Um daginn og veginn

Jæja hvað er búið að vera á seyði upp á síðkastið? Við Hekla fórum af bæ um þarsíðustu helgi, skelltum okkur í æfingabúðir í Viborg með Gaia, hrikalega góða kórnum sem ég syng með í Árósum. Við vorum svo heppnar að foreldrar Antons (besta vinar Ágústar Ísleifs) bjuggu í Viborg löngu áður en Anton fæddist og Ingunn reddaði okkur þrusugóðri barnapíu sem krúttaðist í Heklu meðan ég söng Arvo Pärt, James MacMillan, Bach o.fl. gúmmelaði.

Já og loksins loksins loksins loksins er Odense-útlegðinni lokið hjá Ágústi og hann byrjaði aftur að vinna í Horsens 1. apríl, semsagt síðasta föstudag. Enn sem komið er höfum við ekki sést neitt meira en þegar hann var í Odense. Hann kom heim úr vinnunni á föstudaginn, henti dóti í ferðatösku og stakk af til Parísar með Munkakór Klausturkirkjunnar (grínlaust), kom heim seint á sunnudagskvöldi, fór í vinnuna á mánudaginn, kom ekki heim fyrr en eftir dúk og disk því það var fundur eftir vinnu, eftir vinnu á þriðjudaginn fór hann beint á kóræfingu og að syngja á tónleikum, frí á miðvikudaginn (í gær) en úbbs þurfti samt að gera heilan helling í Odense (!) og kom ekki heim fyrr en kl. 22. Við trúum samt á betri tíð með blóm í haga Happy.

Hekla er orðin að svakalegum skriðdreka, þeysir um allt án þess að blikka auga og lætur ekki þröskulda stoppa sig eins og Ágúst Ísleifur forðum daga. Ég held að stóribró hafi verið ca. 9 mánaða þegar við KENNDUM honum að skríða yfir þröskuldinn milli stofu og borðstofu, hann festist nefnilega alltaf og fór að skæla. Hekla skellti sér hins vegar yfir hann í gær hjálpar- og hvatningarlaust, 6 mánaða og 1 dags takk fyrir. Svo laumar hún sér undir borð til að naga dimmerinn á standlampanum, japlar á öllu dótinu og bókunum hans Ágústar Ísleifs og er alsæl með þetta allt saman. Og það þýðir ekkert lengur að hafa hana í hvítum (=skítsælum) sokkabuxum og fínum kjólum, hún verður að vera í gallabuxum til að verða ekki rauð á hnjánum og helst einhverju dökku að ofan svo það komist ekki upp um hvað gólfin eru skítug Halo.

Ég laumast endrum og sinnum til að spila í jarðarförum og þá kemur sér vel að ég ættleiddi auka-ömmu fyrir Heklu. Ég "lenti" nefnilega í því fyrir mánuði að aðstoða við undirbúning og syngja í jarðarför hjá íslenskum manni hérna í Horsens. Hekla tók þátt í því og heillaði að sjálfsögðu alla viðstadda upp úr skónum og þar á meðal ekkjuna, svo ég ættleiddi frúna bara áður en ég fór heim úr erfidrykkjunni, og núna er hún búin að passa 2x meðan ég hef spilað í jarðarförum. Og haldiðekkibara að hún heiti Lára takk fyrir Tounge.

Ég er búin að fá smábarnasæti í hjólavagninn svo systkinin geta setið hlið við hlið (Hekla hefur farið með mér á hjólinu en þá hefur hún setið í bílstólnum sem tekur miklu meira pláss) og þau skemmta hvort öðru meðan ég hjóla. Við fórum í könnunarleiðangur um vesturbæ Horsens (við búum í austurbænum) í gær og fundum dandalagóðan leikvöll þar sem Hekla gat spólað í rennibrautinni meðan ég hjálpaði Ágústi Ísleifi að príla upp í risastóran kastala og þannig skemmtum við okkur góða stund. Það verður gaman þegar Hekla verður farin að sitja sjálf og getur dundað með dót á leikvellinum.

Að lokum um þyngd Heklu. Hún þyngist ekki eins og meðalbörn (enda er hún ekkert meðalbarn) en hér sést á kúrfu hvað hún er langt frá því:

Hekla þyngd-aldur

Hún fæddist tæplega meðalbarn í þyngd og ef hún hefði fylgt þeirri kúrfu (breiða strikinu) væri hún ca. 7.5 kg, en í staðinn hefur hún bara dregist jafnt og þétt aftur úr og er ekki nema 5.5 kg. Kannski ekki neitt svakalegur munur en allavega þá er fylgst með henni og ég reyni að lokka ofan í hana eins mikinn mat og mjólk og hægt er. Hún lafir hins vegar nokkurn veginn í meðaltalinu með lengdina svo það er bara spikið sem vantar Whistling


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, það er alltaf jafn brjálað að gera hjá ykkur greinilega. En gott að allir eru við góða heilsu og þú ert búin að næla þér í svona fína aðstoðarmenn víðsvegar um Danmörku. Hekla er kannski bara ein af þessu fólki sem bara fitnar ekki sama hvað það borðar og verður bara svona grönn og spengileg, og ekki eru nú foreldrarnir að drepast úr spiki ;o)

En á meðan hún er heilbriðg og glöð þá getur þetta ekki verið stóra málið, vei um ófá börnin sem hafa einmitt átt við svipað vandamál að stríða.

Kveðja frá klakanum þar sem spáð er páskahreti seint í apríl....hvað er eiginlega málið með það!!!

Jóna (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband