Páskaferðasaga

Svakalegri páskaferð er lokið, 11 lestir, 1 flug, óteljandi strætóar og sporvagnar, 2 börn og 2 foreldrar.

Páskaferðin kort

Við lögðum af stað um kvöldmatarleytið 19. apríl til Elínar&co í Muggensturm. Strætó út á brautarstöð og lest til Kolding. Þar biðum við í 50 mínútur eftir næturlestinni til Karlsruhe. Það vildi svo skemmtilega til að það var nýbúið að rífa niður klósettin á brautarstöðinni svo Ágúst Ísleifur gekk um með væna klessu á bossanum þar til við komumst í lestina, það átti eftir að koma sér illa síðar.

Næturlestin hét því fína nafni City Night Line en var ekkert mjög fín, skv. óáreiðanlegum heimildum eyddi hún æskuárunum í Rússlandi einhvern tímann á síðustu öld og lúxusinn eftir því. Við vorum með sér-svefnklefa fyrir fjörugu fjölskylduna þar sem var boðið upp á kojur á 3 hæðum með svefnplássi fyrir 6 fullorðna. Það tók dágóðan tíma að ná börnunum niður og að ná brúklegri svefnstellingu á ansi hörðum svefnbekk (ég með Heklu klessta upp við mig) en það endaði með því að sólin reis í austri og þá var aldeilis gott að hafragrauturinn hans Ágústar Ísleifs var með í för.

Elín var síðan mætt á brautarstöðina á nýja ofur-fjölskyldubílnum að sækja okkur og heima í Muggensturm biðu amma Sigga og Nanna spenntar. Elín og Hekla voru að hittast í fyrsta sinn og voru báðar sáttar. Hekla og Nanna voru líka að hittast í fyrsta sinn og urðu strax góðar vinkonur.

Páskar 11 hjá Elínu 001 (Large)

Við drifum okkur fljótlega í vettvangsferð að skoða gröfurnar hans Adrians. Ágúst Ísleifur var reyndar ekkert mjög kátur í þeirri ferð enda sveið hann voðalega í bossann. Hann varð heldur aumur í neðra eftir biðina á brautarstöðinni í Kolding en ofan í það fékk hann í magann og var sífellt gerandi í bleiuna fyrsta daginn í Muggensturm og fór að háskæla í hvert sinn af því hvað hann sveið mikið.

Páskar 11 hjá Elínu 008 (Large)

Ágúst Ísleifur var alls ekki sá eini sem fékk í magann því pabbi hans varð fljótlega eitthvað undarlegur, Vala fékk 1/2 sólarhrings gubbupest og síðan steinlá ég í tvo daga með hressilega steinsmugu og hita. Þetta gerist í hvert einasta skipti sem ég heimsæki Elínu, þá liggja 2-3 með magapest.

En hvað sem því líður þá var líf og fjör með 5 börn á aldrinum 0-5 ára á heimilinu. Ég lagði mikið á mig til að ná mynd af frændsystkinunum saman og eftir 135 tökur var þetta niðurstaðan:

Páskar 11 hjá Elínu 099 burt með puttana (Large)

Það er verið að kanna hitastigið í heita pottinum og busla svolítið. Ágúst Ísleifur tæplega 3 ára, Vala rúmlega 3 ára, Nanna 1 1/2 árs, Selma 5 1/2 árs og Hekla 1/2 árs. Aldeilis fríður flokkur.

Það náðust nú fleiri myndir af þeim saman, en ákaflega misgóðar.

Páskar 11 hjá Elínu 064 (Large)

Nú við héngum ekki bara heima að taka myndir heldur fórum líka í dýra/leiktækjagarðinn í Muggensturm. Selma hjólaði á hjólinu sínu og Ágúst Ísleifur fékk lánað jafnvægishjólið hennar Völu (það var áður en Vala áttaði sig á því að Ágústi Ísleifi fyndist voða gaman að hjóla á hjólinu HENNAR og það væri betra að hún héldi því bara fyrir sjálfa sig og bannaði honum að fá það lánað).

Páskar2 11 hjá Elínu 008 (Large)

Selma og Hekla spjölluðu mikið saman:

Páskar2 11 hjá Elínu 025 (Large)

Og Amma Sigga fékk líka að vera með:

Páskar2 11 hjá Elínu 069 (Large)

Síðan rann páskadagur upp skýr og fagur. Það var ekki lögð mikil áhersla á upprisu Krists heldur var meiri spenna yfir því hvað páskahérinn hefði verið að bardúsa um nóttina. Í Þýskalandi býr nefnilega mjög rausnarlegur páskahéri sem felur páskaegg og gjafir handa þægum börnum. Allir krakkarnir tóku þátt í leitinni (með mismikilli aðstoð) og allir fengu eitthvað fallegt.

Páskar2 11 hjá Elínu 086 (Large)     Páskar2 11 hjá Elínu 088 (Large)

Páskar2 11 hjá Elínu 096 (Large)

Til dæmis fékk Vala nýtt rúm

Páskar2 11 hjá Elínu 102 (Large)

Selma fékk nýtt hjól

Páskar2 11 hjá Elínu 130 (Large)

Nanna og Elín fengu hjálma

Páskar2 11 hjá Elínu 132 (Large)

Hekla fékk sólhatt og sólgleraugu

Páskar2 11 hjá Elínu 123 (Large)

og Ágúst Ísleifur fékk ósköpin öll af bílum sem því miður týndust, hann hefur sennilega sett þá á "góðan" stað.

Öllum að óvörum var Haukur mættur í páskastuðið, síðast hafði sést til hans í Horsens nokkrum dögum fyrr, en hann gerði sér lítið fyrir og hjólaði þaðan til Elínar. Í þessum töluðum orðum er hann að gera sér enn minna fyrir og hjóla til Santiago de Compostela á Spáni, en það er önnur saga.

En til að gera allt of langa sögu aðeins styttri þá yfirgáfum við Elínu 26. apríl og tókum lest til Belgíu. Eftir 3 lestir vorum við komin á brautarstöðina í Gent og þar tók Hallveig systir Ágústar á móti okkur. Hún varð voða glöð að sjá okkur en leist samt ekki á blikuna þegar hún taldi komumenn. Ágúst Ingi - tjékk. Lára Bryndís - tjékk. Ágúst Ísleifur - tjékk. En hvar var Hekla, gleymdist hún? Sem betur fer sat hún bara í aftursætinu á systkinakerrunni góðu (sem Hallveig hafði aldrei séð) svo allir gátu andað léttar. Við tróðum okkur svo inn í pínulitlu íbúðina sem Hallveig deilir með kisunum sínum tveimur. Köttunum leist reyndar ekki á blikuna og sá feimnari lét ekki sjá sig fyrr en á þriðja degi. Hallveig sem var voða glöð að sjá okkur var kannski aðeins minna glöð þegar Hekla öskraði alla fyrstu nóttina (þetta er stúdíóíbúð) og var orðin hundveik greyið. Hún var send til læknis um morguninn og reyndist vera komin með bullandi eyrnabólgu og fékk sýklalyf og verkjalyf. Eftir þessa byrjunarörðugleika gekk Gent-dvölin prýðilega; við skoðuðum bæinn, fórum í udflugt til Oostende og Brugge, drukkum heilmikið af belgískum bjór og tróðum okkur út af súkkulaði og frönskum kartöflum með mæjó.

Páskar 11 Gent 004 (Large)

Síðasti leggurinn var síðan lest til Brussel 1. maí, flug til Kaupmannahafnar og lest til Horsens.

Það er ekkert grín að vera lítill gutti á svona ferðalagi, sífellt nýjar aðstæður, nýtt fólk, má ekki þetta og má ekki hitt, en Ágúst Ísleifur stóð sig ótrúlega vel. Honum var reyndar eiginlega öllum lokið þegar við komum til Hallveigar eftir 6 tíma ferðalag í staðinn fyrir að koma HEIM, en tók gleði sína fljótt aftur. Það voru nú allir fegnir þegar við loksins komum heim, og Ágúst Ísleifur sjálfur ábyggilega ósköp feginn að komast til dagmömmunnar á mánudagsmorgun, loksins allt eins og það átti að vera!

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilega ferðasögu. Ég þarf greinilega að koma við í Þýskalandi um páska og athuga hverju hérinn þar hefur verið að safna fyrir mig í gegnum tíðina!

Já og flott hár!

Dagbjört (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband