi). Á hverju ári taka orgelleikarar og blásarar höndum saman og spila eitthvað skemmtilegt og kennarinn minn hringdi milli jóla og nýárs til að bjóða mér að vera með í BrassOrganic 2011.
Nu går det løs! Det Jyske Musikkonservatoriums messingblæsere og organister rammer Thisted Kirke, Symfonisk Sal i Århus, og Hjørring Kirke i forbindelse med Brassorganic Tour 2011. Det bliver et festfyrværkeri af smægtende brassklange og pompøs orgelmusik. På programmet er blandt andet værker af franskmændene Marcel Dupré og Gaston Litaize og den italienske filmkomponist Nino Rota, som er mest kendt for at have skrevet musikken til Godfather.
Koncerten vil byde et hav af kombinationer af messingblæsere og orgel, og mon der ikke skulle snige sig en lilletromme ind hist og her? Trækbasunen skulle eftersigende være det kraftigste musikinstrument og ved denne koncert man der mønstres helt op til tre på én gang!
Brassorganic er resultatet af et årelangt samarbejde mellem messingblæserne og organister ved Det Jyske Musikkonservatorium et samarbejde, som har resulteret i talrige koncerter i hele landet.
Það hljómaði prýðilega. Glansinn fór reyndar af þegar kom í ljós (talsvert seinna) að fyrir utan tónleika í Árósum þá voru líka tónleikar í Thisted og Hjørring, en það eru tveir mestu útnárar Norður-Jótlands. Vikuna fyrir tónleikatörnina voru æfingar í Árósum, Ágúst var sem betur fer í fríi þá viku svo hann gat séð um krúttin á meðan ég skrapp að spila. Hins vegar heitir það ekki að "skreppa" þegar maður fer til Thisted og Hjørring svo ég þurfti auðvitað að taka brjóstabarnið með. Hekla skemmti sér sem betur fer hið besta og var alveg sátt við að láta organista og blásara halda á sér rétt á meðan mamman var að spila. Það var aðeins flóknara að græja Ágúst Ísleif meðan ég spilaði í Hjørring því Ágúst stakk af til Barcelona á læknanámskeið svo Ísleifur fékk að gista hjá Antoni vini sínum, ég var nefnilega ekki væntanleg heim fyrr en um 1-leytið. Gott að Heklurófan var ekki komin í neina ákveðna svefnrútínu á þessum tíma og var alveg til í að sofa bara þegar henni var sagt að gera það!
Næsta stóra mál ársins 2011 var/er ungbarnaspikið á Heklu, eða öllu heldur vöntun á slíku, svo og kúkableiurnar hennar, eða öllu heldur vöntun á kúkableium. Hún var meðalbarn þegar hún fæddist (í lengd og þyngd, ekki dásamlegheitum því þar skorar hún langt yfir meðallagi) en hefur síðan dregist jafnt og þétt aftur úr í þyngd og er undir eftirliti vegna þess. Aftur á móti hefur hún hér um bil lafað í meðaltalinu í lengd. Síðan gerðist það líka fyrir jól að hún hætti eiginlega að gera stórt í bleiuna (10-14 daga fresti) og læknar fóru líka að skoða þau mál. Að lokum var ákveðið að ef hún færi ekki að taka við sér í sprettunni þá þyrfti að láta sérfræðinga kíkja á hana. Það varð úr að við mæðgur lögðumst inn á barnadeildina í Randers í byrjun mars. Einhver kynni að halda að við hefðum getað skoppað yfir götuna og farið á spítalann í Horsens, en neinei, þar er engin barnadeild heldur tilheyrum við barnadeildinni í Randers sem er næsti stórbær fyrir norðan Árósa og tekur 2 tíma að komast þangað með strætó/lest/strætó! Eftir tvo daga af stanslausum vigtunum og skoðunum vorum við sendar heim aftur jafnheilbrigðar og þegar við komum. Læknarnir klóruðu sér bara í kollinum yfir Heklu sem brosti, skríkti og spriklaði með mjóu lærunum sínum og hló bara að kjánalegum vaxtarkúrfum. Það eina sem mönnum datt í hug (annað en að hún sé bara ákaflega grönn að eðlisfari) var að það gæti verið eitthvað samhengi milli hægðatregðunnar og hægrar sprettu og hún fær núna mixtúru sem ýtir aðeins við starfseminni í neðra svo hún er duglegri að skila af sér. Síðan verður bara fylgst með henni áfram.
Svo má geta þess að Ágúst Ísleifur er orðinn stór strákur sem hjólar á tvíhjóli (jafnvægishjóli), notar ekki snuð nema á nóttunni og sefur ekki lengur í rimlarúmi heldur í svakalega flottri koju sem ég keypti handa þeim systkinum (Ágúst Ísleifur er á neðri hæðinni enn sem komið er og bangsarnir á efri hæðinni). Kojuna keypti ég notaða í Árósum á dandalagóðu verði og hún getur líka staðið sem tvö barnarúm 150x70. Hann þekkir líka tölustafina og fullt af bókstöfum. En kann hann að pissa í kopp? Onei....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2011 | 20:27
Kerran góða
Phil&Teds systkinakerran sem ég keypti í janúar á skilið að fá sérfærslu. Ég get varla lýst því hvað hún hefur komið sér vel og auðveldað mér lífið. Í stað þess að það sé óttalegt vesen að fara út með bæði krílin þá er það ekkert mál.
Þegar minna barnið er algjört smábarn þá lítur kerran svona út:
Hekla Sigríður liggur þarna út af í sjálfri aðalkerrunni (inn að aftan) og Ágúst Ísleifur situr í aukasætinu sem er smellt ofan á. Það er dálítið gaman að því hvað Hekla er ósýnileg þegar hún er geymd þarna í skottinu, fólk verður furðu lostið þegar aukabarnið kemur í ljós. Núna er ég reyndar búin að breyta uppsetningunni á kerrunni (fjölhæf græja) þannig að Hekla situr hálfupprétt (í aukasætinu sem er núna smellt aftan á) fyrir aftan bróður sinn (í aðalsætinu uppréttu) og getur skoðað heiminn, en ég á eftir að festa það á myndflögu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2011 | 18:31
Og meiri jólamyndir
Þessi stúlka ber af öðrum í yndisþokka:
Hallveig og Ágúst Ísleifur í hrókasamræðum yfir heitu jólasúkkulaði:
Ísleifur alsæll með lestirnar sem hann fékk frá ömmu Guðnýju:
Jólasettið hennar Heklu, amma Guðný prjónaði peysuna, hosurnar og húfu á Ágúst Ísleif (búið að skipta um lit á tölum og borða) og bætti svo við kjól handa litlu systur:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2011 | 10:12
Púff...
Ég hef ekki náð andanum undanfarið en núna er loksins smá slökun. Jólin voru auðvitað svaaaka stuð með afa og ömmu og Hallveigu frænku, ég stóð vaktina "bak við eldavélina" og við átum á okkur hvert gatið á fætur öðru. Að sjálfsögðu þurfti ég að leggjast með tærnar upp í loft til að jafna mig þegar stóðið var farið og var ósköp fegin að senda Ágúst Ísleif til dagmömmunnar á meðan . Sú sæla entist þó ekki lengi því stráksi fékk lungnabólgu og átti hriiiiiikalega bágt greyið og hafði allt á hornum sér. Hann var til skiptis hálfrænulaus með háan hita eða þá heldur hressari eftir að hann fékk stíl, nógu hress til að gala og góla og kvarta yfir því hvað honum leið illa. Stundum vissi ég hreinlega ekki hvort var skárra að gefa honum stíl eða bara hafa hann rænulausan uppi í rúmi... Læknisferðir á miðvikudag (út af ÁÍ) og föstudag (út af Heklu) voru ævintýralegar, ég þurfti náttúrulega að drösla þeim báðum með mér og í fyrri ferðinni öskraði Ágúst Ísleifur út í eitt á biðstofunni og í seinni ferðinni (þegar hann var orðinn hressari og líka mátulega langt frá því að hann fékk stíl) hljóp hann um allt snaróður úff. Uppeldið fór algjörlega til fj...ans meðan á veikindunum stóð, ég lét allt eftir honum til að halda honum ó-öskrandi þannig að þegar hann var orðinn frískur hélt hann samt áfram að orga t.d. "meiji úís" (meiri rúsínur, það eina sem hann fékkst til að borða þegar hann var veikastur) og "hovvvva" (horfa á teiknimynd). Pabbinn var því miður ekki alveg nógu mikið heima og gisti í Odense eina nótt vegna námskeiðs, það var skrautleg nótt. Sem betur fer er Ágúst Ísleifur núna kominn aftur til Selmu dagmömmu (organdi "eih Seeeehmu" að sjálfsögðu) og fer vonandi að rifjast upp fyrir honum hvað hann er í raun ljúfur og góður drengur .
Hekla veiktist líka, fékk slæman hósta og hita og ég var skíthrædd um að hún væri líka að fá lungnabólgu en læknir dæmdi hana með venjulega kvefpest. Hún er enn hálftuskuleg með hósta og hor en öll að koma til. Hún var vigtuð og skoðuð vegna kúkaleysis í leiðinni, hún er nefnilega lítið fyrir það að gera í bleiuna og meðaltalið er komið í 13 daga. Svo þyngist hún alls ekki nóg samkvæmt stöðlum, fylgir engum kúrfum nema sinni eigin sem er heldur flöt og ekki komið nema 1.15kg frá fæðingu, það þykir ekki fínt í samanburði við búttuð Michelin-börn. Hún verður í eftirliti áfram þó að ekki sé farið að grípa til neinna aðgerða.
Já eins og fram hefur komið eru blessuð börnin TVÖ en bara pláss fyrir EITT í barnavagninum. Það getur skapað vandamál (t.d. Ágúst Ísleifur að henda sér organdi í götuna af því að hann vill ekki labba) og ég hef verið að klóra mér í kollinum. Komst að þeirri niðurstöðu að best væri að kaupa systkinapall sem Ágúst Ísleifur getur staðið á og rúllað með, ætlaði að splæsa í einn notaðan á heilar töttöguogfimmkrónurdanskar til reynslu en úpps skyndilega var ég búin að kaupa Phil&Teds systkinakerru í staðinn. Það tók eiginlega steininn úr þegar ég fór með þau til læknisins á miðvikudaginn, Ágúst Ísleifur organdi í kerrunni, Hekla í sjalinu og frekar erfitt að halda á Sleibba líka til að hugga hann, taka þá Heklu úr sjalinu, setja hana í vagninn í staðinn, æ þá fer hún að góla etc etc. Ég gekk semsagt frá kaupum á kerru þegar ég kom heim úr læknisferðinni Því miður kom hún ekki í hús fyrr en á meðan ég var hjá lækninum á föstudaginn (keypti notaða og eigandinn átti leið hjá) svo hún var ekki vígð fyrr en í morgun þegar ég trillaði systkinunum til Selmu, Ágúst Ísleifur í hásæti ofan á og Hekla Sigríður kúrandi í "skottinu". Kerran er ekki fyrirferðarmeiri en venjuleg eins-barns-kerra og ekkert mál að fara í strætó og hvert sem manni sýnist, jibbíjeij . Pabbinn er aðeins skeptískur á hversu NAUÐSYNLEGT hafi verið að kaupa enn eina græjuna inn á heimilið, en ég leysti það mál með því að kaupa kerruna meðan hann var á námskeiðinu í Odense . Myndir síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)