Þytur í laufi

Einhvern veginn hugsa ég ekki um Danmörku sem rokrassgat, en þó verður að segjast að einhvern veginn snúast vindmyllurnar. Það var svo hvasst í dag að tré hafa verið á fleygiferð um allt land, trampólín í veg fyrir lestina milli Horsens og Árósa (ég var ekki í henni), takmörkuð umferð um stóru brýrnar og svo framvegis. Ég hélt auðvitað að þetta gæti ekki verið svo slæmt, skellti Heklu í hjólavagninn og hjólaði af stað í ræktina. Hafði sem betur fer vit á því að fara aðra leið svo ég væri ekki á berangri uppi á háhæðinni (þar sem heitir Blæsbjergvej = rokrassgatsvegur), rétt dreif á móti vindi og var skíthrædd um að vagninn færi á flug í verstu hviðunum. En sem betur fer er Hekla búin að borða svo mikinn graut síðustu daga að hún er ágætis kjölfesta fyrir vagninn Shocking. Ljósi punkturinn er sá að ég þurfti ekki að hjóla heim, meðvindurinn sá til þess Whistling.

Það á hins vegar að vera sól og sumar á morgun og ábyggilega brjálæðislega góð illgresisspretta. Vonandi fer limgerðið hjá okkur bráðum að laufgast almennilega svo að ég sjái ekki hvað nágrannarnir eru duglegir í görðunum, apríl rétt byrjaður og við erum strax að tapa baráttunni við illgresið. Ég kættist reyndar í dag yfir illgresisupprætingarkæruleysi, það er nefnilega þannig að utan við limgerðið með fram götunni er ca. 50 cm rönd af einhverju sem á eiginlega bara að vera sandur, en í okkar tilfelli er það aðallega illgresi. Það sem hefur bjargað okkur síðustu tvö sumur er að þessi ræma er reglulega grafin upp til að leggja ljósleiðara og þvíumlíkt, reyndar er alltaf tekið fram að vinnusvæðinu verði "skilað í sama ástandi" en ég hef ekkert verið að standa í því að kvarta yfir að allir fínu njólarnir, brenninetlurnar og fíflarnir séu horfnir og bara eintómur sandur í staðinn. En þessi ljóta illgresissandræma er bara fyrir framan 4 fyrstu húsin hvorum megin í götunni, rest er malbikað (og alltaf nýmalbikað því það er alltaf verið að grafa það upp og skila "í sama ástandi") og í dag kom bréf frá "Lindeparkens ejerforening" þar sem kom fram að á aðalfundinum í næstu viku verði lögð fram tillaga um að ómalbikuðu gangstéttirnar/drulluræmurnar "istandsættes til samme æstetiske og kvalitetsmæssige niveau som í den øvre del af gaden". Sem sagt, af því að arfaröndin okkar er svo ljót og illa hirt þá á að malbika allt draslið (af fagurfræðilegum ástæðum), JIBBÝÝÝ!!! W00t.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband